15.10.1980
Efri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

3. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Eiður Guðnason, 5. þm. Vesturl., hefur nú séð ástæðu til að leggja lykkju á leið sína, eins og stundum fyrr, og minnast á þyrlukaupin í hinni almennu umræðu um frv. til 1. um upplýsingar hjá atmannastofnunum. Ég sé ekki ástæðu til að gera þau kaup að löngu umræðuefni hér á þessum stað, en sjálfsagt er að gefa Alþ. skýrslu um slík kaup og hana sem sannasta og réttasta. Á hitt er að líta, að við hv. þm. voru báðir í fjvn. þangað til í gær eða svo og hefði því verið innan handar fyrir hann að spjalla við mig um þessi mál meðan við áttum þar sæti báðir. Nú erum við hins vegar báðir fyrrverandi á þeim vettvangi. Hann hefur ekki séð ástæðu til þess, þó að við séum þar að auki þm. sama kjördæmis og vel fari á með okkur yfirleitt.

Það var eitt og annað athyglisvert sem kom fram í máli hans, sem vakti hann til umhugsunar þegar hann sá þetta frv. Ég endurtek að ég mun, ef þingheimur óskar þess, gefa skýrslu um þessi títt nefndu þyrlukaup hvenær sem þess verður óskað, þó ég geri það ekki hér úr þessu ræðustóli í dag.

Ég vil aðeins segja það, sem mönnum hefur stundum sést yfir í sambandi við þyrlukaupin, að meginatriðið er að þar var verið að endurnýja þyrlu sem Landhelgisgæslan átti og fórst að mig minnir 3. okt. 1975. Ég hygg að flestir hv. alþm. séu þeirrar skoðunar að verið hafi full þörf á að fá vél í stað þeirrar sem brotlenti 1975, og að ekki sé með ólíkindum sá hraði á þeim málum, að það taki fimm ár að afla vélar í stað þeirrar sem fórst.

Annars ætla ég ekki, eins og ég sagði, að gera þetta mál frekar að umtalsefni nú í dag. En ég vonast eftir því, þar sem þessi tvö náskyldu mál á þskj. 2 og 3 eru nú lögð fram svo snemma þings, að hv. allshn. gefist nægur tími og gnótt tækifæra til að gaumgæfa þau og meginefni þeirra og stuðla að því, að þau verði að lögum a.m.k. áður en þingi lýkur.