11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. á þskj. 221 um breyt. á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 42 13. maí 1977 og lög nr. 67 30. maí 1979. Þetta frv. flyt ég sem sjútvrh. og á því eru ákveðnar skýringar. Ég óskaði ekki eftir því sérstaklega að þetta yrði flutt sem stjfrv. eða að þingflokkar væru fyrir fram á einn eða annan máta bundnir af fylgi við þetta mál. Hér er um að ræða dragnótaveiðar í Faxaflóa, sem hafa verið mjög umdeilt mál, og ber að á dálítið sérstakan máta. Fram hafa farið tilraunir að ósk sjútvrn., og það er á grundvelli niðurstöðu af þeim sem ég taldi mér skylt að flytja þetta frv. þannig að Alþingi geti ákveðið hvort breyta beri þeim ákvæðum sem um dragnótaveiðar í Faxaflóa gilda nú. Sjálfur er ég sannfærður um, eftir þær tilraunir sem hafa verið gerðar, að svo beri að gera.

Um þá umræðu, sem um dragnótaveiði hefur fram farið á undanförnum áratug, mætti margt segja. Má segja að þær hafi ýmist verið bannaðar eða leyfðar og líklega háðar meiri takmörkunum, bönnum og boðum en flest önnur veiði. Ég skal þó ekki fara ítarlega í það, en vil þó nefna nokkur meginatriði.

Í fyrsta lagi má nefna að 1923 var veitt heimild fyrir ríkisstj. til að banna dragnótaveiðar í landhelgi, en heimild þessi mun aldrei hafa verið notuð. Með lögum frá 1928 um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi eru dragnótaveiðar bannaðar í landhelgi með vissum undantekningum. Dragnótaveiði var þó leyfð frá 1. sept. til 30. nóv. ár hvert. Síðan eru rýmkaðar heimildir til dragnótaveiða með brbl.1932, en svo fór að þingið felldi frv. þegar það var lagt fyrir Alþingi. Hins vegar er 1933, með lögum nr. 52, um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi, dragnótaveiði í landhelgi leyfð, auk þeirrar heimildar sem veitt var með lögum frá 1928 á vissum svæðum, þ. e. frá Hjörleifshöfða vestur undir Látrabjarg frá 15. júní — 30. nóv., en á Faxaflóa og Breiðafirði þó eingöngu heimilt þeim bátum sem skrásettir eru innan lögsagnarumdæmisins. Þannig má sjá að þegar á fyrstu árum eru mjög skiptar skoðanir um dragnótaveiði og má segja að þar sveiflist bönn og boð fram og aftur.

Með lögum nr. 45 13. júní 1937 um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi, eru heimildir til dragnótaveiða enn rýmkaðar til muna. Með þeim eru dragnótaveiðar leyfðar frá 15. maí til 30. nóv. ár hvert á svæði frá Eystra-Horni sunnan um land að Straumnesi og frá 15. júní til 30. nóv. ár hvert á svæði frá Straumnesi austur um land að Eystra-Horni. Þó eru skipum 35 brúttórúmlestir eða stærri bannaðar dragnótaveiðar frá 15. maí til 30. sept. ár. hvert. Og enn er gerð breyting með lögum nr. 1940. Þá er dragnótaveiði í landhelgi leyfð á tímabilinu 1. júní — 30. nóv. bátum sem eru innan við 35 rúmlestir að stærð. Aftur 1945, með viðauka við lög frá 1937, nr. 45, um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, getur ráðh. með vissum skilyrðum heimilað að ákveða frekari takmörkun eða bann gegn notkun dragnótar en eldri lög höfðu áður gert ráð fyrir.

Síðan eru með reglugerðarákvæðum, sem ég ætla ekki að rekja hér, gefnar út ýmsar reglur og bönn við dragnótaveiðum öll þessi ár, t. d. 1945 og 1950 með breytingu á reglugerðum.

Þá vil ég koma nokkuð meira inn á það sem hér er til umræðu: dragnótaveiðar í Faxaflóa.

Með lögum nr. 50 frá 16. apríl 1971, um breyt. á lögum nr. 21 10. maí 1969, um breyt. á lögum nr. 62 18. maí 1967, um bann gegn veiðum með botnvörpu, flotvörpu, voru dragnótaveiðar bannaðar í Faxaflóa. Bann þetta er síðan ítrekað í lögum frá 27. des. 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, og aftur með lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Því hafa dragnótaveiðar ekki verið stundaðar í Faxaflóa nema í tilraunaskyni síðan sumarið 1970. En á þeim tíma hefur Hafrannsóknastofnun gert tilraunir með kolaveiðar í dragnót á hverju sumri og hausti síðan 1976. Stofnunin hefur ítrekað í bréfum til rn. lagt til að dragnótaveiðar verði leyfðar í Faxaflóa með sömu skilyrðum og annars staðar við landið. Stofnunin telur að veiða megi í Faxaflóa 1500 lestir af kola án þess að skaða kolastofninn eða aðrar fisktegundir.

Á Alþingi 1978–1979 var lagt fram frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og gerði það ráð fyrir að dragnótaveiðar yrðu leyfðar í tilraunaskyni í Faxaflóa 1979 og 1980. Flm. voru Ólafur Björnsson og Guðmundur Karlsson. Máli þessu var vísað til ríkisstj. með ákveðinni ósk um að ríkisstj. hlutaðist til um að Hafrannsóknastofnunin héldi áfram tilraunaveiðum í Faxaflóa svo úr því yrði skorið, hvort nýta mætti þennan fiskstofn á skynsamlegan hátt þannig að ekki skaðaði fiskislóð á þessu þýðingarmikla svæði.

Haustið 1979 veitti því sjútvrn. tveimur bátum heimild til tilraunaveiða á kola í dragnót í Faxaflóa undir stjórn og eftirliti Hafrannsóknastofnunar og stóðu tilraunir yfir ágúst til september. Skilaði Hafrannsóknastofnun ítarlegri skýrslu um árangur þeirra tilrauna.

Í umræðum, sem urðu á Alþingi 28. maí 1980 vegna fsp. frá hv. alþm. Pétri Sigurðssyni um þessar veiðar, svaraði ég, að ég hefði í huga að þessum tilraunum yrði haldið áfram s. l. sumar og yrði bátum fjölgað, og jafnframt lysti ég því yfir, að ég mundi leggja fram frv. um opnun fyrir dragnót í Faxaflóa yrðu niðurstöður þeirra framhaldstilrauna hinar sömu og fengist höfðu áður.

Í framhaldi af þessu voru gerðar enn ítarlegri tilraunir með dragnót í Faxaflóa og tóku nú fimm bátar þátt í þeim. Þessar veiðitilraunir stóðu frá 1. júlí til 15. nóv. ítarlegar skýrslur Hafrannsóknastofnunar hafa verið gefnar út. Hygg ég að hafi verið dreift hér á Alþingi skýrslum Aðatsteins Sigurðssonar um tilraunaveiðar með dragnót. Þar kemur greinilega fram hver árangur varð af þessum tilraunum, m. a. rakið hver annar afli var á hinum ýmsu svæðum og hinum ýmsu tímum. Ég ætla því ekki að rekja þetta hér í smáatriðum, en vil segja að þessi annar afli var hverfandi lítill og er meginniðurstaðan eins og segir í upphafi skýrslunnar frá 1979, með leyfi forseta:

„Samkvæmt tillögum Alþingis frá síðari hluta vetrar 1979 veitti sjútvrn. tveimur bátum leyfi til tilraunaveiða með dragnót í Faxaflóa í þrjá mánuði á árinu 1979, þ. e. ágúst-október. Auk áframhaldandi rannsókna Hafrannsóknastofnunar á skarkolaveiðum með dragnót í Faxaflóa mæltist Alþingi til þess að gerð væri athugun á hagkvæmni veiðanna. Hafrannsóknastofnun hefur unnið að rannsóknum á áhrifum dragnótaveiða á aðra fiskstofna í Faxaflóa en skarkola síðan 1976 og komist að þeirri niðurstöðu, að þau séu sáralítil.“

Ég vísa til þessara skýrslna fiskifræðingsins til nánari upplýsingar um einstakar fisktegundir sem fengist hafa í þessum tilraunum.

Með hliðsjón af niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar er lagt til að banninu við dragnótaveiðum í Faxaflóa verði aflétt, en þó aðeins leyfðar veiðar á skarkola. Gert er ráð fyrir því, að Hafrannsóknastofnun geri tillögur um skipulag þessara veiða, þ. á m. um aflahámark þess skarkola sem veiða má árlega, veiðisvæði og veiðitíma. Ráðuneytið getur síðan bundið úthlutun leyfa þeim skilyrðum sem þurfa þykir, t. d. um leyfilegt hámark annars afla en skarkola. Veiðarnar yrðu síðan undir ströngu eftirliti og gæti rn. fyrirvaralaust svipt leyfishafa leyfum brjóti þeir gegn ákvæðum leyfisbréfa, enn fremur fyrirvaralaust stöðvað allar veiðar á ákveðnum svæðum ef ástæða þykir til.

Um dragnótaveiðar þessar mætti fara mörgum fleiri orðum og um suma hluti hefur verið spurt sem ég skal reyna að hlaupa yfir, en þó stytta mál mitt.

Veiðisvæðið hafa menn spurt um. Ég vil upplýsa að tilraunaveiðar þær, sem farið hafa fram undanfarin ár, hafa einkum verið gerðar á svæðum þeim sem opin voru fyrir dragnótaveiðum fyrir lokunina 1970. Hefur innsti hluti Faxaflóa með allri strandlínunni verið lokaður, þ. e. innan línu sem dregin er úr Hólmbergsvita um bauju nr. 6, þaðan um Þormóðsskersvita í Gölt á Snæfellsnesi. Talið er að á því svæði, sem opið var, sé helstu kolamiðin að finna. Hins vegar þyrfti að kanna fleiri svæði undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar og þá einkum á norðanverðum flóanum. En eins og ég hef áður lýst yrðu engin svæði opnuð nema Hafrannsóknastofnun teldi það vera í lagi með tilliti til þess, sem ætiíð hefur verið haft í huga, að takmarka sem allra mest veiðar á öðrum fiskstofnum.

Um eftirlit með veiðunum hefur töluvert verið rætt. Að mínu mati er ýmislegt sem gerir sjútvrn. og Hafrannsóknastofnun kleift að fylgjast mjög vel með þessum veiðum.

Í fyrsta lagi er það nálægð veiðisvæðisins og löndunarstaða sem gerir auðvelt að fylgjast með þessum veiðum og að sumu leyti betur en öðrum veiðum, bæði af Hafrannsóknastofnun og eftirlitsmönnum ráðuneytisins. Enn fremur verður að telja að auðveldara verði fyrir Landhelgisgæsluna að fylgjast með því, að dragnótabátar fari ekki inn á lokuð svæði, þar sem skip og flugvélar gæslunnar eiga að sjálfsögðu mjög oft leið um flóann úr og í eftirlitsferðir. Einnig má minna á að á tveimur undanförnum sumrum hefur rn. orðið vart við marga aðila, t. d. trillukarla, sem vilja hafa eftirlit með þessum veiðum — við getum sagt í sjálfboðavinnu — og eru fljótir að láta frá sér heyra ef þeim þykir eitthvað brotið af þeim reglum sem settar eru. Að vísu er mér tjáð, þegar ég hef spurt um slíkar upplýsingar, að þær hafi ekki ætíð reynst nægilega öruggar, en enginn vafi er á að í þessu er töluvert aðhald.

Eftirlit ráðuneytisins yrði, eins og verið hefur, einkum fólgið í því að fylgjast með aflasamsetningunni, en fyrirvaralausri leyfissviptingu varðar að vigta ekki allan aflann sundurliðaðan eftir tegundum. Enn fremur verður farið í veiðiferðir með bátum til þess að fylgjast með veiðarfærum, veiðiaðferðum og fleira.

Um möskvastærðina er það að segja, að fram til ársins 1975 var lágmarksmöskvastærð í dragnót 110 millimetrar, en var breytt í 135 millimetra með reglugerð sem var gefin út 9. sept. 1974. Með reglugerð sem var gefin út 26. mars 1976 var lágmarksmöskvastærð í poka, þ. e. í fimm öftustu metrum pokans, ákveðin 170 millimetrar, en var áfram 135 millimetrar í öðrum hlutum nótarinnar. Sú reynsla, sem fékkst af þessari möskvastærðarstækkun í 170 millimetra, reyndist ekki vel. Fiskimenn töldu sig missa of mikinn fisk, næstum allan bolfisk og kola langt yfir hirðanlegri stærð. Afleiðingin af þessu varð að margir hættu að stunda þessar veiðar, en aðrir gripu til ýmissa ráða til að minnka möskvann, t. d. klæðningar eða bundu einfaldlega fyrir belginn fyrir ofan 170 millimetra möskva, og er það að sjálfsögðu ekki góð leið. Eftir miklar umræður var þó ákveðið að fallast á tillögur Hafrannsóknastofnunar og gripið til þess með reglugerð frá 23. maí 1979 að ákveða 155 millimetra lágmarksmöskvastærð í allri nótinni. Ég held ég megi segja að sú millileið hafi gefist vel og menn hafi bæði sætt sig við hana og talið að viðunandi árangur með veiðum náist með þeirri möskvastærð.

Um dragnótaveiðar á svæðum öðrum en Faxaflóa mætti flytja nokkuð langt mál, því þær eru víða stundaðar þó að þær hafi farið mjög minnkandi undanfarin ár. T. d. má nefna að 76 veiðileyfi voru veitt 1975, 62 leyfi 1976, 60 leyfi 1977, 57 leyfi 1978, 46 leyfi 1979 og 37 leyfi 1980. Þannig hefur jafnt og þétt úr þessum veiðum dregið. Helstu verstöðvarnar eru Ólafsvík, Patreksfjörður, Sauðárkrókur, verstöðvar við Eyjafjörð, Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn, og 2–3 bátar hafa stundað slíkar veiðar frá Austfjörðum. Sá samdráttur, sem hefur orðið í þessum veiðum, stafar af því, að við stækkun möskvans hefur bolfiskafli minnkað og víða er lítill áhugi á því að fá kola til vinnslu eða a. m. k. var þó að það sé von mín að það kunni nú að breytast. Ráðuneytið hefur þó reynt að auka kotaveiðarnar með því að veita rýmri veiðisvæði og hefur, eins og ég sagði áðan, dregið úr andúð á þessu veiðarfæri, að okkar mati, og einnig andstöðu gegn þeim möskva sem nú er ákveðinn. Ég hygg að stækkun möskvans eigi töluverðan þátt í því að menn snúast minna gegn notkun þessa veiðarfæris almennt. Enn fremur vil ég geta þess, að rn. hefur oft gripið til þess að veita dragnótabátum frá ákveðnu byggðarlagi rýmri heimild til kolaveiða í þeim firði þar sem byggðarlagið stendur. Hefur það verið gert í samkomulagi við útgerðar- og sjómenn frá þeim stað og gefist vel.

Ég vil að lokum, með leyfi forseta, lesa bréf frá vinnsluaðila, því um það var beðið í tilvísun sjútvn. til rn. að vinnslan yrði einnig könnuð. Hef ég því fengið bréf frá Ísbirninum hf. sem ég vil leyfa mér að lesa. Það er dagsett 10. febr. 1981 og segir svo:

„Sem svar við bréfi sjútvrn., dagsettu 26. jan. s.1., um skarkolavinnslu Ísbjarnarins hf. s. l. sumar, viljum við láta eftirfarandi upplýsingar í té:

Tveir bátar, Aðatbjörg RE 5 og Guðbjörg RE 21, lögðu upp skarkolaafla sinn hjá félaginu. Veiðar hófust 7. júlí og lauk þeim 29. okt. Afli bátanna, sem Ísbjörninn hf. tók á móti, var sem hér segir:

Aðalbjörg 177 410 kg í róðrum, þar af 5976 kíló af öðrum fiski en skarkota eða 2765 kíló af skarkola í hverjum róðri að meðaltali.

Guðbjörg 195 352 kíló í 65 róðrum, þar af 4569 kíló af öðrum fiski en skarkola eða 2935 kíló af skarkola í hverjum róðri að meðaltali.

Yfirleitt var afli nokkuð jafn. Minnsti afli í róðri var um 1000 kíló og sá mesti um 5700 kíló. Samtals tók félagið í vinnslu af ofangreindum bátum 362 217 kíló af skarkola.

Veiðunum var þannig háttað, að bátarnir fóru yfirleitt í róður milli kl. 6 og 8 að morgni og komu milli 20 og 22 að kvöldi. Gert var að aflanum um borð og hann þveginn og ísaður í kassa. Aflanum var strax landað er komið var að landi og settur í stálkör með ísvatni, geymdur í kælikistu til morguns þar til vinnslan hófst. Dagsaflinn var ætíð unninn upp á einum degi.

Vinnslunni var hagað þannig, að fyrst var kolinn þveginn í þar til gerðri þvottavél og síðan var hann flakaður í kolaflökunarvél. Að flökun lokinni var kolinn snyrtur, stærðarflokkaður í sjö flokka og flökin sérfryst í bandfrystilæki. Loks var flökunum pakkað, ýmist í 35 punda kassa eða 10 punda kassa, hvort tveggja fyrir Bretland. Enn fremur var nokkuð magn pakkað í 2 punda poka fyrir innanlandsmarkað.

Vinnslan tókst mjög vel að öllu leyti, nýting var góð og hráefnisgæðin voru eins og best verður á kosið.

Sala á framleiðslunni hefur gengið allsæmilega, en eins og áður var getið var kolinn nær eingöngu framleiddur fyrir Bretlandsmarkað, en aðrir helstu markaðir eru Bandaríkin, Danmörk, Vestur-Þýskaland og fleiri lönd í Mið-Evrópu. Til þess að innflutningur til ríkja Efnahagsbandalagsins geti verið arðbær er nauðsynlegt að flaka kolann, en innflutningur til EBE-landa er tollfrjáls, en 15% tollur á heilfrystum fiski. Enn fremur er meiri og betri markaður í Evrópu fyrir sérfryst kolaflök heldur en blokkfryst og þurfa flökin þá jafnframt að vera nákvæmlega stærðarflokkuð.

Óhætt er að fullyrða að þessar vinnslutilraunir Ísbjarnarins hf. s.l. sumar leiði ótvírætt í ljós að vinnsla á skarkola getur verið arðbær og eigi mikla framtíð fyrir sér.“

Undir þetta skrifar f. h. Ísbjarnarins hf. Jón Ingvarsson.

Eftir þessar tilraunir, og ég leyfi mér að segja: ítarlegar tilraunir, og athugun á kolaveiðum í Faxaflóa er ég eindregið þeirrar skoðunar, að slíkar veiðar beri að heimila en undir ströngu eftirliti, bæði Hafrannsóknastofnunar og sérstakra eftirlitsmanna, til að koma í veg fyrir að það tjón skapist af þessum veiðum sem getur orðið ef óvarlega er að þeim staðið. Ég tel að þessar tilraunir hafi sýnt að hægt er að standa að þessum veiðum þannig að slíkt tjón verði algjörlega í lágmarki.

Það hefur einnig áhrif á afstöðu mína í þessu máli, að kolastofninn er einn af þeim fáu fiskstofnum sem við nýtum ekki til hlítar. Þar má auka sóknina nokkuð. Ég held að okkur sé nauðsynlegt að nýta fiskstofna okkar alla að því marki sem óhætt er talið og því æskilegt að auka sóknina í kolastofninn. Auk þess er ljóst að markaður er fyrir þessa framleiðslu. Þessi framleiðsla er mjög góð. Þessi fiskur er ákaflega góður. Það veit ég að þeir geta borið um sem hafa reynt.

Ég sagði í upphafi að mér er ljóst að um þetta mál eru verulegar deilur. Því er þetta mál ekki flutt sem stjfrv., heldur að sjálfsögðu lagt í ákvörðun Alþingis og einstakra þm. að ákveða hvort Faxaflói skuli lokaður áfram, eins og verið hefur, eða opnaður með þeim takmörkunum sem ráð er fyrir gert.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.