10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2781 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

382. mál, norsku- og sænskukennsla í grunnskólum

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef af gildum ástæðum lagt eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. menntmrh. um norsku- og sænskukennslu í grunnskólum:

1. Samkv. lögum geta nemendur í grunnskólum, sem þess óska, tekið próf í norsku eða sænsku í stað dönsku. Hefur nemendum verið gert kleift að læra þessi tungumál?

2. Er norska eða sænska kennd í grunnskólum? Ef svo er, hvað mörgum?

3. Eru til kennslubækur í norsku og sænsku sem telja má við hæfi íslenskra nemenda?

4. Telur menntmrh. æskilegt að leggja eins mikla áherslu á dönskukennslu og gert hefur verið, í stað þess að auka kennslu í norsku og/eða sænsku?“

Í örfáum orðum vil ég geta ástæðunnar fyrir þessari fsp., en hún er einfaldlega sú, að það hefur sætt stöðugt meiri gagnrýni meðal foreldra barna, sem í grunnskóla fara, að nemendurnir skuli ekki geta átt þess kost að nema þar sænsku eða norsku í stað dönsku, enda er það almennt viðurkennt, að bæði sænska og norska gilda miklu fremur og miklu betur í hinu norræna samstarfi sem við tökum þátt í.

Þá er þess að geta einnig, að þetta hefur valdið talsverðum erfiðleikum vegna þeirra Íslendinga, sem flutt hafa til Svíþjóðar og Noregs, svo að dæmi séu tekin. Og það verður að segjast eins og er, að eins og sakir standa gengur danskan lakast skandinavísku málanna í því málasamstarfi sem Íslendingar þurfa að eiga við nágrannaþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum.