04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

354. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það fer fjölgandi bændum í ræðustóli í dag. Ég vildi aðeins leggja örfá orð í þennan belg.

Þegar til samdráttaraðgerða kom í landbúnaði fyrir um það bil tveimur árum höfðu ýmsir uppi þau orð, að nú yrðu allir felmtri slegnir og sveitirnar tæmdust, það væri ekki bjartara en það fram undan.

Nú hef ég það fyrir satt, að þrátt fyrir samdráttaraðgerðir í landbúnaði, sem auðvitað eru umdeildar, — og það eru til menn sem óttuðust þessar aðgerðir og óttast þær enn, — þá er það þannig, að aldrei hefur verið meiri aðsókn í bújarðir en einmitt í dag. Þetta vekur upp þá spurningu í huga manns af hverju menn eru við búskap. Af hverju sækir fólk svona í það að vera í búskap? Af hverju stundar það búskap?

Miðað við samdráttaraðgerðir, miðað við minni heildartekjumöguleika stéttarinnar, — ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma, — þá sýnist mér að fenginni reynslu undanfarinna mánaða að það sé allt annað en beint tekjusjónarmið sem ræður því, hvort fólk haslar sér völl í landbúnaði eða ekki.

Út af þeim ummælum hv. síðasta ræðumanns; að ekki ætti að blanda saman ráðstöfunum í landbúnaðinum og almennri atvinnuuppbyggingu í dreifbýli, þá get ég út af fyrir sig fallist á það, að atvinnuuppbygging á öðrum forsendum bjargi í sjálfu sér ekki þeim vandamálum sem við er að glíma í landbúnaðinum sjálfum, markaðsmálum og e.t.v. upphaflegum ástæðum erfiðleikanna, efnahagsástandinu. En ég vil ítreka það sem mína skoðun, að þeir, sem búa í dreifbýli, verða auðvitað að hafa vinnu og auðvitað verða þeir að hafa tekjur. Sveitarfélögin verða að hafa ákveðnar tekjur til þess að byggja á. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Að svo stöddu geri ég ekki að ágreiningsefni hvort einn maður hefur framfæri sitt af landbúnaði eða einhverju öðru, svo fremi að hægt verði að halda byggð í þessu landi. Aðalatriðið er að fólkið hafi lífsframfæri af hollri iðju.