04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

354. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort ríkisstj. hyggist ekki gera einhverjar ráðstafanir til að mæta þeim vanda er við blasir hjá bændastéttinni í landinu, þar sem augljóst er að lögbundnar útflutningsbætur nægi ekki til þess að bændur fái greitt fullt grundvallarverð fyrir afurðir sínar á verðlagsárinu 1979–1980. Sem svar við þessari fsp. vil ég greina frá eftirfarandi.

Eftir að núv. ríkisstj. tók við var ákveðið með sérstökum lögum frá Alþ. að verja 3000 millj. kr. til að mæta halla af útflutningi landbúnaðarafurða. Af þessum 3000 millj. kr. var 2000 millj. varið til verðuppbóta vegna halla á útflutningi búvara á verðlagsárinu 1978–1979, en 1000 millj. kr. til að mæta halla af útflutningi búvara á síðasta verðlagsári, 1979–1980. En eins og kunnugt er hefst hvert verðlagsár landbúnaðarafurða 1. sept. og lýkur 31. ágúst árið eftir.

Samkv. lögum nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarafurðum o.fl., skal Hagstofa Íslands gera áætlun um heildarverðmæti landbúnaðarafurða hvert verðlagsár sem setur hámark fyrir verðábyrgð ríkissjóðs vegna útfluttra landbúnaðarafurða, þ.e. útflutningsbóta, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum. Vegna þess, hversu skammt er liðið frá lokum verðlagsársins, hefur Hagstofa Íslands ekki lokið þessari áætlun. Hins vegar eru líkur á að lögákveðin verðábyrgð ríkissjóðs vegna útfluttra landbúnaðarafurða fari mjög nálægt áætlun í fjárlögum á þessu ári, sem er 8400 millj. kr. Enn liggur ekki endanlega fyrir hversu há útflutningsbótaþörfin muni vera vegna síðasta verðlagsárs, vegna þess að uppgjör reikninga getur ekki farið fram fyrr en full gjaldeyrisskil eru um garð gengin, en samkv. bráðabirgðaáætlun frá því í sumar um útflutningsbótaréttinn og úrflutningsbótaþörfina er áætlað að vanti um 5600 millj. kr. til að ná fullu grundvallarverði til bænda. Þar af er búið að veita einn milljarð kr. til að brúa þetta bil, svo sem áður er nefnt.

Ekki eru uppi tillögur um það að brúa þetta bil að fullu, en ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir því, að á lánsfjáráætlun 1981 verði ráðstafað 1700 millj. kr. til að mæta halla vegna útfluttra landbúnaðarafurða frá síðasta verðlagsári, og mun sú fyrirgreiðsla væntanlega koma til framkvæmda þannig að greiðsla geti farið fram í jan. og febr. á næsta ári. Ríkissjóður hefur fram til þessa greitt 8109 millj. kr. í útflutningsuppbætur vegna síðasta verðlagsárs, en mun greiða fulla fjárhæð samkv. lögum þar um þegar áætlun Hagstofu Íslands um heildarverðmæti landbúnaðarafurða liggur fyrir.

Að ýmsu leyti er unnið að því að byggja upp nýjar tekjuöflunarleiðir í sveitum til þess að mæta þeim samdráttaraðgerðum sem eru í gangi vegna svokallaðrar offramleiðslu búvara. Mun ég ekki fara langt út í þá sálma í þessum fsp.-tíma. En það var mjög rétt, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að það tímabil, sem nú stendur yfir, þegar nauðsynlegt þykir að draga saman a.m.k. mjólkurframleiðsluna, er tímabil sem þarf að mæta með aukinni aðstoð. ríkisins, bæði að því er snertir verðábyrgð ríkissjóðs, eins og ég hef hér gefið upplýsingar um, og einnig með því að undirbyggja og reyna að efla fleiri tekjuöflunarleiðir í sveitum landsins. Þó að þær tekjuöflunarleiðir komist e.t.v. ekki í það horf að gefa mikinn arð þegar í stað, þá verðum við að vinna að því að byggja upp afkomumöguleika fyrir það fólk, sem sveitirnar byggir, þannig að þar geti blómgast líf og efnahagur á komandi tímum.

Ég tel að í þessum orðum mínum felist skilningur á því, að nauðsynlegt sé að mæta þessum vanda þannig að um aðlögunartíma sé að ræða fyrir bændastéttina. Á þeim aðlögunartíma þarf að vera um aukna aðstoð ríkisins að ræða. Væntanlega fer sú aukna aðstoð ríkisins minnkandi, miðað við það að samdráttur hefur orðið í framleiðslu, a.m.k. í framleiðslu mjólkurafurða, og þá verður jafnframt hægt að létta á þeim samdráttaraðgerðum sem nú eru í gangi og hafnar eru á vegum bændasamtakanna.

Ég tel að með þessum orðum sé fsp. hv. 5. þm. Austurl. svarað. En ég vil gjarnan leggja áherslu á þau orð, sem voru lokaorð hv. þm., að vandi landbúnaðarins er um leið vandi þjóðfélagsins í heild og þann vanda þarf þjóðfélagið allt að leggja nokkuð af mörkum til að leysa.