11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2848 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

244. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson höfum leyft okkur að flytja hér frv. til l. á þskj. 476 um breyt. á lögum nr. 40 frá 1978, um tekju- og eignarskatt, sbr. lög nr. 7 frá 1980. Í 1. gr. hljóðar svo:

„Á eftir 2. málslið 1. mgr. 113. gr. laga nr. 40/1978 (sbr. 49. gr. laga nr. 7/1980) bætist nýr málsliður er orðist svo:

Aldrei skulu launagreiðendur þó halda eftir meira en nemur 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni.

2. gr.:

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Með leyfi forseta vil ég lesa hér upp grg. sem fylgir. Hún er stutt.

„Oft hefur verið undan því kvartað, að innheimta opinberra gjalda gangi svo langt að launafólk hafi ekki til hnífs og skeiðar milli launagreiðsludaga. Frv. þetta er flutt til þess að koma í veg fyrir að áfram verði haldið á þeirri braut, að launagreiðendum verði gert að skyldu að taka allt að fullum launum launþega upp í opinber gjöld.

Með því að takmarka það við 75% af heildarlaunagreiðslum, sem launagreiðendur innheimta hverju sinni, er tryggt að launþegi fái ávallt a. m. k. l/4 launa sinna til ráðstöfunar milli launagreiðsludaga.

Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst, að vandi heimilanna er mikill, ef fyrirvinna fær eingöngu greiðslukvittun fyrir opinberum gjöldum í stað peninga á útborgunardegi.

Frv. þetta er flutt til að minnka þennan vanda og verja launþega gegn þeim hörðu aðgerðum sem þeir verða annars fyrir af hálfu innheimtumanna opinberra aðila.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en um leið leyfi ég mér að gera að tillögu flm. að frv. þessu verði vísað til fjh.- og viðskn. þessarar virtu þd., og ég vil um leið biðja hv. þm. um að styðja þetta frv. og veita því brautargengi bæði í nefnd og eins við lokaafgreiðsluna.