10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

Umræður utan dagskrár

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Það er sannarlega ekki að tilefnislausu að þessi umr. um orkumál er hafin hér í dag. Fjölmenn sendinefnd af Norðurlandi vestra er hér mætt og hefur afhent orkumrh. undirskriftir mikils fjölda kosningarbærra manna í kjördæminu undir áskorun á stjórnvöld um að hraða samningagerð við landeigendur vegna Blönduvirkjunar þannig að hægt verði að ákveða að hún verði næsta stórvirkjun sem í verður ráðist. Það undirstrikar þann þunga, sem að baki undirskriftunum liggur, að þeim var safnað á örfáum dögum við erfið skilyrði: ófærð, slæma veðráttu og rafmagnsleysi, og að hingað skuli jafnfjölmennur hópur leggja á sig langt og strangt ferðalag í ótryggri færð á hörðum vetri.

Fyrst farið er að ræða virkjunarmál get ég ekki á mér setið að leggja örfá orð í belg, ekki vegna þess að ég hafi neinn nýjan fróðleik fram að færa á því sviði, heldur til að rifja upp örfá atriði og lýsa skoðunum mínum á þeim málum, og ég skal ekki tala neitt rósamál.

Nú er mest rætt um þrjá virkjunarkosti: Blönduvirkjun, virkjun við Sultartanga og Fljótsdalsvirkjun. Um virkjun við Sultartanga þarf ekki að fara mörgum orðum. Hún er á eldvirku svæði og núv. ríkisstj. hefur lýst yfir að næsta stórvirkjun skuli rísa utan þess svæðis. Sultartangavirkjun og allar linur frá henni eru einnig innan þess svæðis er yrði fyrir verulegum áföllum ef jarðskjálfti yrði á Suðurlandi, eins og spáð hefur verið. Of mikil áhætta er því tekin með því að ráðast í þá virkjun næst og setja allar stórvirkjanir landsins niður á þessum stað. Einnig ber á það að líta, að Sultartangavirkjun liggur ekki eins vel við þeim landshlutum, sem nú eru í orkusvelti, og t. d. Blönduvirkjun.

Fljótsdalsvirkjun er styttra á veg komin í rannsóknum en hinir virkjunarkostirnir tveir. Hún liggur fjarri orkumarkaðnum, nema Austurlandi, og er álitin óhagkvæm, nema með tengingu við stóriðjufyrirtæki á Austurlandi, álverksmiðju eða eitthvað því um líkt. Hæpið er að Austfirðingar almennt séu reiðubúnir til þess að kalla slíkt yfir sig nú þegar, en ákvörðun um næstu stórvirkjun þarf að taka innan tíðar.

Blönduvirkjun er þess vegna tvímælalaust viturlegasti virkjunarkosturinn sem völ er á í virkjunarmálum þjóðarinnar. Hún er hagkvæm, í hana er hægt að ráðast án þess að tengja hana við stóriðju, hún liggur á heppilegum stað á Norðurlandi þar sem grunnorka er hvað minnst á landinu, hana er auðvelt að tengja bæði við Vestfirði og jafnvel Austfirði og hún mundi stórauka öryggi í raforkumálum Norðurlands, sem er ákaflega ótryggt í dag. Blönduvirkjun er einnig mikilvæg forsenda eðlilegrar atvinnuþróunar á Norðurlandi vestra og jafnvel Norðurlandi öllu. En hvers vegna er Blanda þá ekki virkjuð? Óhamingja okkar Norðlendinga og þar með þjóðarinnar allrar liggur í því, að sárafámennur en harðsnúinn hópur landeigenda er virkjunaráformunum andsnúinn. Trúlega er þar um að ræða annars vegar menn sem enga virkjun vilja — þeir eru þó sennilega mjög fáir — og hins vegar aðila sem vilja halda þannig á málum, að sem mestar bætur fáist fyrir landspjöll.

Auðvitað ber að bæta jarðeigendum þá skerðingu er bújarðir þeirra verða fyrir vegna framkvæmdanna. Það er sjálfasagt mál og ekkert stórmál. Þær bætur verða að vera í því formi að þær verði viðvarandi á jörðunum, en ekki þannig, að þær komi núverandi ábúendum einum að gagni. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að rétt væri að bændur hefðu eignarhald á jörðum og afréttum og ýmsar aðrar eignir bæri að þjóðnýta á undan jarðeignum. En þannig virðast mál geta þróast vegna afstöðu bænda gegn þjóðhagslega nauðsynlegum framkvæmdum að fleiri en ég og þá einnig þeir, sem staðið hafa fjarri öllum þjóðnýtingaráformum, kynnu að neyðast til að endurskoða afstöðu sína í því efni.

Efalaust mundu flestir alþingismenn fagna því að geta fært stórvirkjun inn í sitt kjördæmi, en það er önnur ógæfa okkar Norðlendinga hvernig sumir hv. þm. Norðurl. v. hafa haldið á þessu máli, ýmist með því að gerast talsmenn andstöðuliðsins eða hafa enga skoðun á málinu. Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar um afstöðu þingmanna til Blönduvirkjunar alveg frá því fyrir síðustu kosningar er það fyrst núna þessa dagana að þeir opinbera skoðun sína á málinu. Því ber vissulega að fagna að nú er loks að rofa til í hugum hv. þm. og þeir að ná áttum. Vonandi að það sé ekki um seinan.

Mínar skoðanir í þessu máli fara saman við skoðanir alls þorra Norðlendinga. Samningum við landeigendur vegna Blönduvirkjunar þarf að hraða þannig að virkjunarframkvæmdir geti hafist sem allra fyrst. Þar fara saman hagsmunir Norðlendinga og allra annarra íbúa þessa lands. Ég vil trúa því, að samningaviðræðum ljúki fljótlega þannig að allir hafi sæmd af.