10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (2935)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur vakið hér athygli á málefnum sem snerta Blönduvirkjun og hefur gert það í framhaldi af heimsókn sem bar við hér í Alþingishúsinu í dag og margir hv. alþm. hafa eflaust veitt athygli, þar sem allmargir frá Norðurlandi komu á minn fund og afhentu þar undirskriftaskjal til stuðnings við virkjun Blöndu. Ég veitti að sjálfsögðu þessum undirskriftum viðtöku og munu þær varðveittar í iðnrn., eins og óskað var eftir, og á þær lítið þar á sama hátt og lítið hefur verið á hliðstæð undirskriftagögn sem okkur hafa borist vegna þessa máls og út af fleiri málum. Það var fyrr á þessum vetri að ég fékk heimsókn úr sama landshluta með undirskriftir sem beindust nokkuð í aðra átt í sambandi við málefni þessarar virkjunar, eins og greint var frá opinberlega á þeim tíma. Það er ekki mitt verkefni að fara að leggja mat á þau viðhorf sem að baki þessum tiltölulega ólíku gögnum búa né heldur að fara að draga fram höfðatöluna sem að baki þeim liggur, en hitt er ljóst, að af þessu svæði hafa borist á undanförnum árum misjöfn viðhorf í sambandi við undirbúning virkjunar á svæðinu, Blönduvirkjunar, sem unnið hefur verið að verktæknilega um alllangt árabil, sérstaklega frá árinu 1975 að telja.

Eftir að ríkisstj. hafði ákveðið það sem stefnumið sitt að næsta virkjun fyrir landskerfið risi utan eldvirkra svæða beitti iðnrh. sér fyrir því, að hert yrði á undirbúningi virkjana sem fallið gætu undir þetta stefnumið, og þá bæði þeirrar virkjunar, sem í undirbúningi hefur verið á Norðurlandi vestra, og einnig á Austurlandi. Á Austurlandi var varið verulegum fjármunum til virkjunarrannsókna á liðnu sumri og á Norðurlandi vestra var lögð sérstök áhersla á að leita lausnar á þeirri deilu sem þar hefur verið uppi um árabil í sambandi við virkjanaundirbúning þar.

Ég hef sem iðnrh. leitast við að láta málsmeðferð varðandi þessa virkjanakosti fylgjast sem mest að, að það yrði tekið hliðstætt á málum þannig að ekki væri hægt að væna þar um hlutdrægni í málsmeðferð. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að standa þannig að virkjanaundirbúningi í okkar landi að við höfum um fleiri en einn og helst fleiri en tvo kosti að ræða hverju sinni, hagkvæma kosti, til þess að ráðast í í sambandi við nýtingu orkulinda okkar.

Hv. málshefjandi vék að nauðsyn þess að dreifa áhættunni í sambandi við staðsetningu virkjana. Undir það markmið tek ég að sjálfsögðu fullum hálsi. Einmitt með það í huga hefur ríkisstj. sett sér það markmið, að næsta virkjun verði utan Suðurlands, utan eldvirkra svæða, og að því verður unnið, að svo geti orðið, og tillögur þar að lútandi eru í mótun, eins og fram hefur komið hér á hv. Alþingi, og verða væntanlega innan fárra vikna liggjandi fyrir þinginu eftir að hafa fengið meðferð og umræður í ríkisstj.

Ég tel ástæðu til þess að fara hér örfáum orðum um málsmeðferð varðandi Blönduvirkjun, sem hér var sérstaklega til umræðu á s. l. ári, og það sem lýtur að þeim sjónarmiðum sem menn þar í héraði hafa tekist á um. — Mismunandi viðhorf hafa þar verið uppi.

Það var í fyrrasumar að Rafmagnsveitum ríkisins var falið að standa fyrir málum sem virkjunaraðila, en áður hafði undirbúningur mála verið í höndum Orkustofnunar. Er það mál út af fyrir sig að við höfum ekki til skamms tíma haft aðila til þess að færast í fang undirbúning meiri háttar virkjana utan Suðurlands, og það hefur án efa átt nokkurn þátt í því, að rannsóknir og annar undirbúningur utan þess svæðis hafa ekki gengið fram sem skyldi. En Rafmagnsveitur ríkisins hafa verið að eflast á undanförnum árum og fengið aukin verkefni og þær hafa að mínu mati tekið myndarlega á í sambandi við athugun þeirra virkjana sem þeim var falið að annast á síðasta ári — og raunar fyrr þar sem var meðferð mála varðandi Kröfluvirkjun.

Það var á vegum Rafmagnsveitnanna og sérstakrar ráðgjafarnefndar, sem iðnrn. kvaddi til vegna Blönduvirkjunar og raunar einnig Fljótsdalsvirkjunar, staðið fyrir fundum með heimaaðilum, fyrst með oddvitum og sveitarstjórnarmönnum bæði vestan og austan Blöndu í ágústmánuði s. l. Kynningarbæklingur var gefinn út um virkjunartilhögun, eins og hún lá fyrir, og honum dreift í viðkomandi hreppum um allt svæðið þannig að íbúar þessara svæða gætu sem best áttað sig á hvert stefndi miðað við verktæknilegan undirbúning.

Það var einnig fundur haldinn með stjórn Fjórðungssambands Norðurlands í nóv. s. l. og síðan almennur kynningarfundur varðandi Blönduvirkjun, sem Rafmagnsveitur ríkisins og iðnrn. áttu hlut að í samvinnu við heimaaðila, og var hann haldinn á Húnavöllum 7. des. 1980 — raunar eftir að fresta þurfti honum vegna veðurs. Það er nokkuð oft á þessum vetri sem menn hafa þurft að breyta áætlunum sínum vegna óblíðrar veðráttu, sem einnig hefur komið við sögu í sambandi við orkumál í landinu svo sem kunnugt er og hér var minnst á.

Í framhaldi af þessum fjölsótta fundi í Húnavöllum sneru Rafmagnsveitur ríkisins sér til sveitarfélaga sem eiga beinna hagsmuna að gæta varðandi þau svæði, sem Blönduvirkjun tekur til, og óskað var eftir að sveitarfélögin tilnefndu tvo menn hvert í viðræðunefnd við virkjunaraðila til að leita leiða til lausnar á deilumálum. Fundir hafa verið haldnir með fulltrúum frá Rafmagnsveitunum og umræddri ráðgjafarnefnd fulltrúum sex hreppsfélaga sem þarna eiga hlut að máli, fyrst í janúar og síðan í febrúarmánuði, og fram undan eru fleiri fundir um þetta efni mjög bráðlega til að taka nánar á málum.

Ég tel að það hafi þegar verulega mikið áunnist í sambandi við þessi mál. Málefni Blönduvirkjunar voru komin í verulega sjálfheldu að mínu mati á síðasta ári, og þær viðræður, sem farið hafa fram síðan, hafa orðið til þess, að báðir aðilar, bæði virkjunaraðili og heimamenn, hafa áttað sig betur á eðli þeirrar deilu sem verið hefur í sambandi við virkjunina. Ég vænti þess, að þessar viðræður leiði til samkomulags um virkjunartilhögun þannig að í reynd verði hægt að líta á Blönduvirkjun sem virkjunarkost í fullri alvöru, en þannig lágu mál ekki fyrir að mínu mati eins og þau voru snemma á síðasta ári, miðað við að ekki hafði verið tekið með þeim hætti á deilumálum um virkjunina sem nauðsyn ber til.

Ég hef orðað það svo, að um þessa virkjun sem aðrar meiri háttar framkvæmdir í landi okkar þurfi að takast sæmilegur friður áður en ákvarðanir yrðu teknar um að hefja þar framkvæmdir. Ég held að það þurfi ekki að hafa um það mörg orð, hver nauðsyn er á því að slíkur friður geti ríkt um stór mannvirki, sem snerta hag margra. Við höfum orðið þess vitni, að menn hafa þurft að miðla málum eftir að fórnað hefur verið miklum fjármunum í sambandi við virkjanaundirbúning hérlendis. Þá sögu þekkja menn. Hún er 10 ára gömul og rösklega það. Við erum þess og vitni, að í grannlöndum okkar hafa framkvæmdir, sem varða vatnsvirkjanir, leitt til mjög harðra deilna þar sem erfitt hefur verið um vik að ná málamiðlun. En ég vona að það megi takast samningar í sambandi við þennan hagkvæma virkjunarkost, Blönduvirkjun, þannig að hann verði til álita í sambandi við þá stefnumótun um virkjanir til langs tíma sem iðnrn. ætlar sér að leggja fyrir ríkisstj. og Alþingi nú innan skamms.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að fara hér frekari orðum um þetta mál nema sérstakt tilefni gefist til þess. Ég svaraði fyrr á þessu þingi fsp. frá öðrum hv. þm. þessa kjördæmis varðandi Blönduvirkjun og framkvæmdaundirbúning er að henni lýtur, og ég ætla ekki núna að fara að leiða neitt líkur að því, hvernig mál muni þróast áframhaldandi varðandi þetta efni. Viðræður aðila eru á hreyfingu, en á viðkvæmu stigi að mínu mati, og ég held að þeir, sem vilja stuðla að sáttum í þessu máli, þurfi að hafa vakandi auga á því að aðhafast ekkert það sem geti orðið mönnum til sundurþykkis frekar en samstöðu sem nauðsynleg er til þess að þarna verði hægt að vinna sig fram úr því deilumáli sem menn þekkja og við höfum orðið með vissum hætti vitni að hér á hv. Alþingi í dag.