12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2880 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að það hljóti að vera vegna þess, hve hæstv. menntmrh. hefur verið mikið fjarverandi á þingfundum það sem af er þessum vetri, að hann fullyrðir að sjaldan eða aldrei hafi verið meira um utandagskrárumræður en nú. Ég fullyrði það gagnstæða. Það hefur verið minna um utandagskrárumræður á þessum vetri en oft áður. Hins vegar hefur verið mun meira um það, að orðið hefur að stytta fundi vegna fjarveru ráðh. eða að menn hafi orðið að ræða mál, sem ráðherrar hafá lagt fram, í fjarveru þeirra. Sumir hæstv. ráðh. hafa ekki einu sinni séð sóma sinn í því að vera viðstaddir umræður á Alþingi um mál sem þeir sjálfir hafa lagt fram.

Í annan stað held ég að ég verði að segja það um hæstv. menntmrh., að hann virðist búa yfir sérstökum hæfileika til að hvetja menn til að taka til máls þegar hann kemur hingað í stólinn, vegna þess að málflutningur hæstv. ráðh., sem kom hér fram áðan, einkenndist af því að svo til allan ræðutíma sinn, a. m. k. fyrri hluta ræðutíma síns, notaði hann til mjög óviðurkvæmilegra persónulegra árása á mann sem bar fram til hans mjög einfalda spurningu.

Hæstv. menntmrh. var ekki mjög lengi forseti hér í Alþingi. En það verð ég þó að segja, að ég vil heldur treysta mati núv. forseta Alþingis á því, hvaða umræður séu þinglegar og hvenær menn fari þar rétt að, heldur en skoðun hæstv. menntmrh. á því máli. Mæli ég það af reynslu af þessum mönnum báðum sem forsetum hér í þinginu.

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt við að málefni útvarpsins séu tekin til umræðu hér á Alþingi, þegar það virðist ætla að gerast að hæstv. núv. menntmrh., sem hefur ekki látið mikið að sér kveða í umræðum hér á Alþingi, síðan hann tók við því embætti né í málatilbúnaði hér, virðist ætla að reisa sér þann minnisvarða, að á fyrsta heila stjórnarári hans í menntmrn. sé ekki aðeins um að ræða stöðnun í málefnum ríkisfjölmiðlanna, heldur hreina afturför, ef það á að gerast, að á fyrsta heila ári hæstv. menntmrh. sem æðsta yfirmanns útvarps og sjónvarps skuli eiga að stórskerða dagskrá sjónvarpsins, sem er sá fjölmiðill sem gamalt fólk, fatlað fólk og annað fólk, sem á erfitt um vik með að komast af heimili sínu, þarf helst á að halda. Það er ekkert óeðlilegt að upp sé tekin umræða um slíkt utan dagskrár hér á Alþingi þegar við erum, eins og kom fram raunar hjá hæstv. ráðh. sjálfum, búnir að bíða hátt í tvo mánuði eftir að eitthvað heyrist frá hæstv. menntmrh. um málefni Ríkisútvarpsins, vitandi í hvílíkum vandræðum þessi stofnun er. Og það sýnir aðeins ókunnugleika hæstv. menntmrh. á málinu, furðulegan ókunnugleika, ef hæstv. ráðh. heldur að úrslit um afkomu ríkisfjölmiðils, útvarps og sjónvarps, séu ráðin af fjvn. Maður, sem er búinn að sitja í stól menntmrh. jafnmarga mánuði og hæstv. menntmrh., hlýtur að vita það, að úrslitin um afkomu Ríkisútvarpsins ráðast af ákvörðunum ríkisstj. um afnotagjöld og auglýsingataxta. Það er ekki verkefni fjvn., hæstv. menntmrh., að fjalla um slíka hluti. Það er hins vegar verkefni ríkisstj. En e. t. v. sýnir það best, hversu lítinn tíma hæstv. menntmrh. hefur til þess að sinna málefnum Ríkisútvarpsins, að hann skuli ekki vita þetta.