17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2916 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér finnst að þessum umr. ætti að fara að ljúka. Þetta eru orðnar nokkuð undarlegar umr.

Hæstv. forsrh. kvartaði yfir því, að tiltekinn þm., hv. þm. Halldór Blöndal, vantaði í salinn. Það er auðvitað merki þess, að hæstv. forsrh. saknar hv. þm. Halldórs Blöndals. En þá rjúka menn hér til og eru eitthvað hörundsárir yfir því, að forsrh. skuli sakna vinar í stað, og fara að setja hér á heilmikla umr. um það, eins og það sé eitthvað hneykslanlegt við það þó að hv. þm. Halldór Blöndal hafi orðið að víkja sér frá dagstund og ekki getað sótt þennan tiltekna þingfund.

Ég tel það þakkarvert hjá Ed.-mönnum og stjórnarandstæðingum í Nd. líka þegar þeir greiða fyrir málum ríkisstj. Ég vil leggja áherslu á gott samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu um framgang mála. Það er ekkert fengið með því að standa í basli að óþörfu. Það er miklu betra að reyna að láta þetta ganga liðlega fyrir sig og skemmtilegra andrúmsloft.

Ég fullvissa þingheim um að hv. þm. Halldór Blöndal kemur hér aftur. Ég fullvissa þingheim um að hv. þm. Halldór Blöndal ratar hér upp í ræðustólinn. Og ég get huggað hæstv. forsrh. með því, að hann fær tækifæri til þess að eiga orðastað við þm. þótt síðar verði.