10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

Umræður utan dagskrár

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég mun stytta mál mitt. — Hæstv. landbrh. sagði að sér fyndist að fáir menn ættu ekki að geta stöðvað svo þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki sem hér er um að ræða. Mér þykir vænt um að heyra þetta, því þá virðist hann vera komin á sama mál og Alþfl. í þessum efnum.

Það hefur mikið verið talað um það hér og reyndar áður að dreifa áhættunni og virkja utan eldvirkra svæða, eins og það er kallað. Í því sambandi vil ég geta þess, að Sultartangavirkjun, sem er næsta virkjun sem hugsuð er sem virkjun á Suðurlandi, er utan eldvirkra svæða. Hún stendur á jafngömlu bergi og Reykjavík og ég hef ekki heyrt talað um að Reykjavík væri á eldvirku svæði. Auk þess er hún utan við það sem venjulega er skilgreint sem hættusvæði vegna Suðurlandsskjálfta, vegna jarðskjálfta á Suðurlandi.

Í þessum efnum á ekki að tala um annaðhvort eða, heldur bæði og. Hrauneyjafossvirkjun verður fullnýtt árið 1985 þótt engin aukning í stóriðju eða orkufrekum iðnaði eigi sér stað. En auðvitað hlýtur veruleg aukning í orkufrekum iðnaði að eiga sér stað ef við ætlum ekki að sætta okkur við að lífskjör alls almennings haldi áfram að versna. Við höfum við núverandi aðstæður ekki efni á að láta eina af þremur helstu náttúruauðlindum okkar að mestu ónýtta. Við verðum að hraða mjög nýtingu þessarar auðlindar til hagsbóta fyrir fólk í þessu landi, og við eigum að miða að því að ljúka við allar þær þrjár virkjunarframkvæmdir, sem verið er að tala um, á 10–12 næstu árum.

Sultartangavirkjun er eina virkjunin sem gæti orðið tilbúin til orkuframleiðslu árið 1985. Þess vegna á að hefjast handa þar í beinu framhaldi af Hrauneyjafossvirkjun. Þannig nýtist best vel þjálfaður mannskapur, vélakostur og annað sem fylgir slíkri mannvirkjagerð. Orka Sultartangavirkjunar er áætluð 124 mw. plús 30 mw. sem mundu bætast við Búrfellsvirkjun, vegna þess að hagkvæmni hennar mun aukast mjög við þessa framkvæmd, og gefur það Sultartangavirkjun aukna hagkvæmni miðað við útreikninga að öðru leyti. En það á einnig, einmitt vegna þess að vinna við byggingu Sultartangavirkjunar kemur ekki til með að endast nema í 2–3 ár ef sæmilega er staðið að atvinnuuppbyggingu í þessu landi, að hefjast handa um framkvæmdir við Blöndu strax og samkomulag næst við landeigendur. Þar til viðbótar á einnig að halda áfram undirbúningi við Fljótsdalsvirkjun og hefja framkvæmdir þar strax og stór orkukaupandi eða stórir orkukaupendur eru til, enda hefur ekki verið sýnt fram á það enn þá að Fljótsdalsvirkjun sé hagkvæmur virkjunarkostur nema fyrsti áfangi verði tiltölulega mjög stór og þá um leið ekki nema stóriðja eða mjög orkufrekur iðnaður fylgi með.

Herra forseti. Við eigum strax að ráðast í Sultartangavirkjun og miða að því, að hún verði tilbúin til orkuframleiðslu 1985. Enn fremur eigum við strax og aðstæður leyfa að ráðast í Blönduvirkjun og miða að því, að hún verði tilbúin til orkuframleiðslu 1987 eða 1988. Og við eigum að halda áfram undirbúningi að Fljótsdalsvirkjun og hefja framkvæmdir þar strax og markaðsaðstæður leyfa. Samtímis þessu eigum við að flýta könnun á möguleikum til aukinnar stóriðju, bæði eins og við skilgreinum það hugtak venjulega og til stóraukins annars orkufreks iðnaðar.

Ef við stöndum ekki þannig að málum getum við varla búist við verulega aukinni hagsæld almennings hér á landi á næstunni, sem við hljótum þó öll að stefna að.