09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2775 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það má vissulega um það deila, hvort á að virða hv. 7. landsk. þm. svars. Í fyrri umferð 1. umr. veitti ég honum nokkrar vítur hér úr ræðustól fyrir að forðast efnisatriði máls og tala um allt milli himins og jarðar. Hitt vekur vægast sagt mikla furðu, maður er oft undrandi á þessum hv. þm., hvernig hann brýst hér um á hæl og hnakka — og út af hverju? Hvað er það sem gengur á, hvaða ósköp eru það sem á að fara að setja hér í lög? Það, sem á að fara að setja hér í lög, eru réttindi erlends verkafólks, að tryggt sé að það hafi ráðningarsamning til tiltekins tíma, ákvæði um flutning þess frá Íslandi að starfstíma loknum sé það ráðið erlendis, greiðsla á ferðakostnaði, ef erlendur maður verður fyrir veikindum á ráðningartímanum eða einhverjum óvæntum óhöppum, sem hann á ekki sök á, þá sé honum tryggður þessi réttur. Hvað er það annað sem er svona refsivert í þessu frv.? Það, sem er svona refsivert að dómi hv. 7. landsk., er að það er upplýsingaskylda til þessa verkafólks. Atvinnurekendur margir hverjir — rangt væri að segja að það væru allir — hafa gefið alrangar upplýsingar þegar það hefur komið hingað og ráðið það á röngum forsendum. Ég endurtek: Það væri ómaklegt að kenna þarna öllum frystihúsaeigendum eða starfsmönnum um.

Hvað gengur hér eiginlega á? Það er verið að tryggja þessu erlenda verkafólki, sem við þurfum að grípa til oft á tíðum, einföldustu mannsæmandi réttindi. Hv. 7. þm. landsk. ætlar algjörlega að komast úr sambandi. Þvílíkt og annað eins! Síðan óskapast hann þessi býsn yfir 6. gr., sem ég vildi nú, með leyfi forseta, lesa:

„Hvers konar áróður til þess fallinn að hvetja til innflutnings verkafólks til landsins er óheimill ef hann er villandi eða byggður á röngum eða ónógum upplýsingum.“ og þá segir hv. þm.: Þá má hrúga upp lögum. — Að vísu er það rétt hjá hv. þm., að sennilega er allt of mikið að því gert að hrúga upp lögum og mætti Alþingi fara að athuga það í heild sinni. En í sambandi við alla þessa lagamergð, ákaflega lítið af henni fjallar um réttindi verkafólks. Og ef þessi lög eru ofhlaðin, þá held ég að þetta sé það minnsta, vegna þess að aðilar hafa verið staðnir að því að senda verkafólk til Íslands með villandi upplýsingar, án ráðningarsamnings, og þetta fólk hefur staðið hér uppi vegalaust.

Það er von að hv. þm. þykist tala fyrir hönd verkafólks og réttlætis í landinu. Það er eðlilegt að hann vitni til sögunnar. Einhver alda átti að hafa skolað, skilst mér, mér og ýmsum forverum mínum inn á Alþingi. Hann fór ekki einu sinni rétt með, söguþekkingin var ekki meiri en það. Það voru einhver lög á sjómenn. Það, sem þm. á örugglega við, eru lög þar sem bannaðar voru almennt kauphækkanir í landinu og samningsréttur tekinn af. Verkföll voru óheimil, kauphækkanir voru óheimilar.

Og vitið, þekkingin á því máli sem um er fjallað hér, það er svipað og söguþekkingin. Þarna var allt annað og miklu meira mál á ferðinni, þessi alda sem viðkomandi þm. var að tala um.

Það má vel vera, að einhver atriði séu í þessu frv. sem megi breyta. Það má vel vera að einhverjar orðalagsbreytingar séu til hins betra. Það er sjálfsagt að athuga það í nefnd. Það er sjálfsagt að taka á móti till. frá hv. 7. lands. þm. þar að lútandi. En að umturnast hér dag eftir dag í ræðustól yfir því, að verið er að tryggja að erlent verkafólk, sem kemur til landsins, hafi eðlileg réttindi, hafi eðlilegar tryggingar og ákveðnar upplýsingar sé skylt að veita því, — að berjast gegn því er að mínu mati ósæmilegt.