10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil benda á það, að þegar menn ræða um skilyrði sem Alþingi Íslendinga setur, þá skiptir ekki aðeins máli hvað stendur í nál. hv. Ed., heldur einnig hvað stendur í nál. Nd. Svo virðist sem menn gangi út frá því í þessu máli, að það eitt skuli standa sem Ed. setti í sitt nál. Því miður var þetta mál ekki unnið sameiginlega af nefndunum, og í Nd. komust menn að nokkru leyti að annarri niðurstöðu. Varðandi skilyrði nr. 2, um að starfsfólki eða samtökum þess verði gefinn kostur á að kaupa hlutafé í Flugleiðum segir í nál. Nd.:

„Undirritaðir nm. telja mikilvægt að efla samstöðu og áhrif starfsfólks í stjórn félagsins. Í 47. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, segir: „Í samþykktum er heimilt að veita stjórnvöldum eða öðrum rétt til að tilnefna einn eða fleiri stjórnarmenn.“ Við teljum rétt að starfsfólk fái tækifæri til að tilnefna fulltrúa á þessum grundvelli og samþykktum félagsins verði breytt í þessu skyni.“

Við höfðum ekki mikla trú á því, að starfsmenn fengju aðild að stjórninni með því að kaupa hlutafé, og töldum að það væri hyggilegt að starfsfólk fengi aðild að stjórninni á þeim grundvelli að það er starfsfólk félagsins.

Í öðru lagi sögðum við um þriðja skilyrði, þar sem stendur að aðalfundur verði haldinn fyrir febrúarlok: „Stjórn félagsins telur að annmörkum sé háð að halda aðalfund í febrúar vegna ársuppgjörs. Samkv. 2. mgr. 47. gr. laga um hlutafélög skal hluthafafundur kjósa stjórn hlutafélags. Samkv. því er ekkert til fyrirstöðu að hluthafafundur verði haldinn í febrúar.“ Við töldum sem sagt nægilegt að það yrði haldinn hluthafafundur í febrúar en ekki aðalfundur. Og eftir því hefur verið farið, það hefur verið haldinn nú nýlega hluthafafundur.

Í þriðja lagði sögðum við um 6. atriðið þar sem var talað um að takmarka atkvæðisrétt einstakra hluthafa: „Undirritaðir nm. hafa ekkert við það að athuga, að nefndar viðræður fari fram, en vilja hins vegar benda á að hér er um að ræða réttarskerðingu einstakra aðila, en um það segir m. a. í 77. gr. hlutafélagalaga,“ o. s. frv.

Með þessu var nefnd Nd. að segja í reynd að þetta skilyrði væri óframkvæmanlegt samkvæmt gildandi lögum. Ég vil biðja menn um að hafa þetta nál. í huga þegar þeir eru að ræða þessi mál.