10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

Umræður utan dagskrár

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það var svo að skilja á þeim hv. þm. sem hóf þessa umræðu að hún ætti að fjalla almennt um orkumál. Það er þannig kannske ekki alveg sérstaklega viðeigandi að það séu aðeins alþm. úr einu eða tveimur kjördæmum sem tjái sig í þessu máli, — ekki síst þegar öllum er ljóst í hvaða ástandi orkumálin eru á þessu landi og hversu mikil og brýn nauðsyn er að taka þar sem skjótast glöggar ákvarðanir.

Það, sem hefur einkennt þessa umræðu og kemur fram í máli nálega allra ræðumanna, nema þá að fráteknum hæstv. iðnrh., er að málið sé svo einfalt að það sé aðeins um eina virkjun í þessu landi að ræða og að það sé aðeins þörf á einni virkjun. Menn geta að sjálfsögðu haft þessar skoðanir út af fyrir sig, en Austfirðingar hafa ekki þessar skoðanir.

Það hefur verið um margra ára skeið unnið að undirbúningi Fljótsdalsvirkjunar. Tilefni að því voru m. a. tillögur sem Sverrir Hermannsson flutti á Alþingi fyrst árið 1973, en voru síðan samþykktar á Alþingi sem ályktun Alþingis árið 1975. Að vísu voru þær að því leyti breyttar að þar var einvörðungu talað um virkjunarrannsóknir, en ekki tengdar stóriðjuáformum við Reyðarfjörð, eins og tillaga Sverris Hermannssonar gerði sérstaklega ráð fyrir. Um það mál var ekki þá samstaða meðal alþm. á Austurlandi og þess vegna var þessi till. ekki samþykkt nema að hálfu leyti.

Á þessari tillögugerð og þessari samþykkt hafa síðan verið í meginatriðum byggðar þær mikilvægu virkjunarrannsóknir sem farið hafa fram á Austurlandi og þá sérstaklega í sambandi við virkjun í Fljótsdal. Þær hafa vissulega skilað miklum árangri þó að ég láti mér ekki detta í hug, eins og aðrir ræðumenn hér á undan mér, að fara að meta niðurstöður þeirra áður en þær liggja fyrir. Það er háttur í málflutningi sem ég kann ekki sérlega vel við þegar menn eru hér að dæma um hagkvæmni einstakra virkjunarkosta án þess að fyrir liggi skýrslur þar um. En það er að sjálfsögðu þeirra mál.

Það er annað sem hefur þróast á Austurlandi til mjög ánægjulegs vegar. Ég gat um það áðan, að það hefði ekki orðið samstaða meðal þingmanna Austurlands, sem áttu sæti á Alþingi árið 1975, um það, að inn í samþykkt till. frá Alþingi félli rannsókn á stóriðju við Reyðarfjörð. En Austfirðingar tóku málið sjálfir í sínar hendur að því er þetta varðaði. Fyrsti þátturinn í þeim efnum var fundur sem atvinnumálanefndir byggðarlaganna við Reyðarfjörð, þ. e. Reyðarfjörður og Eskifjörður, héldu árið 1978 og komust þá að algjöru samkomulagi um það, að stefnt skyldi að uppbyggingu stóriðju við Reyðarfjörð í tengslum við Fljótsdalsvirkjun. Sveitarstjórnir þessara sömu byggðarlaga héldu ári síðar sameiginlegan fund þar sem líka var algjör samstaða um þetta mál. Þarna áttu hlut að máli fulltrúar sveitarfélaganna. Og það gilti einu hvar í flokki þeir stóðu, það voru allir, bæði í atvinnumálanefndum Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og eins í sveitarstjórnunum sjálfum, alveg sammála um að hverju skyldi stefnt í þessum málum. Samhliða þessu fór að sjálfsögðu fram um allt Austurland mjög mikilvæg umræða, bæði um virkjunarmálin og eins stóriðjumálin, og hafði þar einkum forgöngu um Samband sveitarfélaga á Austurlandi, en þar fyrir utan var þetta mál rætt um allt byggðarlagið og m. a. í Austur-Skaftafellssýslu þar sem allar samþykktir hnigu í sömu átt. Því var það á síðasta aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem var haldinn norður í Vopnafirði í ágústmánuði s. l., að þar var tekin alveg skýr afstaða með Fljótsdalsvirkjun í tengslum við stóriðjuuppbyggingu á Reyðarfirði. Það var ekki einn einasti maður á þeim fundi í andstöðu við þá samþykkt, og það hefur ekki heyrst ein einasta rödd á Austurlandi sem hefur gengið á móti þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð í sambandi við þessi mál. Það hygg ég að sé kannske langmikilvægasta innleggið í orkumál og iðjumál á Austurlandi, hve öll byggðarlögin þar, bæði stór og smá, eru algjörlega sammála um hvað þar skuli gert.

Ég tók eftir því, að þulurinn í sjónvarpinu sagði frá því í gærkvöld að það mætti fljótlega búast við stórum sendinefndum úr kjördæmum þar sem virkjunaráform stæðu fyrir dyrum. Við þm. Austurlands höfum fengið sendinefndir á okkar fund. Við höfum fengið þær bæði nú á þessu ári og áður. Þingmenn Austurlands fengu t. d. sendinefndir frá Reyðarfirði og Eskifirði á sinn fund og þá voru þessar sendinefndir skipaðar æðimörgum mönnum, — kannske upp undir tíu manns, eftir því sem á stóð. En það hefur alltaf verið að fækka í þessum sendinefndum af Austurlandi. Núna á þessu ári hafa ekki verið nema tveir menn í þessum sendinefndum. Það er eins og það sé einn aðalmaður og annar til vara ef eitthvað sérstakt félli upp á. En þetta hefur að sjálfsögðu verið til ákaflega mikilla þæginda vegna þess að þessir menn hafa getað talað í nafni Austurlands alls. Þeir hafa ekki þurft að skýra það fyrir þm. Austurlands, að það væri ekki samstaða um þessi mál á Austurlandi. Sendinefndir getur nefnilega borið að með ýmsum hætti og þær eru að sjálfsögðu misfjölmennar, alveg eftir því hvað það er góð samstaða í byggðarlögunum á bak við þá sem fara í slíkar sendiferðir.

Ég vil nú vænta þess, að þessi mál fari öll bráðlega að skýrast, og ég treysti því, að þar sé um það vönduð vinnubrögð að ræða að hægt verði að glöggva sig á þeim valkostum sem sérstaklega verða fyrir hendi. Hitt hygg ég að Austfirðingum sé alveg ljóst, að virkjun í fjórðungnum verður ekki byggð með öðrum hætti en þeim, að myndarlega verði tekið á iðjumálunum líka. Það hefur reyndar alltaf nú á síðari árum verið annar hluti af virkjunaráformum þar.

Það er virkilega stórt mál og það markar sannarlega tímamót í sögu orku- og iðjumála á Íslandi ef menn reynast það framsýnir að treysta sér að taka þannig á málum að það sé ekki verið að metast um hvar orkuver eigi að standa sem slík, heldur að það eigi að nota það fjármagn, sem felst í slíkri orku, til atvinnuuppbyggingar í þessu landi. Þá er að sjálfsögðu ákaflega mikilvægt að hafa þannig heildarsýn yfir þau mál að það sé ekki bundið við einn eða tvo landshluta.

Það er satt að segja einn allra stærsti kosturinn við virkjun í Fljótsdal, að það verður ekki komist hjá því að taka þar jafnhliða ákvörðun um myndarlega atvinnuuppbyggingu.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja á það þunga áherslu, að þessi umræða verði ekki til þess að smækka okkur hér á Alþingi, smækka áform okkar í stóriðju- og virkjunarmálum, hún verði ekki til þess að þrengja þau sjónarmið sem Alþingi þarf að hafa þegar teknar verða ákvarðanir um stórátök í virkjunar- og iðjumálum, væntanlega á þessum vetri.