17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2918 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Að gefnu tilefni af heldur lítt uppbyggjandi umr. hér áðan vil ég taka það fram, að ég kannast ekki við að beðið hafi verið óeðlilega lengi eftir svörum við fsp. til mín. Þetta er nú eina fsp. sem ég á á dagskrá.

Ég hef kannað þetta mál að sjálfsögðu og rætt það allítarlega við Vegagerð ríkisins og fengið frá henni upplýsingar sem ég byggi á svar mitt.

Við afgreiðslu vegáætlunar fyrir árin 1972–1975, sem gerð var á Alþingi vorið 1972, var þess getið í nál. meiri hl. fjvn. að fé af liðnum til tilrauna í vegagerð skyldi varið til að kanna möguleika á að byggja yfir hættulega staði í Óshlíð og í Ólafsfjarðarmúla, eins og kom fram í ræðu hv. spyrjanda. Í framhaldi af þessu hélt verkfræðingur frá Vegagerð ríkisins til Noregs sumarið 1972 til að kynna sér yfirbyggingu vega, þ. e. vegþekjur, vegsvalir og þess háttar, og í framhaldi af því voru gerðar ýmsar rannsóknir, mælingar og lauslegar kostnaðaráætlanir. Sérstaklega voru hafðir í huga hættulegir staðir, bæði í Óshlíð og í Ólafsfjarðarmúla. Kostnaður af þessari ferð varð um 10 þús. nýkr., en annar kostnaður vegna rannsókna, hönnunar o. fl. um 20 þús. kr.

Í vegáætlun fyrir árin 1974–1977 var fjárveiting árið 1976 til verkfræðilegs undirbúnings við hættulega staði í Ólafsfjarðarmúla sem nam 50 þús. nýkr. Við endurskoðun vegáætlunar 1976 var þessari fjárveitingu frestað, en aftur tekin inn á vegáætlun við endurskoðun vegáætlunar 1977–1980 og þá ákveðin fyrir árið 1979. Sú fjárveiting nam þá 100 þús. nýkr.

Á árinu 1978 fóru tveir verkfræðingar til Sviss til að kynna sér hvernig staðið er að slíkum málum þar og í beinu framhaldi til Noregs. Eftir þá ferð var fyrri hönnun endurskoðuð og nákvæmari kostnaðaráætlanir gerðar. Kostnaður af þessari ferð nam um 22 þús. kr., en kostnaður af hönnun var um 20 þús. kr.

Undanfarna fimm vetur hafa snjóflóðatalningar verið gerðar á ýmsum hættulegum stöðum, m. a. í Óshlíð og í Ólafsfjarðarmúla. Í Óshlíð voru talin veturinn 1975–1976 164 snjóflóð, veturinn 1976–1977 34, 1977–1978 50, 1978–1979 53 og veturinn 1979–1980 61 snjóflóð eða að meðaltali 72 snjóflóð á veginn á vetri. Kostnaður við slíkar talningar, bæði í Óshlíð og víðar, hefur ekki verið sérstaklega saman tekinn því starfsmenn Vegagerðarinnar, sem vinna við vegaeftirlit og snjómokstur, sinna þessum málum samhliða öðrum störfum.

Að þessum undirbúningi loknum má telja að fyrir liggi nokkuð haldgóðar upplýsingar um það, hvernig standa verður að slíkri vegsvalagerð. Að vísu er aðstaða hér á landi mjög mikið önnur víðast hvar en er í þeim löndum þar sem þetta er tíðkað, m. a. í Noregi og Sviss, þar sem þessi mál voru könnuð. Þar er víðast góður veggur af náttúrunnar hendi hlíðarmegin, þ. e. klettar sem festa má í og byggja vegsvalir út frá, en hér á landi er þessu víða og kannske víðast ekki svo farið, heldur skriður, þannig að byggja verður sterkan og öruggan vegg einnig þeim megin. Þetta eykur verulega kostnað við vegsvalir og virðist þær því verða dýrari hér en er almennt í þessum nágrannalöndum okkar.

Ég hef svo — í jan. s. l. — falið Vegagerð ríkisins að vinna áætlun yfir lausn á samgöngumálum þeirra þriggja staða þar sem telja má að öryggi sé einna hættast. Það eru Óshlíðin, Ólafsfjarðarmúli og Ólafsvíkurenni. Þetta verk er nú í gangi. Niðurstöður liggja að sjálfsögðu ekki fyrir. Þetta er allmikið verk. En ég hef haft í huga að þegar niðurstöður liggja fyrir megi m. a. skoða hvort ekki komi til greina að fjármagna vegagerð á þessum hættulegustu vegasvæðum sérstaklega og til viðbótarvið hina almennu vegáætlun. Ég vil taka það fram, að ég er almennt mótfallinn því að taka verkefni út úr vegáætlun, en ég tel að hér sé um svo mjög sérstakt verkefni að ræða, vegna þeirrar hættu sem vegfarendum er búin á þessum stöðum, að slíkt megi þó athuga þegar áætlanir liggja fyrir.