04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

354. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hér hefur á umliðnum árum oft verið hart og óvægilega deilt um stefnuna í landbúnaðarmálum. Ég ætla ekki að fara að endurvekja þær deilur nú. Það væri engum til farnaðar að endurvekja slíkt. Hitt er ljóst, að landbúnaðurinn og bændur eiga nú við mikla erfiðleika að etja, sem e.t.v. hefði verið hægt að afstýra að miklu eða öllu leyti, ef ekki hefði verið fram haldið þeirri stefnu í landbúnaðarmálum sem oft hefur verið deilt um. Það er þó annað mál sem ég vildi ræða.

Það er ljóst, að nú er verið að gera tilraun til þess, m.a. af bændum sjálfum, að takast á við þetta vandamál. Ég legg að sjálfsögðu áherslu á að bændum sé hjálpað til þess að leysa þann vanda sem þeir eiga við að etja, en jafnframt að menn hugi að því í leiðinni, að þeirri heildarstefnu í landbúnaðarmálum, sem leiddi til þessa vanda, verði breytt á þá lund m.a., eins og hv. síðasti ræðumaður talaði um, að byggðin í dreifbýlinu verði styrkt, m.a. með aðstoð við fólk þar til þess að taka upp ýmis önnur störf, bæði varðandi búrekstur og skylda atvinnustarfsemi sem styrkir byggðina og atvinnulífið í dreifbýlinu frekar en nú er.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara að endurvekja deilurnar um þessa landbúnaðarstefnu, en aðeins að herða á því, að niðurstaðan liggur nú ómótmælanlega fyrir og það er meiri þörf á því, að menn reyni að sammælast um mótun nýrrar og betri stefnu í þessum málum en að stunda langar deilur um fortíðina, vegna þess að reynslan er þar ólygnust.