16.03.1981
Efri deild: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

24. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem nú er til umr. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða, er flutt í tengslum við frv. til l. um breyt. á l. um fiskvinnsluskóla, og hafa þessi frv. fylgst að í gegnum hv. Nd. Þetta frv. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða var flutt á síðasta löggjafarþingi og raunar einnig á þinginu þar áður, en hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu.

Frv. þetta svo og frv. til breyt. á l. um fiskvinnsluskóla, sem ég gat um áðan, voru samin af þriggja manna nefnd sem var skipuð fulltrúum frá sjútvrn., Fiskvinnsluskólanum og Framleiðslueftirlitinu. Ástæður fyrir endurflutningi frv. nú eru hinar sömu og áður og má raunar segja að því brýnna sé að lögfesta ákvæðin því lengri sem tíminn verður frá því að þessi frv. voru samin.

Ég hef raunar ekki mikið um þetta mál að segja. Ég gat þess í Nd. að nokkrar athugasemdir voru gerðar við frv. þetta af forstjóra Framleiðslueftirlits sjávarafurða, og þær hafa verið teknar að nokkru leyti til greina í hv. Nd. og hef ég ekkert við þær breytingar að athuga.

Ég vil svo leggja til að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. sjútvn. og 2. umr.