10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

205. mál, graskögglaverksmiðja

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. frsm. fyrir skýran málflutning hér og raunar þeim félögum öllum fyrir að flytja þetta mál hingað inn á Alþingi. Eins og fram kom hjá honum eru miklir möguleikar bundnir í þessum fóðuriðnaði sem stundaður hefur verið í landinu frá því fljótlega upp úr 1962, þannig að á þessa starfsemi er komin æðimikil reynsla. Og reynsla er komin á ýmsa hluti aðra en þá, hvernig gengur að afla hráefnis og hvernig gengur að umsetja það í landbúnaðinum. Það er líka komin reynsla á það kerfi sem þessi framleiðsla byggir á. Og það, sem þarf umfram allt að taka til athugunar og er eiginlega algjör forsenda þess, að þessi starfsemi geti byggst upp með eðlilegum hætti, er að endurskoða þau lög og þær reglur og það form sem komið er á í sambandi við þessa starfsemi.

Ég hygg að þau einu lög, sem til eru um fóðuriðnað hér á landi, séu frá árinu 1972. Þau voru einmitt sett eftir tíu ára starfsemi þriggja graskögglaverksmiðja, og má segja að þau hafi verið sett út frá því formi sem þar var komið á. Það byggðist á því, eins og mönnum er væntanlega kunnugt, að það var ríkið sem byggði upp þessar verksmiðjur einkum, þ. e. var þá orðinn eigandi allra verksmiðjanna nema einnar. Og þetta er einmitt það sem þarf að breyta.

Nú var það einu sinni hér á Alþingi að Sverrir Hermannsson flutti till. til þál. um það, að eignaraðild að verksmiðjunni í Flatey yrði þannig fyrir komið að bændur eða samtök þeirra í Austur-Skaftafellssýslu gætu eignast hlut í henni. Þessi till. var ekki afgreidd hér á Alþingi og í umsögnum um hana komu ekki fram alfarið jákvæðar undirtektir við þessa tillögugerð. En á síðasta aðalfundi Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga var samþykkt tillaga þar sem beint var til þm. Austurlands að vinna að því, að eignarhlutdeild í verksmiðjunni í Flatey gæti breyst þannig að þetta yrði fyrirtæki sem bændurnir í Austur-Skaftafellssýslu eignuðust og rækju. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt, ekki síst með tilliti til þess stjórnarforms sem er á þessum verksmiðjum, þ. e. að það eru stjórnir heima í héruðum, skipaðar tveimur mönnum, en hins vegar skipar landnámsstjóri eða fulltrúi hans formannssætið í þessum nefndum, svo að í rauninni eru þessar nefndir alveg valdalausar og hafa þannig tiltölulega mjög lítil áhrif á þennan rekstur allan. Það, sem vantar hér framar öllu, er ákveðið samband á milli þessarar starfsemi og bændanna sjálfra, líkt og gerist t. d. í sambandi við afurðafélög eða annan þann félagsskap sem bændurnir hafa myndað um sín hagsmunamál.

Annað mikilvægt atriði er líka núna mikill þröskuldur í þessari starfsemi, og það er verðákvörðunin, verðákvörðunin á framleiðsluvörunni hvert ár. Þar er um að ræða það form, að líklega helst landnámsstjóri og þá kannske verksmiðjustjórarnir gera um það tillögur til landbrh., hvert verðið á að vera á hverjum tíma. Og þannig hefur t. d. tekist til nú á þessu ári, að í skjóli kjarnfóðurgjaldsins, sem var sett á, var verðið á graskögglum ákveðið það hátt að sala þeirra hefur gengið langtum tregar en áður hefur gerst. Og það eina, sem getur nú bjargað a. m. k. sumum þessum fyrirtækum í sambandi við sölu á framleiðslunni, er að það verði nógu hart í vori. Þetta er allt saman mjög alvarlegt, og það er nauðsynlegt að þessi ábyrgð og þessar ákvarðanir allar verði færðar til þeirra sem eiga að kaupa og nota þessa framleiðslu.

Tillöguflutningurinn, sem hér um ræðir, er þess vegna sérstaklega mikilvægur með tilliti til þess, að hann er enn ein mjög ákveðin ábending í þá veru, að það þurfi að breyta þessu kerfi.

Nú er það þannig, að m. a. vegna starfa minna á Búnaðarþingi er mér vel ljóst hvað Borgfirðingar eru búnir að vinna í þessum efnum, sem er til mikillar fyrirmyndar. Og í raun fæ ég ekki séð hvað það er sérstaklega sem hindrar þá í að byggja þessar verksmiðjur. Ég held t. d. að það hefði verið stórum auðveldara að byggja graskögglaverksmiðjuna í Flatey, ef það hefði verið gert á vegum félagssamtaka bænda í Austur-Skaftafellssýslu, heldur en með aðild ríkisins. Það eru mörg ljón á vegi sem verður til vegna þess að ríkið á aðild að þessari uppbyggingu.

Ég get í þessum efnum nefnt tvö dæmi. Annað er varðandi stofnlán. Þegar verið var að leita eftir stofnlánum til graskögglaverksmiðjunnar í Flatey, þá kom einfaldlega það svar, að áður en hægt væri að fara að lána ríkinu úr Stofnlánadeild landbúnaðarins væri eðlilegt að ríkið tryggði rekstur verksmiðjunnar að öðru leyti. Þótt við höfum kannske, þegar verksmiðjan í Flatey var byggð upp, ekki sérstaklega þurft að verða fyrir barðinu á Innkaupastofnun ríkisins og hún sýndi reyndar nokkuð mikil liðlegheit þá, er það þó á allra vitorði, að í sambandi við slíkar framkvæmdir sem þessar er ákaflega þýðingarmikið að það þurfi ekki að vera háð sams konar kerfi og þar um ræðir. Eini, alls eini vinningurinn, sem fylgir því að ríkið hugsanlega ætti í þessum verksmiðjum, er sá, að það væri greiðari aðgangur að fjármagni í gegnum fjárlög. En það er atriði sem mér finnst óþarft að setja fyrir sig, nema síður væri, því að áreiðanlega væri miklu betra að þetta fjármagn færi beint til þessara verkefna án viðkomu hjá ríkisaðila heldur en með öðrum hætti. Og eins og menn vita kemur þetta fjármagn ekki aftur til baka inn í ríkisgeirann. Það væri því mjög eðlilegur kostur í þessu sambandi, að slíkar verksmiðjur yrðu byggðar upp af félagssamtökum bændanna sjálfra og þær nytu sömu fyrirgreiðslu og þótt ríkið ætti í hlut.

En eftir sem áður stendur það alveg óhaggað, að vitanlega þarf að hafa einhverja og ákveðna stjórn og stjórnarfyrirkomulag á þessari starfsemi í heild eins og öðrum framleiðslumálum í landbúnaði, og það er einmitt það sem vantar, að fá því rekstrarfyrirkomulagi ákveðið form.

Það, sem ég hef hér sagt, er síður en svo til að draga úr gildi þessa tillöguflutnings. Og mér er þetta vel kunnugt, m. a. vegna þess að verkfræðingur hjá Sigurði Thoroddsen, sem hefur haft mjög mikinn áhuga á þessum verkefnum uppi í Borgarfirði, var um svipað leyti með ákveðin verkefni í sambandi við graskögglaverksmiðjuna í Flatey. Og sú ábending, sem kemur fram í þessari till., þ. e. um not á innlendri orku til þurrkunar, er að sjálfsögðu sá þáttur þessara mála sem ber að hverfa að, jafnvel þótt hún spari kannske ekki mikið fjármagn. Þetta er hins vegar sá þátturinn sem menn hafa ekki náð tökum á enn þá. Það liggur ekki fyrir með hvaða hætti þetta verði gert. Og í þessu fyrirkomulagi felst líka aukinn fjármagnskostnaðar. Sérstaklega á það við ef raforka er notuð.

Það hefur nú gerst í sambandi við rekstur a. m. k. sumra graskögglaverksmiðjanna á síðari árum, að þótt að olíu- og raforkukostnaður hafi hækkað mikið hefur vaxtakostnaðurinn ekki hækkað neitt minna, í sumum tilvikum jafnvel meira. Það er því að ýmsu að hyggja í þessum efnum.

Það er ekki ástæða til að ræða þetta frekar. Ég legg áherslu á að þetta fyrirkomulag allt þarf að taka til mjög nákvæmrar endurskoðunar. Og ég tel í raun og veru alveg út í hött að halda áfram að byggja fleiri graskögglaverksmiðjur í landinu nema þessari starfsemi allri verði fundið ákveðið félagslegt form, sérstaklega í rekstri og stjórn þessarar framleiðslu. Ég tel mjög mikilvægt að þær óskir og þær hugmyndir, sem m. a. hafa komið fram hjá bændum í Austur-Skaftafellssýslu, sem áttu mjög drjúgan þátt í því að byggja þar upp verksmiðju og lögðu mikið á sig í þeim efnum, — að óskir þeirra um aðild að rekstri og stjórn þessarar verksmiðju verði virtar og það sama gildi um aðrar hliðstæðar verksmiðjur.

Að öðru leyti er þessi till. allrar athygli verð og ber ekki að skoða þessa afstöðu á nokkurn hátt sem andstöðu gegn henni, nema síður sé. Við þurfum að breyta þessu formi og byggja upp fleiri verksmiðjur.