10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2833 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætla ekki hér eða nú að fara að elta ólar við eða gera athugasemdir við sumt í ræðu hv. þm. Þórðar Skúlasonar, en ég vil einungis segja að það er skörulegt framtak að safna þessum undirskriftum og forgöngumenn hafa vakið rækilega athygli á vilja sínum. Ég vil ekki kalla þennan meiri hluta þögulan, eins og hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson gerði áðan, en ég er ekkert hissa á því að fjöldi kjósenda á Norðurlandi vestra hafi treyst sér til að skrifa undir þann haus. Það er ekkert í þessari ályktun sem hneykslar mig og sumt er alveg stórvel sagt. Ég vil leyfa mér að lesa t. d. þessa klausu:

„Við skorum eindregið á ríkisstjórn, iðnrh., þingmenn kjördæmisins og alla samningsaðila að vinna markvisst að því að sanngjarnir samningar náist þar sem gætt sé í hvívetna hagsmuna heimaaðila og þjóðarinnar.“

Að þessu vil ég vinna og að þessu þykist ég reyndar nokkuð hafa unnið. Að þessu hefur hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýst vilja sínum til að vinna og ég á vona á því að okkur takist vel til.

Það er kannske spurning hvort tími sá, sem valinn er til þessara undirskrifta og kynningar á þeim, er heppilegur.

Málið er, eins og margoft hefur komið fram, á viðkvæmu viðræðustigi. Það er samningafundur á morgun. Ég vona að samkomulag náist í þessari deilu, þ. e. samkomulag sem allir geti sæmilega við unað. Samkomulag þegar báðir slaka nokkuð á ýtrustu kröfum sinum, en annar aðilinn heimtar ekki að fá allan vilja sinn og hinn lætur atfarið undan, er ekki samkomulag.

Ég vil þakka öllum mönnum sem af sanngirni vilja vinna að lausn þessarar deilu, en þeir, sem hvergi sýna sanngirni, mega hafa skömm fyrir. Sanngjarnir samningar, svo ég vitni til orðalags undirskriftabréfsins, þurfa að nást, og þeim er áreiðanlega hægt að ná ef menn vilja. Ég vil taka það fram, að ég tel að það sé óskynsamlegt að nota ekki vatn Blöndu til raforkuframleiðslu, en jafnframt — og ég undirstrika það sérstaklega — þarf að gæta þess að fara svo sparlega með landið sem unnt er og hafa umhverfisáhrif ríkt í huga. Mér er jafnframt ofarlega í huga hinn félagslegi þáttur sem fylgir framkvæmdum eins og þessum, og ég vil biðja menn að huga ekki síður að honum, að atvinnulíf svæðisins verði ekki í rúst þegar framkvæmdum lýkur. Við höfum um það ófögur dæmi í Rangárvallasýslu, að þess hefur ekki verið gætt að byggja upp atvinnulíf jafnframt því sem stórframkvæmdir hafa verið í gangi. Ég tel að þegar í Blönduvirkjun verði ráðist sé það meginmál að menn gleymi því ekki, að þær framkvæmdir taka enda og menn þurfa á einhverju að lifa þegar þeim framkvæmdum lýkur.