10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2794 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það voru aðallega ummæli, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson viðhafði hér áðan, sem gefa mér tilefni til að bæta nokkrum orðum í þessa umræðu. Hann sagði að það hefði, eftir á að hyggja, verið skynsamlegra ef farið hefði verið að tillögum Alþfl. Þetta er auðvitað hárrétt hjá hv. þm., og ég vona að hann taki sér þetta til fyrirmyndar í langtum fleiri málum en þessu.

Hins vegar hafa þessar umræður snúist svolítið einkennilega. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði áðan að yfirlýsing um þessi skilyrði hefði ígildi laga, menn hefðu komið sér saman um það. Menn geta ekki komið sér saman um neitt slíkt. Ekkert hefur ígildi laga nema lög sem Alþingi samþykkir. Og þannig hefði þetta orðið ef farið hefði verið að tillögum Alþfl. Það er alveg sama hverju hæstv, samgrh. — og jafnvel þó hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson komi þar til líka — lýsir yfir að það hafi lagagildi, það öðlast ekki lagagildi við það. Til þess verður að koma samþykki Alþingis.

Hins vegar sagði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson áðan að fyrirtækið, sem hér um ræðir, hefði ekki eða næstum því ekki uppfyllt skilyrðin. Hvernig ber að skilja þetta? Annaðhvort uppfylla menn skilyrði eða ekki. Hér greinir menn á um hvort það er eitt skilyrði eða þrjú sem ekki hafa verið uppfyllt. Og mér heyrist líka að formenn fjh.- og viðskn. greini í nokkrum atriðum á og að nefndarálitin hafi farið svolítið sitt í hvora áttina. Og hvort er það þá sem gildir? Mér heyrist að þar sé ekki alveg samhljómur hjartnanna a. m. k.

En að lokum vildi ég aðeins segja það, að það eru vissulega athyglisverðar upplýsingar sem hæstv. samgrh. greindi frá hér áðan um flugfargjöld í leiguflugi og áætlunarflugi að og frá landinu, og það er ærin ástæða til að hafa áhyggjur af því, ef allt er rétt sem fram kom hjá honum, sem ég hef enga ástæðu til að efast um.