10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2797 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

175. mál, ávöxtun skyldusparnaðar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni, 12. þm. Reykv., að það hefur tekið langan tíma að koma saman reglugerð um ávöxtun skyldusparnaðar, sem kveðið er á um í lögum um húsnæðismál, sem samþykkt voru hér á Alþingi s. l. vor. Ástæðan til þess er vitaskuld sú, að hér er um að ræða býsna flókið mál, og það er ekki fyrr en núna alveg síðustu daga að ég hef fengið í hendur uppkast að reglugerð um skyldusparnað frá þeirri nefnd sem unnið hefur að málinu fyrir mig. Reglugerðaruppkast þetta verður til meðferðar í húsnæðismálastjórn nú í dag, þriðjudag, og ég geri ekki ráð fyrir að það verði afgreitt frá stjórn stofnunarinnar í dag, heldur þá n. k. þriðjudag frekar. — Þá vænti ég að fyrri lið fsp. sé svarað.

Um síðari lið fsp. er það að segja, að það er auðvitað stjórn Byggingarsjóðs sem á að taka ásamt félmrh. formlega ákvörðun í málinu. Mín afstaða er sú, að þær reglur, sem kveðið er á um í lögunum, hljóti að gilda frá gildistökudegi laganna, þannig að þau ákvæði, sem útfærð eru nánar í reglugerðinni, verði að þessu leyti afturvirk. En ég tek fram að húsnæðismálastjórn hefur ekki tekið ákvörðun í þessu efni enn þá, ég er hér að lýsa minni afstöðu.

Með þessari ákvörðun og þeim lögum, sem samþykkt voru hér á Alþingi s. l. vor um skyldusparnað og húsnæðismál, verður sparnaðarform þetta sennilega eitt hagstæðasta sparnaðarform sem til er í landinu af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri, að það eru 2% vextir ofan á fulla verðtryggingu sem reiknast mánaðarlega. Og í öðru lagi af þeirri ástæðu, að þetta fé er skattfrjálst. Þegar þessi lög eru að fullu komin til framkvæmda og reglugerðin hefur verið gefin út, sem ég vænti að verði alveg á næstu dögum, þá er hér tvímælalaust um að ræða besta sparnaðarform sem kostur er á hér á landi.

Ég ætla að leyfa mér, þó að það sé kannske nokkuð óvenjulegt, að lesa hér upp lítinn kafla úr 1. gr. og 14. gr. reglugerðaruppkastsins sem fyrir liggur í þessum efnum. Þar segir í 1. gr.:

„Fé það, sem lagt er til hliðar á þennan hátt“, — þ. e. sem skyldusparnaður, — „er undanþegið tekjuskatti og útsvari. Sem eign er það, að vöxtum og verðbótum meðtöldum, skattfrjálst en framtalsskylt. Vextir af skyldusparifé skulu vera 2%, sbr. 33. gr. laga nr. 51 1980, auk fullrar verðtryggingar frá innborgunardegi til úttektardags, sbr. 15. gr. þessarar reglugerðar.“

Í 14. gr. uppkastsins segir:

„Hver sá, sem eignast hefur fé á skyldusparnaðarreikningi samkv. 1. gr. reglugerðar þessarar og rétt á til endurgreiðslu samkv. 5., 6., og 7. gr., skal eiga þess kost að fá sparifé sitt endurgreitt samkv. þeim lögum, sem nánar er sagt frá hér á ettir. Þann fyrsta hvers mánaðar, þegar ný lánsvísitala tekur gildi, er innistæða skyldusparnaðar uppfærð með sömu hlutfallslegri breytingu og orðið hefur á lánskjaravísitölu. Vextir samkv. 1. gr. reiknast sem dagsvextir af stöðu uppfærðs sparnaðar og leggjast við höfuðstól um hver áramót. Við næstu áramót eftir að skyldusparandi nær 26 ára aldri ber reikningur hans almenna sparisjóðsvexti eins og þeir eru á hverjum tíma, en verðtrygging samkv. lánskjaravísitölu og vextir samkv. 1. gr. falla þá jafnframt niður eftir að skyldusparnaðartímanum er lokið.“

Þannig lítur þetta út hér í uppkasti.

Hinn 23. okt. skipaði ég nefnd til að undirbúa reglugerð um þessi mál. Í henni voru fulltrúar frá ýmsum stofnunum sem um þessi mál fjalla. Verkefni samstarfshópsins var þetta: Í fyrsta lagi að semja reglugerð um skyldusparnað í samræmi við lög nr. 51 1980. Í öðru lagi að gera greina fyrir kostum og göllum þess að flytja skyldusparnað yfir til Póstgíróstofunnar. Í þriðja lagi að semja starfsreglur vegna framkvæmdar á skyldusparnaði í samræmi við áðurgreind lög, bæði á meðan hann er í vörslu veðdeildar og eins ef til komi að hann yrði fluttur til Póstgíróstofunnar. Og í fjórða lagi að athuga hvernig samræma mætti innheimtu og afgreiðslu við innheimtu orlofsfjár.

Hér er um afar umfangsmikið verkefni að ræða og hefur nefndin haldið fundi vikulega auk undirbúnings nefndarmanna fyrir fundi. Nefndin hefur látið vinna umfangsmikla útreikninga varðandi ávöxtun skyldusparifjár hjá Seðlabanka Íslands og Póstgíróstofunni, enda hafa setið í nefndinni menn sem eru sérfræðingar á sviði bankamála og skýrsluvéla, og segir hér í lok grg. sem mér hefur borist frá nefndinni um uppkastið að reglugerð sem nú liggur fyrir:

„Það uppkast að reglugerð, sem hér fylgir með, tekur ekki nema að hluta tillit til þess, að skyldusparnaður verði fluttur frá Veðdeildinni. Ástæðan er sú, að þessi nýja framkvæmd getur ekki hafist fyrr en í lok þessa árs og því er ekki rétt að festa nú í reglugerð ákvæði sem ekki verða virk fyrr en á árinu 1982. Starfshópurinn hefur hins vegar kannað hvaða breytingar þurfi að gera til þess að aðhæfa reglugerðina fyrirhugaðri breytingu á framkvæmd og á hvern hátt eðlilegast sé að samræma orlofs- og skyldusparnaðarreglugerðirnar. Þessi reglugerð hins vegar, sem hér fylgir með, tekur mið af þeim breytingum sem lög nr. 51 1980 kváðu á um varðandi meðferð skyldusparnaðar. Sérstakleg snertu lögin ákvæði um breytt ávöxtunarkjör,“ segir í grg. frá þeim starfshópi, sem unnið hefur það reglugerðaruppkast sem verður, eins og ég sagði áðan í svari við fsp, hv. þm., væntanlega afgreitt nú á næstu dögum.

Ég vænti þess, að ég hafi svarað þeirri fsp. sem hv. þm. bar fram. Ástæðurnar til þess, að það hefur dregist, eru einfaldlega þær, að málið var miklu flóknara og viðameira en menn höfðu gert sér í hugarlund þegar starfið hófst. Einkum var það þó það sem vafðist fyrir mönnum, að ljóst sýndist að ávöxtunarkjörin samkvæmt lögunum væru með ótvíræðum hætti miklu betri en almennt er í boði í okkar sparnaðarkerfi. Þurfti m. a. að leita álits lagadeildar Háskóla Íslands á einstökum atriðum reglugerðarinnar, vegna þess hve flókið málið er, áður en frá því var gengið af hálfu samstarfshópsins.