10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2824 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefði kannske verið ástæða að gera nokkra athugasemd við uppröðun á mælendaskrá hjá forseta, þ. e. að ráðherrar skuli geta skotið sér inn í umr. eins og hér hefur verið, og eiga þó ekki beina aðild að málinu. Það er eðlilegt að hæstv. iðnrh. tali hér. Ég veit ekki hvort hæstv. landbrh. á erindi á mælendaskrá á þann hátt sem varð hér raunin.

Ég vil eingöngu, herra forseti, ítreka þau sjónarmið sem ég hef áður látið koma fram í þessu máli. Það er orðið langt síðan ég varaði við því, bæði í blaðagreinum og á fundum Fjórðungssambands Norðlendinga, að þær deilur, sem upp voru að koma í Norðurlandi vestra, mundu leiða til þess, að þetta mál kæmist í sjálfheldu. Ég hef einnig bent á það, að við höfum fyrir okkur dæmi frá Laxárvirkjunardeilunni. Það dæmi er þess eðlis að þar er nú ódýrasti virkjunarkostur landsins — 18 mw. — sem hægt er að fá með hækkun stíflu, en því miður er ekki leyfilegt. Ég hef líka tekið það skýrt fram, að ég tel, að brýna nauðsyn beri til þess að ná sáttum í þessu máli á einhvern hátt, og hef lagt á það hvað drýgsta áherslu. En ég hef líka sagt, að fyrir hönd Norðlendinga sé það mjög alvarlegt ef deilur heima í héraði verða þess valdandi, að hæstv. iðnrh. sér ástæðu til að fresta þessum virkjunarkosti og taka annan upp, sem gæti í þessu tilviki verið Fljótsdalsvirkjun, og þætti mér ekki ólíklegt að þau yrðu endalok þessa máls.

Mér finnst menn gleyma því, sem er býsna alvarlegt, í þessari umr., að það er ekki eingöngu um að ræða að það verði unnin spjöll á landi, heldur erum við að ræða um stórkostleg atvinnumál. Við erum að ræða um þróun atvinnumála og þróun iðnaðar ekki bara á Norðurlandi vestra, heldur Norðurlandi eystra, einnig þegar við erum að tala um virkjun Blöndu.

Því hefur verið marglýst yfir af orkumálastjóra og fleiri sérfræðingum, að Blanda væri einn hagkvæmasti virkjunarkosturinn á landinu öllu. Því er kannske rétt að bæta við, að það eru til fleiri hagkvæmir virkjunarkostir og við eigum að hraða okkur í þessum virkjunarmálum. Sá véfréttastíll, sem verið hefur á svörum hæstv. iðnrh. í sambandi við væntanlegar virkjunarframkvæmdir, er nánast að verða óþolandi. Það verður að fara að taka einhverja ákvörðun í þessu máli, hæstv. iðnrh. Þar væri kannske skynsamlegast að leggja undir 2–3 virkjanir, en ekki eingöngu eina.

Mig langar að benda á nokkrar staðreyndir í þessu máli og þá sérstaklega í atvinnulegu tilliti. Það, sem ég nefni, varðar það kjördæmi, sem ég er þm. fyrir, og það kjördæmi, sem þessi virkjun á að verða í.

Vettvangsrannsóknir vegna Blönduvirkjunar fóru fram á vegum Orkustofnunar árin 1973–1979, mest þó tvö síðustu árin. Þar hafa verið gerðar mjög ítarlegar, mjög nákvæmar rannsóknir. Það hefur verið gerð rannsókn á lífríki vatna og lífríki og nytjum heiðanna. Að þeim hafa staðið auk Orkustofnunar Veiðimálastofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Náttúrugripasafnið á Akureyri annaðist náttúruverndarkönnun sem gerð var 1976.

Náttúruverndarráð — og nú legg ég þunga áherslu á málið — Náttúruverndarráð hefur fjallað um fyrirhugaða Blönduvirkjun og í umsögn sinni hefur það ekki lagst gegn virkjuninni. Þessi þáttur hlýtur að vega þungt.

Mig langar einnig að minna á þær tölur sem orkuspárnefnd hefur gert um mannafla í atvinnugreinum hér á landi fram til ársins 2000. Er gert ráð fyrir því, að fram til ársins 2000 fækki í landbúnaði um 2300, í fiskvinnslu verði nánast engin aukning atvinnutækifæra, í fiskiðnaði verði nánast engin aukning atvinnutækifæra, — einfaldlega vegna tækninýjunga sem þar bætast við, í byggingarstarfsemi verði sáralítil aukning, en það verði iðnaðurinn, sem þurfi á að halda 6100 nýjum atvinnutækifærum, og þjónustugreinar hvorki meira né minna en 22000 nýjum atvinnutækifærum.

Þá langar mig að minna á þá staðreynd, að í könnun, sem byggðadeild og Fjórðungssamband Norðlendinga stóðu fyrir meðal iðnaðarfyrirtækja á Norðurlandi á síðasta ári, kom í ljós að 89 norðlensk iðnaðarfyrirtæki af 239, sem spurð voru, áforma að bæta við sig samtals 310–450 manns á næstunni. Hjá þessum fyrirtækjum unnu samtals 1843 menn árið 1978. Áformaður vöxtur þeirra er því 17–25%. Ef áform fyrirtækjanna komast til framkvæmda á þremur árum er árlegur vöxtur í mannafla fyrirtækjanna 5.3–7.6%, en ef þau nást ekki nema á fjórum árum lækkar árlegur vöxtur mannafla þeirra í 4–5.7%.

Í þessari könnun segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Af framansögðu er ljóst, að ef ekki kemur til sérstakt átak til eflingar iðnþróun mun iðnaður ekki geta orðið sá vaxtarbroddur framleiðsluatvinnuvega sem þarf til þess að öllum nýliðum á vinnumarkaði svæðisins gefist kostur á atvinnu heima fyrir.“

Þetta er kannske kjarni þess máls sem við erum að tala um, þ. e. þau atvinnutækifæri sem þarf að skapa á Norðurlandi fram til ársins 2000. Þau verða ekki sköpuð í fiskiðnaði. Þau verða ekki sköpuð í landbúnaði. Þau verða sköpuð með nýiðnaði og uppbyggingu nýiðnaðar. Það er af þessari ástæðu fyrst og fremst að ég tel að Blönduvirkjun sé Norðlendingum og Norðurlandi brýn nauðsyn. Og kannske meiri nauðsyn en í flestum öðrum landshlutum. Ég vil leggja áherslu og höfuðáherslu á þennan þátt.

Þá kemur í ljós að að öllu óbreyttu mun annar iðnaður á Norðurlandi, og þá er verið að tala um iðnað utan fiskiðnaðar, veita um 2900 manns atvinnu árið 1983. Ef svo verður samkvæmt þessari spá vantar atvinnu fyrir 1550 manns ef allir nýliðar á vinnumarkaði norðanlands eiga að geta fengið atvinnu heima fyrir. Hvað gerir þetta unga fólk ef það fær ekki atvinnu heima fyrir? Það hverfur á braut. Það fer í burtu. Það, sem ég tel alvarlegast í því sem við erum að ræða um hér, er sú byggðaröskun sem getur skapast af þeirri þróun sem gæti orðið vegna þess að einhverjir stöðvuðu þær virkjunarframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru og hagkvæmastar eru á öllu landinu.

Ég vil, herra forseti, hafa það sem mín lokaorð, að vissulega tek ég undir það að ná þurfi sáttum í þessu máli, en sættir mega ekki verða svo dýru verði keyptar að þarna verði um óhagkvæma virkjun að ræða. Slíkt kemur ekki til greina. Fyrst og fremst eru það sættir heimamanna, sættir manna í Norðurlandskjördæmi vestra, sem öllu skipta, því ef aðrir hagsmunaaðilar, ef ég má orða það svo, geta lítið á ósættina í heimabyggðinni þannig að það borgi sig ekki að standa í þrefi sem leitt geti til annarrar Laxárdeilu líst mér ekki á blikuna.