17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2915 í B-deild Alþingistíðinda. (3044)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. og sérstaklega með tilliti til þess að þeir hv. tveir þm., sem síðast töluðu, hafa nú tekið af mér ómakið að miklu leyti.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., bar vitni um að við stjórnarandstæðingar reyndum að greiða fyrir þingstörfum í Ed. eins og annars staðar í þinginu og sagði mig fara þar rétt með í einu og öllu, enda vita það allir menn í þeirri hv. deild. Auðvitað var ég ekki að styrkja ríkisstj. með því. Ég tel mig hafa þingmannsskyldu að gegna, og ég reyni að greiða fyrir þingstörfum. Jafnvel þó við höfum langsamlega verstu ríkisstj. sem nokkurn tíma hefur setið á Íslandi er þó einu sinni Alþingi til og það er rétt að reyna a. m. k. að halda því að einhverju leyti upp úr þeim — ja, mér liggur við að segja sora sem víða er nú hægt að sjá í þessu þjóðfélagi.

Við eigum auðvitað að sameinast um það. Og það er af þeim sökum, en ekki vegna þess að ég sé að styrkja hæstv. ríkisstj., sem ég hjálpa til við að koma málum fram í Alþingi. Kannske hefur verið of mikið að því gert að láta ekki mennina sjálfa standa ábyrga gerða sinna.

Skætingur hæstv. forsrh. kemur mér nákvæmlega ekkert við og yfirleitt ekki neitt sem sá maður segir, enda þegir hann oftast ef hann er spurður. Hann telur sig ekki þurfa að standa Alþingi skil á einu eða neinu í gerðum sínum og því síður auðvitað þjóðinni. Það verða sem betur fer umr. utan dagskrár á eftir um leynisamninginn svokallaða og þá kemur það nú allt saman til athugunar og umr. Ég vona, að þær umr. byrji fljótlega, og skal ekki lengja þessar.

Og svo er náttúrlega þetta með stjórnarskrána sem hv. þm. Pétur Sigurðsson gat um: Það er ekki bara ein stjórnarskrárnefnd sem hæstv. forsrh. hefur verið að dunda í. Þær eru allmargar og fer að nálgast, held ég, hálfa öld; ferðir til Sviss og núna á síðari árum með ritara og eiginkonu til Norðurlandanna allra til þess að kynna sér stjórnarskrár þeirra landa því að það er víst erfitt að kosta frímerki á bréfin þaðan.