12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (3013)

235. mál, innlendur lyfjaiðnaður

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég tel fyrst sérstaka ástæðu til að taka undir orð hv. 1. flm. þessarar till. um vaxtarbrodd íslensks iðnaðar utan allrar stóriðju. Þeirri yfirlýsingu ber svo sannarlega að fagna. Hún er réttmæt og sjálfsögð og við mættum gjarnan huga betur að því, hversu raunhæft og rétt þetta er í öllu stóriðjuþruglinu sem yfir okkur gengur stundum.

Ég get tekið undir meginefni þeirrar þáltill., sem hér er lögð fram, og er ekki ósammála út af fyrir sig neinum sérstökum lið sem þarna er nefndur, enda hlýtur það að vera svo, að þegar nefnd fær þetta til meðferðar verður um hvern einstakan lið fjallað og menn velta því fyrir sér, hvað skuli þar tekið sérstaklega og hverju skuli breytt og hvað jafnvel niður fellt til þess að menn nái þar samkomulagi.

Þetta kallar hins vegar á spurninguna um það, sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á, að okkur vantar í raun og veru nýja löggjöf varðandi lyf almennt, lyfjadreifingu, framleiðslu og sölu þeirra. Og það er mikil nauðsyn á því að fá nýja löggjöf fram af því tagi. Það er mikil ástaða til að minna á það, að núv. ríkisstj. vinnur hér að. Og það er full ástaða fyrir alla að ná þar saman og láta ekki togstreitu, sem um sumt kann að vera annarleg innan þessarar greinar, ráða þar um of ferðinni.

Það er rétt að minna á þetta hér, kannske alveg sérstaklega að rifja þetta upp fyrir okkur hv. 1. flm., vegna þess að við höfum verið tilnefndir hvor af sínum stjórnaraðila til þess að fjalla sérstaklega um frv. af þessu tagi. Og ég held að það gildi um okkur báða, að við höfum ekki lagt okkur nægilega fram til þess að ganga vel til verks. (Gripið fram í.) Já, við erum bara tveir í þessu tilfelli, ég nefni ekki þann þriðja. Þriðji aðilinn er ekki hér í þingsalnum. Vissulega eru þrír stjórnaraðilar, og það veit hv. þm. allra manna best. (Gripið fram í: Sárast.) Eða allra manna sárast, já. En ég skal viðurkenna það þó, að mín sök gagnvart því máli er meiri en hv: 1. flm. varðandi það, hvernig vinnsla á þessu frv. hefur farið úrskeiðis allt um of, og einnig að þar hefur ekki verið rekið nóg á eftir að menn náðu saman endum.

Þrátt fyrir þessa till., sem lýtur að ýmsu utan við það sérstaka frv. sem við höfum nú verið að fjalla um, hv. 1. flm., þá veit ég að við munum áfram vinna að lyfjadreifingarfrv. og ná þar um fyrr eða síðar samstöðu. Ekki bara við tveir, heldur einnig þriðji stjórnaraðilinn. Og ég held að á þessu sé mikil nauðsyn. Það kallar á ýmislegt af því sem kemur fram í þeim töluliðum sem hérna eru sérstaklega nefndir, kallar beinlínis á nýja lagasetningu um sölu og framleiðslu lyfja. Og þar þurfum við að fá fram sem skýrust og ákveðin lagaákvæði, þó að hér sé einnig komið inn á önnur ákvæði sem ég get tekið undir.

Á sínum tíma gerðum við hv. þm. Stefán Jónsson svipaða tilraun og hér er gerð til að vekja athygli á þessu máli og fluttum till. til þál. um eflingu innlendrar lyfjaframleiðslu. Og með leyfi hæstv. forseta sakar ekki að lesa hana. Hún var ekki svona ítarleg og vel undirbúin, en þó freistuðum við þess að afla okkur greinargóðra upplýsinga sem við gátum komið með inn í umræðuna. Tillagan var styttri, en þó nokkuð ákveðið orðuð:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta undirbúa frv. á þá lund, að innlend lyfjaframleiðsla njóti forgangs umfram innflutt lyf sé hún fyllilega samkeppnisfær. Að því leyti sem innlend lyf eru talin jafngóð erlendum verði læknum lögð viss skylda á herðar að nýta þau umfram hin erlendu lyf og jafnframt verði stuðlað að fjölbreyttari lyfjaframleiðslu en nú er.“

Hér er í raun og veru komið inn á kannske þrjú þau atriði sem mestu máli skipta í þeirri till. sem nú er til umfjöllunar. Ekki er ég að vekja athygli á þessari till. vegna hugvitsemi okkar hv. þm. Stefáns Jónssonar á sínum tíma, þó að hana beri vissulega að meta. Hins vegar vil ég taka það fram, að þetta var gert á þeim tíma þegar ljóst var að ekkert var á döfinni af hálfu stjórnvalda varðandi frumvarpsgerð eða undirbúning að frv.- gerð, hvorki um lyfsölu né lyfjaframleiðslu, þannig að við höfðum ríka ástæðu til að ýta hér á eftir — (StJ: Það var undir stjórn Geirs Hallgrímssonar.) — með sérstöku tilliti til þess, að á árunum 1972 og 1973 voru flutt hér á Alþingi mjög viðamikil stjfrv. varðandi lyfsölu og lyfjadreifingu.

Aðalástæðan til þess, að ég minni á þessa till. nú, er í raun og veru sú, að hún rennir stoðum undir samþykkt þeirrar till. sem hér um ræðir, af því að þá fékk till. þessi hinar bestu undirtektir. Ef mig misminnir ekki töluðu fulltrúar allra flokka í Ed. um þessa till., lýstu yfir stuðningi við hana, og það sem okkur þótti vænst um var viss stuðningur hv. þáv. þm. Odds Ólafssonar við meginefnisatriði till. þó að hann vildi þar hafa nokkurt annað orðalag á. En þrátt fyrir það að við endurflyttum þessa till. og fengjum hana í nefnd tvívegis til skoðunar, og menn væru þá að fást við hin sömu vandamál og hv. 1. flm. benti á að væru til staðar, ekkert síður alvarleg þá en nú, varðandi þá mismunun sem hér er um að ræða, þá fór nú samt svo, að þessi till. var ekki afgreidd. Þó að ég ætti þá sæti í þeirri nefnd, sem fékk þessa till. til meðferðar og reyndi mitt besta, þá náði þessi till. ekki samþykki þrátt fyrir góð orð þm. Þannig vill það því miður oft verða.

Ég fagna hins vegar eindregið því sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði hér áðan um hið nýja líf sem hv. atvmn. hefur fengið — (FrS: Án lyfjagjafar.) — án allrar lyfjagjafar og vænti þess, að fái hún nú þessa till. til viðbótar, með hæfilegri lyfjagjöf, þá muni hún frískast svo mjög að við förum meira að segja að sjá frá henni nál. senn hvað líður. Ég vona það.

En sem sagt, ég vildi aðeins vekja athygli á því, að þrátt fyrir það að meiri hl. þm. sé sammála um meginatriðið, um nauðsyn þess að efla innlendan lyfjaiðnað, veita honum ákveðinn forgang, þá er eins og það gangi ekki sérlega vel fyrir okkur að koma því í gegn. Við skulum horfast í augu við þau vandamál, sem eru innan þessa lyfjaiðnaðar, og þá vissu togstreitu, sem þar ríkir milli einstakra aðila, og ekkert horfa fram hjá því að þar eru viss vandamál á ferðinni, því miður, hjá okkur eins og í fleiri greinum. Menn eru að togast á um hluti sem verða að aðalatriðum hjá þeim og menn láta sér vaxa um of í augun, en eru í raun og veru alger aukaatriði þegar að meginmálinu er komið. Og við skulum um leið leggja áherslu á það, að við þurfum að ýta á eftir því við stjórnvöld — og við hv. 1. flm. höfum þar sérstaka skyldu — að lyfjadreifingarfrv. og lyfsölufrv. nái sem fyrst fram að ganga á viðunandi hátt.