04.11.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

9. mál, iðnaður á Vesturlandi

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 10 flytjum við þm. Vesturl. till. til þál. um eflingu iðnaðar á Vesturlandi. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. áð hlutast til um gerð áætlunar um iðnþróun á Vesturlandi.“

Á 102. löggjafarþingi var mál þetta flutt af okkur þm. Framsfl. á Vesturlandi. Flutti 3. þm. Vesturl. ítarlega framsögu um málið hér í Sþ. sem ég vísa til. Var till, vísað til n., en hlaut ekki afgreiðslu fyrir þinglok. Málið er nú flutt á ný af öllum þm. Vesturl. Hér er um þýðingarmikið mál að ræða sem varðar miklu um framtíð byggða á Vesturlandi. Við flm. gerum ráð fyrir að áætlun þessi verði jafnhliða stefnumótun ríkisvaldsins og heimamanna um æskilega framtíðarþróun atvinnulífs á Vesturlandi.

Um árabil hefur Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðadeild, unnið að gerð byggðaþróunaráætlana fyrir einstök byggðasvæði á Vesturlandi. Við teljum því eðlilegt að fela stofnuninni gerð þeirrar áætlunar um þróun iðnaðar í landshlutanum sem hér er fjallað um, enda er um verkefni að ræða sem útfæra þyrfti í hinni almennu byggðaþróunaráætlun fyrir einstök byggðasvæði innan landshlutans. Jafnframt leggjum við áherslu á að áætlunin verði unnin í nánu samráði og samvinnu við samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi.

Á 102. löggjafarþingi fluttum við allir þm. Vesturl. þáltill. um framkvæmd Dalabyggðaráætlunar, sem þá var fullgerð eftir margra ára vinnu hjá byggðadeild Framkvæmdastofnunarinnar, en hafði ekki fengist samþykkt hjá stjórn stofnunarinnar. Það eru því vissulega ánægjuleg tíðindi fyrir okkur og byggðir Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, að á fundi í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar 29. sept. s.l. var gerð eftirfarandi bókun um áætlanir fyrir Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu:

„Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins samþykkir að heimila útgáfu ritsins Dalabyggð, byggðaþróunaráætlun 1981–1986. Stjórnin lítur svo á, að áætlun þessi marki stefnu um framkvæmdir á því svæði sem áætlunin nær til, og mun fyrir sitt leyti stuðla að framkvæmd áætlunarinnar, en þó þannig, að stuðningur við framkvæmd einstakra mála sé samþykktur af þeim stofnunum, sem áætlunin tekur til, og háður sérstakri athugun og ákvörðun hverju sinni.“

Ég tel ástæðu til að lýsa ánægju með þessa samþykkt sem væntanlega fær nú jákvæða afgreiðslu ríkisstj., ekki hvað síst vegna þess að samþykktin er vissulega prófsteinn á vilja um framkvæmd byggðastefnu, byggða á vandlega undirbúinni áætlanagerð sem jafnframt er í samræmi við lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, en þar stendur m.a. í 28. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlun og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Það mikla starf, sem liggur að baki þessarar áætlunar um Dalabyggð, mun koma að verulegum notum við gerð áætlunar um iðnþróun á Vesturlandi. Hefur byggðadeild í samstarfi við samtök sveitarfélaga á Vesturlandi unnið að og gefið út úttekt á orkumálum, þar með töldum jarðhitamöguleikum og varmaveitum, um jarðefni til iðnaðar á Vesturlandi, um fiskimiðin, hráefnisöflun í sjávarútvegi, samgönguáætlun, svo að eitthvað sé nefnt. Allt mun þetta koma að notum við gerð iðnþróunaráætlunar.

Horfur um þróun mannfjölda og mannafla annars vegar og þá ekki síður fyrirsjáanlegar breytingar á atvinnuskiptingu hins vegar hafa grundvallarþýðingu fyrir mótun atvinnustefnu næstu ára. Framkvæmd slíkrar atvinnumálastefnu getur haft veruleg áhrif á byggð víðs vegar um landið næstu árin, enda ráðast fólksflutningar milli byggðasvæða að verulegu leyti af atvinnuástandi á hverju svæði.

Með till. þessari til þál., sem hér er lögð fram, er annars vegar reynt að leggja áherslu á þátt iðnaðar í mótun atvinnustefnu næstu ára og hins vegar að tryggja Vesturlandi eðlilegan þátt í framkvæmd þeirrar stefnu. Ýmsar ástæður má nefna fyrir þörfinni á eflingu iðnaðar á Vesturlandi. Þar ber hæst, að hlutdeild Vesturlands í heildarfjölda landsmanna fer enn lækkandi þótt verulega hafi úr því dregið nú síðari ár í kjölfar uppbyggingar, ekki síst í sjávarútvegi á Snæfellsnesi og Akranesi, enn fremur með tilkomu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.

Fjöldi íbúa í dreifbýli á Vesturlandi er þó hlutfallslega meiri en almennt gerist á landinu í heild, en atvinnulíf er víðast hvar mjög einhæft. Á hinn bóginn eru ýmsar þær aðstæður fyrir hendi í landshlutanum sem gefa fyrirheit um fjölþætta iðnþróun ef skipulega verður að málum staðið og stuðningur veittur til að stuðla að raunhæfum framkvæmdum. Má þar nefna að Vesturland er í tiltölulega góðum samgöngutengslum við stærsta markað landsins. Þar er stutt í meginorkuflutningslínur og nægur jarðvarmi sem má hagnýta, er fyrir hendi víða í landshlutanum. Þar er einnig hægt að nefna, að hagkvæm virkjunaraðstaða er fyrir hendi í landshlutanum við Kljáfoss í Hvítá.

Af framansögðu má vera ljóst að á Vesturlandi er bæði þörf á skipulögðu átaki í eflingu iðnaðar og ýmsar ákjósanlegar aðstæður fyrir hendi sem á mætti byggja, eins og áður segir. Eins og ég hef greint frá, hafa margvíslegar rannsóknir, kannanir og gagnasafnanir verið gerðar á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins varðandi iðnþróun og jafnvel nýiðnað á Vesturlandi. Ég nefni rannsóknir á möguleikum til að nýta leirnámu við Búðardal, sem mun vera stærsta leirnáma sem finnst hér á þurru landi. Eru vissulega miklar vonir bundnar við að hægt verði að nýta þessa auðlind sem allra fyrst. Ég nefni perlustein úr Prestahnúki, sem ýmsir telja að geti skapað hér vísi að stóriðju eða öflugan útflutningsiðnað. Ég nefni gjall og vikur á Snæfellsnesi sem besta hráefni til byggingariðnaðar. Ég nefni vinnslumöguleika á flögubergi í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu. Margt fleira mætti nefna. Allar þær rannsóknir og kannanir, sem gerðar hafa verið, hafa mikið gildi sem grundvallarforsendur fyrir frekari iðnþróun á Vesturlandi. Hins vegar hefur á skort markvissari áætlanir um hvernig hugmyndum og möguleikum yrði best hrundið í framkvæmd. Þar hefur að sjálfsögðu fjármagnsfyrirgreiðsla hins opinbera mest að segja.

Fram hefur komið að það, sem gerir áætlanagerð eins og þá, sem hér er um beðið, erfiða, er að ekki hefur verið mörkuð almenn iðnaðarstefna af hálfu stjórnvalda sem Alþ. hefur samþykkt. Hafa tilraunir í þá átt enn ekki tekist. Sem betur fer hefur núv. ríkisstj. boðað að á þessu þingi komi iðnaðarstefnan til afgreiðslu og er það vissulega vel. Hér er um að ræða að mínu mati grundvallarmál fyrir framtíð þjóðarinnar sem Alþ. verður að móta.

Á 101. löggjafarþingi 1979 lagði iðnrh. fram þáltill. um iðnaðarstefnu byggða á áliti samstarfsnefndar um iðnþróun frá því í maí 1979. Þar segir svo í upphafi ályktunarinnar:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir framkvæmd iðnaðarstefnu sem hafi eftirfarandi meginmarkmið:

1. Að örva framleiðni í íslenskum iðnaði þannig að framleiðnistig hans verði sambærilegt við það, sem gerist í helstu viðskiptalöndum, og skilyrði skapist fyrir bætt lífskjör.

2. Að stuðla að hagkvæmri fjárfestingu til að fjölga störfum í iðnaði og tryggja fulla atvinnu með hliðsjón af aðstæðum í öðrum atvinnugreinum og áætlunum um fjölda fólks á vinnumarkaði.

3. Að leggja sérstaka áherslu á að efla iðnað á þeim sviðum þar sem innlendir samkeppnisyfirburðir geta nýst til arðbærrar framleiðslu á vörum og þjónustu, jafnt fyrir heimamarkað sem til útflutnings.

4. Að bæta starfsskilyrði og auka áhrif starfsfólks á vinnustöðum og koma í veg fyrir skaðleg áhrif af völdum iðnvæðingar á náttúru landsins og umhverfi.

5. Að tryggja forræði landsmanna yfir íslensku atvinnulífi og auðlindum og stuðla að æskilegri dreifingu og jafnvægi í þróun byggðar í landinu.

Þetta er m.a. álit starfshópsins frá 1978 og hefur margt fram að færa til að marka stefnu um iðnaðaruppbyggingu á Íslandi. En því miður, eins og ég sagði áður, hefur þessi heildariðnaðarstefna enn ekki verið gerð.

Álit mitt er að slík stefna þurfi að vera markviss og þannig uppbyggð að hún sé meira en orðin tóm. Það þarf að vera fyrir hendi í landinu tæknistofnun iðnaðarins sem getur verið leiðbeinandi og afgerandi fyrir ýmsan nýiðnað og unnið úr hugmyndum áhugaaðila í iðnaðinum. Lánastofnanir iðnaðarins verða að treysta leiðsögu slíkrar stofnunar. Við höfum í okkar landi, í okkar skipulagi Rannsóknaráð ríkisins, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. En ég verð að nota þetta tækifæri til að láta í ljós þá skoðun, að þessar ágætu stofnanir hafi ekki skilað enn þeim árangri sem þeim var ætlað til eflingar iðnaði í landinu. Fjárskortur, segja menn. Ég tel þó að skipulag þessara stofnana sé ekki nógu virkt. Í fjárlögum fyrir árið 1981 er gert ráð fyrir að veita tæpa þrjá milljarða til verkefna á sviði iðnaðar. Þar af fær Iðntæknistofnun 473 millj. og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins 353 millj. Þetta eru að sjálfsögðu miklir fjármunir. En því miður, ég tel að þó að forsvarsmenn þessara ágætu stofnana komi nú á fund fjvn. og telji að þetta sé of litið, þá sé hitt alvarlegra, að það skipulag; sem þær vinna eftir, skilar ekki þeim árangri sem að er stefnt. Ég get nefnt dæmi um það, að iðnaðarmenn, sem vinna í iðnaði og hafa unnið áratugum saman og vilja koma á framfæri hugmyndum til nýjunga í iðngreininni eða í hliðstæðum iðngreinum, fá svar frá forstöðumönnum þessara stofnana gjarnan á þessa leið: Er ekki nóg að gera hjá ykkur við það sem verið er að vinna að? — Þannig er tekið á móti þeim nýju hugmyndum, sem þessir menn hafa fram að færa, og er vissulega neikvætt. Ég tel að hér þurfi að verða breyting á sem allra fyrst. Það er nauðsynlegt fyrir þá stefnu sem ég tel að við séum sammála um að vinna að: eflingu alhliða iðnaðar í landinu.

Í sambandi við iðnþróunaráætlanir hefur af sérfróðum mönnum verið bent á nauðsyn þess að leggja áherslu á menntun og sérþjálfun starfsfólks og stjórnenda fyrirtækja, á hönnun, vöruþróun og rannsóknir. Það vill oft við brenna, að þessir þættir verða út undan þegar verið er að áætla fjármagn til uppbyggingar í atvinnumálum. Ég tel að þarna gæti Byggðasjóður komið að liði til viðbótar við sjóði iðnaðarins.

Um leið og ég fer fram á að hv. alþm. greiði götu þessa máls í gegnum þingið vil ég vænta þess, að hæstv. ríkisstj. láti framkvæma þá áætlunargerð sem hér er beðið um. Í því sambandi kemur til greina að stuðla að því, að á Vesturlandi verði stofnað Iðnþróunarfélag Vesturlands sem samtök sveitarfélaga og fyrirtækja á Vesturlandi standi að með aðild eða fyrir forgöngu iðnrn. Stuðli félagið m.a. að eflingu atvinnulífs á svæðinu með ráðgjafar- og upplýsingaþjónustu við fyrirtæki auk frumkvæðis að nýjungum í atvinnulífi og samvinnu um stór fyrirtæki í iðnaðinum. Enn fremur verði stofnaður Iðnþróunarsjóður Vesturlands sem hefði það markmið að stuðla að iðnþróun á Vesturlandi með lánveitingum, hlutafjárkaupum í arðvænlegum iðnfyrirtækjum og með því að veita lán til forathugana á nýjungum í atvinnulífinu. Ég treysti á stuðning stjórnvalda í þessu þýðingarmikla máli.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til hv. atvmn.