17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að fjármagni í þessu skyni kynni að vera nokkuð ójafnt skipt og má það vel vera. En í viðræðum mínum við Vegagerðina kom fram, að það er út af fyrir sig nokkuð erfitt að skipta jafnt á einstaka staði, því að einn staður nýtur þess sem fyrir annan er skoðað. T. d. er sú ferð, sem farin var 1978 til Sviss og var, má segja, kostuð af þeim 100 þús. nýkr. sem ætlaðar voru til að skoða þetta verkefni á vegáætlun 1974 og 1977. Vitanlega nutu allir þeir staðir sem við snjóflóðahættu búa, þeirrar þekkingar sem út úr þessu kom. Svipað má segja um það sem gert var áður samkv. vegáætlun 1972–1975. Hins vegar er mér ekki fyllilega ljóst hvort fjárveitingin 1974–1977 var af fé Norðurlandskjördæmis eystra eða af hinum almenna lið til tilrauna í vegagerð. Ef svo er höfum við notið þess að einhverju leyti líka á Vestfjörðum og ber að þakka það.

Ég fagna því, að menn taka vel þeirri hugmynd að fjármagna þessi sérstöku verkefni með sérfjárútvegun. Ég get hins vegar ekki tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, að nú sé umfram allt að byrja á þessum verkum. Umfram allt er að undirbúa þau sem allra best svo að menn fari ekki út í neina vitleysu. Ég er að vísu ekki hér með bráðabirgðakostnaðartölur, svo að það er kannske óvarlegt að fara með þær eftir minni, en ég held að ég fari rétt með að Vegagerðin telur kostnað við lausn á samgöngum fyrir Ólafsfjarðarmúlann á bilinu 70 og 140 millj. kr. og þar koma einar 3–4 lausnir til greina. Í fyrsta lagi er um að ræða mismunandi löng og mikil jarðgöng og í öðru lagi vegsvalir. Að því er nú unnið að meta þessa kosti og liggur ekki endanlega fyrir hvað þeir muni leggja til í því sambandi hjá Vegagerðinni.

Sama má segja um Ólafsvíkurenni. Þar eru vegsvalir ekki taldar lausn, en hins vegar liggur ekki fyrir hvernig málið verður þar leyst.

Ég hygg að Óshlíðin sé komin einna lengst í þessu sambandi. Þar mun niðurstaðan orðin sú, að þar verði að gera vegsvalir líka kallað vegþekjur. Mig minnir að kostnaður þar sé áætlaður á bilinu 40–60 millj. kr., en eins og ég sagði áðan er það með fyrirvara sagt og fer töluvert eftir því, hve mörg hættuleg gil og langur hluti af þeim vegi er tekinn. En að þessu er nú unnið og ég efast um að þetta geti legið nægilega fyrir í vetur. En þá má e. t. v. taka það upp sem sérstakan lið að nýju fyrir 1982.