17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. var með vangaveltur vegna fjarveru hv. þm. Eyjólfs Konráðs á Hafréttarráðstefnunni í næsta mánuði. Það verður að sjálfsögðu auðvelt að ráða fram úr því, ef hæstv. forsrh. er hræddur um að stjórn hans falli þess vegna. Ríkisstj. getur fylgt honum eftir og verið á Hafréttarráðstefnunni þennan tíma. Við erum nefnilega ekkert óvanir því hér á þingi að vera lausir við alla ráðh. Þetta er alveg sérstakt, að hafa um 80% þeirra hér í dag. Það hefur verið þess vegna sem hæstv. forsrh. upphóf þessa furðulegu umr., er hann var að ráðast á hv. þm. Halldór Blöndal vegna fjarveru hans, að ég tali nú ekki um smekkleysi forsrh. þegar hann fór að tala um nefnd sem hv. þm. Friðrik Sophusson átti sæti í og hefur ekki skilað einhverju áliti. Ég minni þingheim og jafnframt hæstv. forsrh. á það, að hann er formaður í svokallaðri stjórnarskrárnefnd. Við eigum kannske von á einhverjum skilum frá þeirri ágætu nefnd og hæstv. forsrh. á næstunni. Ég efa það, ef ég þekki verkin þeirra rétt þar.

Má ég jafnframt benda á það, að hæstv. forsrh. ásamt öðrum meðráðh. sínum, einum eða tveim, lagði á það mikla áherslu á s. l. hausti að ryðja sér inn í nefndir bæði í Ed. og Nd. Kannske við ættum að taka fram fundargerðarbækur og athuga með mætingar hæstv. ráðh. þar. Það er kannske ástæða til þess á næsta fundi í Sþ. að benda á það. Þeir fá ekki 10 fyrir þá mætingu.