10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2813 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

202. mál, þingmannanefnd er vinni að auknu samstarfi Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka undirtektir sem mér að vísu ber þó ekki að þakka, vegna þess að hér hafa talað meðflm. mínir. En hvað sem því líður vil ég enn á ný leggja mikla áherslu á að afgreiðslu þessarar till. verði hraðað, og ég get vel tekið undir þá hugmynd hv. síðasta ræðumanns, að utanrmn. kjósi sér eða innan sinna vébanda fjóra menn til þess að annast þetta. Það er hins vegar umræðuefni sem nefndin verður að skera úr um áður en málið kemur hingað aftur. Ég legg eingöngu á það áherslu, að frændur vorir — sem við köllum svo í daglegu tali — í Færeyjum og á Grænlandi vænta mikils af þessu máli og þeir vænta mikils af þessari nefnd. Það hefur komið fram í greinaskrifum í dönskum blöðum, þar sem um þetta hafa fjallað grænlenskir menn og danskir raunar líka, að þarlendir vænta sér mikils af þessu, og sama gildir um Færeyinga, eins og kom glöggt fram á Norðurlandaráðsþinginu í síðustu viku.