10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

175. mál, ávöxtun skyldusparnaðar

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans og vona að það sé rétt, að þetta mál sé nú loksins að komast í höfn. Ég vil hins vegar segja það, að mér þykir þetta mál hafa tekið allt of langan tíma. Það er nú bráðum ár frá því að lögin tóku gildi, og drögin eru væntanlega núna að sjá dagsins ljós sem reglugerð. Ég vil ekki draga úr því sem félmrh. sagði, að hér sé um flókið og viðamikið mál að ræða. Það er sjálfsagt alveg rétt. En mér þykir tíminn orðinn ærið langur og þetta er mál sem mjög marga snertir.

Ég fagna því sem félmrh. sagði, að hans skilningur væri sá, að þessi ávöxtun skyldusparnaðar, sem kveðið er á um í lögunum, skuli taka gildi um leið og lögin taka gildi. Mér sýnist það alveg einsýnt að svo skuli vera, og ég á satt að segja dálítið erfitt með að sætta mig við það, að eitthvert ráð eða einhverjir fundir úti í bæ fjalli um það á annan hátt.

Félmrh. sagði að með því formi, sem lögin hafa ákveðið varðandi þessa ávöxtun, sé þarna um að ræða hagstæðasta sparnaðarform sem unnt er að finna í þjóðfélaginu. Ég held að það sé alveg ótvírætt, að þegar ríkisvaldið leggur á ungt fólk skyldusparnað, þá hljóti ávöxtun slíks skyldusparnaðar að vera fyllilega sambærileg við það besta sem unnt er að fá fram í þjóðfélaginu. Slík ávöxtun má ekki vera lakari en það besta sem unnt er að fá.

Ég vonast til að þessi reglugerð, sem ráðh. er nú að láta setja, verði mikil bót á þessum málum. Að vísu er erfitt að festa hendur á því, sem lesið er upp hér í ræðustól, án þess að fá að sjá þessa reglugerð, en ég vonast til þess, að þar verði kveðið á um úrbætur varðandi framkvæmd þessa skyldusparnaðar sem hefur ekki verið nægilega góð.

En hvað um það, ég fagna því, að þetta mál er nú loks að komast í höfn, og þeim ummælum, sem félmrh. lét hér falla um ávöxtun skyldusparnaðarins á þeim tíma frá því að lögin voru sett þar til reglugerðin tekur gildi.