11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í löngu og ítarlegu máli hæstv. sjútvrh. fjallar frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Eins og hæstv. ráðh. gat réttilega um voru dragnótaveiðar bannaðar í Faxaflóa með lögum nr. 50 frá 16. apríl 1971. Þetta bann hefur verið í gildi síðan, með ýmsum smávægilegum takmörkunum þó, en þó má segja að dragnótaveiðar hafi ekki verið stundaðar í Faxaflóa síðan sumarið 1970 nema í algjöru tilraunaskyni. Frá árinu 1976 hefur Hafrannsóknastofnunin gert tilraunir með kolaveiðar í dragnót á þessu svæði á hverju sumri og hausti. S. l. sumar munu fimm bátar hafa tekið þátt í þessum veiðitilraunum í Faxaflóa.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. vék að, að mál þetta hefur löngum verið mikið deilumál á Alþingi. Þeir, sem muna hvernig málum var komið á þessu fiskveiðisvæði áður en bann það gekk í gildi sem hér er til umræðu, óttast mjög ef flóinn verður opnaður á ný. Með þessu frv. er að vísu gert ráð fyrir því, að banninu við dragnótaveiðum í Faxaflóa verði aflétt á þann veg, að aðeins verði leyfðar veiðar á skarkola. Eigi að síður hygg ég að menn séu síður en svo á einu máli um þetta frv. og þau rök sem það byggist á. Þess vegna vil ég taka undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði, að frv. þetta hefur að vísu verið rætt í ríkisstj., en það er ekki flutt sem stjfrv., heldur af sjútvrh., en einstakir ráðherrar hafa fyrirvara um stuðning við þetta mál og þar á meðal er ég.

Ég leyfi mér aðeins, án þess að gera þetta mál að löngu umræðuefni við þetta tækifæri, að vitna í öll þau rök sem hafa verið flutt á mörgum undanfarandi þingum gegn tillögum af þessu tagi, þegar slík mál hefur borið á góma,

— mörg og mikilvæg rök, ótta manna við opnun þessa veiðisvæðis sem byggður er á langri sögulegri reynslu.

Ég skal ekki hafa mál mitt lengra að sinni, en tek fram að ég hef fullan fyrirvara um þetta frv. og hef ekki lýst yfir stuðningi við það.