17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það hefði heldur mátt búast við því, að hv. þm. Friðrik Sophusson tæki til máls í næsta máli á undan, sem er um skoðanakannanir, þar sem hann var þingkjörinn fulltrúi í þeirri nefnd sem valin var hér 1970 og hefur ekki enn þá skilað áliti rúmum 10 árum síðar, en hann sá ekki ástæðu til að blanda sér í þær umr.

Ég vil út af því, sem hv. þm. segir, í fyrsta lagi taka það fram, að hv. þm. þykir það sjálfsagt þegar þeir óska eftir einhverjum umr, utan dagskrár, að ráðh. komi þar fyrirvaralítið, kannske með örstuttum fyrirvara. Ég held að það sé tæpast dæmi þess, að ráðh. hafi skorast undan að vera á þingfundi og svara fsp. utan dagskrár þegar þess hefur verið óskað. Yfir því er ekki ástæða til að kvarta.

Varðandi þær formlegu fsp., sem lagðar eru fram á þskj., er vitað að þó að ekki sé beint í samræmi við þingsköp eru margar fsp. þannig að það kostar mjög mikla vinnu að semja svör við þeim. Það þarf oft að leita til stofnana og sérfræðinga hingað og þangað og tekur kannske ekki aðeins daga, heldur margar vikur að fá svör við öllum þeim upplýsingum sem óskað er eftir. Það er, að ég ætla, oftast skýringin á því, að fsp. er ekki alltaf svaráð strax í næstu viku, eins og gert er ráð fyrir í þingsköpum. Þetta á sér eðlilegar skýringar.

Það, sem ég gerði aths. við, var þetta: Þm. hefur lagt fram formlega fsp. sem hann óskar svars við, og viðkomandi hefur fund eftir fund verið tilbúinn að svara og óskað eftir því við forseta að máli yrði tekið fyrir, en þá hefur það ekki verið hægt vegna þess að hv. fyrirspyrjandi er ekki viðlátinn. Það er þetta sem ég benti á. Ég vil gjarnan að það liggi fyrir ef ég yrði síðar meir fyrir ásökunum, t. d. frá þessum hv. fyrirspyrjanda, um að hafa ekki svarað fsp. hans, að þessar eru ástæðurnar.