10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér láðist að upplýsa áðan að í bréfi Flugleiða til starfsmannafélaganna, dags. 26. nóv., þar sem er beðið um svar fyrir 8. des., segir: „Tekið skal fram að gert er ráð fyrir staðgreiðslu bréfanna.“ En fyrir lá margrómað tilboð ríkisvaldsins um aðstoð við þá staðgreiðslu. Ég held að öllum hafi verið kunnugt um að slík fyrirgreiðsla kæmi til greina. Til mín leitaði enginn um slíka fyrirgreiðslu, og í viðræðum, sem ég átti við fulltrúa starfsmannafélaga eftir að þessi frestur var útrunninn, lýsti ég nokkurri furðu minni á því, að þetta tilboð skyldi ekki vera notað. Þá komu fram allt aðrar skýringa á því, hvers vegna svo hefði ekki orðið, heldur en hér hafa komið fram.

Það er nú því miður ekki tími til að ræða þetta víðtæka mál um leiguflugið. En ég vil upplýsa hv. þm. Árna Gunnarsson, þótt ég viti að hann sé manna fróðastur um flugmál og kannske margt fleira, að margt hefur verið athugað í þessu máli. Og þetta er satt að segja slíkur myrkviður, að ég efast um að jafnvel honum sé allt ljóst sem þar gerist.

Það er alveg rétt hjá honum, að vitanlega er það hinn litli markaður sem hefur takmarkað mjög möguleika okkar flugfélags til að sinna þessum málum. Hann komst þar að sömu niðurstöðu og ég, og e. t. v. þess vegna eru fargjöldin þetta há. En ég veit að hv. þm. er kunnugt um það, að Arnarflug er í höndum Flugleiða. Arnarflug hefur ekki fengið heimild til þess að bjóða í leiguflug á Skandinavíu. Þeim hefur ekki verið heimilað það af meiri hluta stjórnarinnar. Og ég veit ekki hvað hefði orðið ef Arnarflug hefði haft tækifæri til að bjóða í flug til Danmerkur. Ég þori ekkert að fullyrða um það. En margir telja að þá hefði fengist sambærilegt boð við það sem nú liggur fyrir.