12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

124. mál, veiðar og vinnsla á skelfiski í Flatey

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég er að vísu alveg sammála því sem felst í lögum um samræmingu veiða og vinnslu, enda flutti ég slíkt frv. hér á þingi tvisvar, en það var síðan flutt af þáv. sjútvrh. í svipaðri mynd og var gert að lögum. Hins vegar er ég ósammála því, að þau lög komi í veg fyrir að einstök byggðarlög við sama fjörð fái örlítið magn, sérstaklega þegar veiðimagn er vaxandi eins og er á Breiðafirði og þegar slíkt örlítið magn getur orðið til þess að tryggja atvinnuástand. Það munar stundum mjög mikið um smávegis magn sem einstök byggðarlög geta þannig fengið.

Í því tilfelli, sem hér er um að ræða, er gagnrýnt af hv. 5. þm. Vesturl. að 400 lestum var úthlutað á tvo aðra staði við Breiðafjörð heldur en Stykkishólm. En það er misskilningur hjá hv. þm. að aðstaða á Brjánslæk sé léleg að þessu leyti. Þar er ágætt vatn t. d., þar er nógu margt fólk til að vinna þessar 400 lestir og þar er að hluta mjög nýlegt hús, t. d. með frysti. Ég vil leiðrétta þetta, án þess að fara að endurtaka þær umræður sem við áttum í Ed. um þetta mál.

Af þessari ástæðu hugleiddi ég mjög að úthluta Flatey einhverjum smákvóta, þegar úthlutað var nú, og ég lét embættismenn athuga aðstöðu. Að vísu var mér sjálfum kunnugt um það vitanlega sem þm. kjördæmisins, að þarna væri aðstaða mjög erfið til slíkrar vinnslu og ólíklegt satt að segja að hún gæti orðið eins og nú er ástatt. En ég lét samt sem áður skoða það mál. Og því miður er það rétt, sem kom fram áðan hjá 7. þm. Reykv., að þar er hvorki nægilega gott vatn né nægilega mikið, frystihúsið er orðið gamalt og úr sér gengið og þar er fátt fólk. En við skulum segja að því gæti fljótlega fjölgað.

Niðurstaðan var sú, að þótt ég veitti leyfi mundi þessi staður ekki fá heimild vegna hollustuhátta. Hann fullnægir ekki þeim ströngu reglum sem settar eru í dag um vinnslu á skelfiski sem og öðrum fiski, því miður. Ég vil segja því miður. Því að ég er sannfærður um, að smákvóti fyrir Flatey mundi mjög styrkja þar byggð, og ég tel enga goðgá þó að einhverju örlitlu yrði úthlutað til slíks staðar sem liggur á miðjum miðunum sem eru í kringum eyjuna.

Að vísu er sá bátur, sem þarna er, fulllítill til hörpudiskveiða. Það fylgja því ákveðnar hættur að stunda veiðar á hörpudisk með þungum plóg á svo litlum bát, en það má þó gera.

Ég vil segja það að ég hef verulegar áhyggjur — eins og kom fram einnig í ræðu hv. 1. þm. Vestf. — af byggðaþróun í eyjunum. Það var þess vegna sem ég flutti í stjórn Framkvæmdastofnunar fyrir þremur árum till. um það, að gerð yrði sérstök byggðaáætlun fyrir þessa mjög athyglisverðu byggð, þessa byggð þar sem ýmislegt fólk vill í raun og veru vera og þar sem stundaður er búskapur sem ekki nýtur neinna styrkja og þarf ekki á neinum styrkjum að halda. Þar er t. d. mjög arðvænlegur búskapur með æðarfugl, sem eflaust mætti auka ef rétt væri að málum staðið, fleira sem þannig má gera. Ég harma að þessari áætlunargerð er ekki lokið. Mér skilst að hún sé nú langt komin, en mér finnst að hún hafi dregist allt of lengi.

Ef þarna á að vinna skelfisk, þá hygg ég að stofnun eins og t. d. Byggðasjóður hljóti áður eða um leið að þurfa að hlaupa undir bagga með verulegri fjárveitingu til að bæta þá aðstöðu sem gera verður kröfu til við slíka vinnslu. Mér sýnist því að þetta mál væri best komið í þeirri athugun sem Framkvæmdastofnun og Byggðasjóður eru með, og ég hef reyndar hreyft því máli við starfsmenn þeirrar stofnunar, hvort þeir geti ekki gert nokkra úttekt á því, hvað þarna þurfi að gera til þess að megi vinna hörpudisk.

Þessi till. hljóðar hins vegar um það, að Alþingi skipi sjútvrh. að veita þetta leyfi í síðasta lagi haustið 1981. Ef það verður samþykkt geri ég það að sjálfsögðu. En því miður er ég viss um að ekki fæst leyfi til vinnslu af öðrum ástæðum, sem ég rakti áðan, svo að ég held að skynsamlegra væri að halda á þessu máli á annan hátt, reyna að gera nauðsynlegar lagfæringar og athuganir í gegnum Byggðasjóð. Það kann vel að vera að húsið, sem þarna er, sé svo lélegt orðið að sú fjárfesting, sem talin verður nauðsynleg, sé of mikil. Ég er ekki dómbær á það á þessari stundu. En ég held að málið þurfi sem sagt töluvert meiri athugunar við áður en unnt er að samþykkja að leyfi til skelfiskvinnslu sé veitt.