04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

354. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta er svo stórt mál að það er ekki hægt að ræða það mikið í fsp.-tíma; en það er eitt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þessir erfiðleikar væru vegna samdráttaraðgerðanna sem væri verið að gera hjá bændastéttinni. Erfiðleikarnir eru þeir, að verðbólgan hefur leikið okkur svo grátt, bændur, að við getum ekki fengið nema mjög lítið fyrir þessa vöru, og til þess að vandinn yrði ekki enn meiri og við yrðum ekki fyrir enn meiri áföllum var reynt að draga úr þessari framleiðslu með þessum hætti. Það er það sem gerðist.

En ég vil taka undir margt af því sem korn fram hjá fyrirspyrjanda og eitt sem liggur nú alveg ljóst fyrir, að t.d. á harðindasvæðinu er verulegur samdráttur í sauðfjárframleiðslunni. Það er víða upp í 20% samdráttur. Og þegar þetta skeður verða ekki miklar tekjur hjá þeim bændum sem fara þannig út úr þessu ári. Ég held að það verði ekki hjá því komist að gera einhverja áætlun um það að byggja upp atvinnurekstur í strjálbýlinu til þess að byggðin raskist ekki um of, og ef hv. Alþ. hefur skilning á því máli, að það beri að gera, þá verður aðlögunartíminn að vera verulegur og aðstoð við landbúnaðinn á meðan þessi þróun fer fram. Þótt þessi mál séu svona í dag, og erfiðleikar séu á að selja þessar vörur okkar, þá sýnir það sig, ef við lítum yfir lengri tíma, að þetta breytist frá einum tíma til annars og við vitum ekki hvenær að því kemur, að það sé full þörf á þessari framleiðslu fyrir sveltandi heim.