12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

137. mál, kennsla í útvegsfræðum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þessi þáltill. er flutt af fjórum hv. þm. og tilheyra þeir hver sínum flokki. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að ég tek undir þá stefnu, sem fram kemur í þessari till., um það að stefna beri markvisst að því að koma á kennslu í útvegsfræðum á háskólastigi hér á landi. Ég er því samþykkur efni tillögunnar.

Ég vil jafnframt geta þess, að þessi mál hafa verið til umræðu nú um nokkurt skeið innan Háskólans og þar er vilji fyrir því, að tekin verði upp skipuleg kennsla í útvegsfræðum. Og ég held að allir séu sammála um að það sé mikil nauðsyn. Þetta vil ég taka sérstaklega fram varðandi þetta mál, og ég vona að þessi till. fái eðlilega afgreiðslu hér í hv. Alþingi, verði samþykkt, og ég hygg að það verði einmitt á grundvelli hennar, eftir að fyrir liggur þingvilji, á ýmsan hátt auðveldara fyrir Háskólann að ráðast í þær framkvæmdir og byggja upp það skipulag sem þarf til þess að koma slíkri kennslu fyrir.

Mér þykir rétt að geta þess, að ýmiss konar kennsla, sem tengist útvegsfræðum, á sér stað innan Háskólans, eins og tekið er saman í grein eftir Sigurð Haraldsson skólastjóra Fiskvinnsluskólans, sem hann skrifar í blað sem nefnist „Útvegstæknirinn“ og hefur gengið hér um á meðal manna í þinginu. Hins vegar kemur það greinilega í ljós af því yfirliti, sem Sigurður gefur þar um þessa kennslu, að þar vantar samræmingu sem nauðsynleg er til þess að hægt sé að tala um að um sé að ræða heildstæða kennslu í þessum fræðum.

Sem sagt: Ég tek undir þá stefnu, sem kemur fram í þessari till., og vil láta þess getið. Ég vænti þess, að till. nái fram að ganga að efni til, og það verður þá þingnefndar að kanna hvort einhverju þurfi að hnika til í orðalagi. Það skal ég ekki ræða frekar hér, en mæli með efni þessarar tillögu.