17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2929 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Kjartan Jóhannsson, hefur með einstökum ágætum í stuttu máli rakið gang þess mikla alvörumáls sem hér er nú til umfjöllunar. Það var hér til umr. fyrir réttum þrem vikum, en hefur síðan ekki fengist haldið áfram umr., og eru ýmsar ástæður til þess og sumar réttlætanlegar. Það var Norðurlandaráðsþing, og ýmis atvik ollu því að ekki var hægt að halda umr. áfram fyrr en nú í dag.

Hæstv. utanrrh. er hér mættur og einstakir ráðh. eru það raunar, en ég sakna þó nokkurra þeirra. Að vísu er mér um það kunnugt að hæstv. forsrh. getur ekki verið mættur, a. m. k. núna í upphafi þessara umr., en ég tel það raunar ekki skipta neinu máli vegna þess að frá honum fást engin svör. Hann hefur greint okkur frá því, að hann muni ekki svara nema þá í véfréttarstíl. Menn minnast þess, hvernig umr. um þetta lauk fyrir þrem vikum. Þá tilkynnti hann nánast að hann væri þingið og eiginlega að hann væri líka þjóðin. Hann sagði að ef þeir, sem voru formenn Sjálfstfl. og Alþfl. í síðustu kosningum, væru að tala fyrir þjóðina, þá væru þeir ekki að tala fyrir einn eða neinn í varnarmálunum. Þó held ég að þeir hafi verið kosnir sem forustumenn ríflegs meiri hluta þjóðarinnar einmitt í varnar- og utanríkismálum. Það voru a. m. k. margir sjálfstæðismenn sem eftir því tóku þegar varaformaður flokksins sagði formann hans ekki tala fyrir þjóðina eða mikinn hluta þjóðarinnar þegar hann væri að árétta stefnu Sjálfstfl. í varnar- og öryggismálum. Þess vegna verður auðvitað ekki undan því vikist að hér verði haldið áfram umr. þangað til sannleikur þessa máls er kominn í dagsljósið. — Ég vildi helst að henni lyki alls ekki, hún héldi áfram í nótt og á morgun ef á þyrfti að halda, að við stöndum ekki upp fyrr en ráðherrar eða þá einhverjir þm. segja sannleikann, því að hér hefur ekki verið sagður sannleikur, það er ljóst, í besta falli hálfsannleikur, en þó að mestu leyti ósannindi.

Ég hafði tilkynnt allmörgum hv. þm. að ég mundi spyrja þá hér ákveðinna spurninga. Í þeim hópi er hæstv. landbrh., sem ég skýrði frá því fyrir tæpum þrem vikum að ég mundi spyrja um leynisamninginn þegar þessum umr. yrði haldið áfram. Í dag tilkynnti ég hæstv. dómsmrh. að ég mundi einnig spyrja hann spurninga. Þeir eru hvorugur hér mættur, en koma vonandi á eftir. Ég mun engu að síður lesa upp þær spurningar, sem ég ætla að beina til þeirra, og koma þeim á framfæri við þá með hjálp hæstv. forseta t. d., sem hefur reynt að finna út hvar þeir væru svo þeir gætu fengið þessar spurningar í hendur, en efnislega vita þeir af þeim, eins og ég greindi frá. Ég tel alveg sjálfsagt að þessir hæstv. ráðh. fái tækifæri til að bera af sér allan grun um að þeir séu aðilar að slíkum leynisamningi. Ef hann er fyrir hendi og þeir hafa ekki að honum staðið eiga þeir auðvitað að gera hreint fyrir sínum dyrum hér á hinu háa Alþingi. Alveg á sama hátt tel ég einsýnt að hv. þm. Eggert Haukdal hljóti að gera grein fyrir því, hvort honum hafi verið kunnugt um slíkan samning, og mun beina spurningum til hans og hef að sjálfsögðu skýrt honum frá því.

Ég hef einnig ákveðið að bera fram spurningar til fjögurra hv. þm. Framsfl., sem ég met alla mjög mikils, og trúi ekki öðru en þeir vilji segja satt og rétt og þeir muni virða bæði eigin heiður og virðingu Alþingis það mikið að skýra satt og rétt frá málum og hjálpa til að knýja á að ráðh. segi hér sannleikann. (ÓRG: Við hvaða þm. er átt?) Það kemur á daginn. Ég skal reyndar skýra frá því strax. Þeir hv. þm. Framsfl., sem ég hef hugsað mér að spyrja þessara spurninga, eru: Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, sem að vísu er hér ekki staddur nú, en hann veit hins vegar af því, að þessi spurning verður borin fram til hans, hv. þm. Stefán Guðmundsson og síðast en ekki síst hæstv. forseti okkar, Jón Helgason.

Spurningar þær, sem ég legg hér fram til hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh., eru á þennan veg:

1. Var þér kunnugt um að Gunnar Thoroddsen hefði gert leynisamkomulag við forustumenn stjórnarflokkanna þegar þú tókst sæti í ríkisstj. hans?

2. Ef svarið við spurningunni er nei er spurt: a) Hefur þú síðar komist að vitneskju um að slíkt samkomulag hafi verið gert? b) Ef þú veist um efni slíks samkomulags, viltu þá hér og nú greina frá því? c) Ef svo er ekki, viltu þá hér og nú krefjast þess af forsrh. og formönnum stjórnarflokkanna að þeir upplýsi, hvort slíkt samkomulag hafi verið gert, og greini frá efni þess?

Þetta eru þær spurningar sem ég ber fram við þessa tvo hæstv. ráðh. Ég treysti því að þeir svari þeim og svari þeim lið fyrir lið og án allra vífilengja og ekki með neinum véfréttarbrag á borð við málflutning hæstv. forsrh. og ég verð raunar að segja líka formanna stjórnarflokkanna. Ég átti að vísu ekki von á að formaður Alþb. mundi svara einu eða neinu, en ég segi það eins og er, að ég hef orðið fyrir geysilega miklum vonbrigðum með að hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl., skyldi hér engu svara, heldur aðeins vitna til véfréttar Gunnars Thoroddsens, hæstv. forsrh. Ég hefði mjög gjarnan viljað geta borið þessa spurningu fram við hann sem formann Framsfl., en ekki þurft að gripa til þess að bera þær fram við aðra menn í hans flokki. Það er ekki vegna þess að ég sé að reyna að lítilsvirða hann. Hann hefur sjálfur dæmt sig úr leik. Og þó, hann gæti komið hér upp strax á eftir mér og skýrt satt og rétt frá málinu. Hann á enn þá tækifæri til þess að lenda ekki í Watergate-máli, en ég sé ekki betur en allt þetta mál lykti af Watergate. En ef þessi samningur er fyrir hendi hygg ég þó, að það verði hvorki hægt þar að skera eða brenna, eins og í Hvíta húsinu, því að ég er sannfærður um að ef þessi samningur hefur verið undirskrifaður af hæstv. forsrh. og formanni Framsfl. og Alþb. muni þeir Alþb.-menn geyma sitt eintak til að sýna þegar upp úr stjórnarsamstarfi slitnar og til að geta sannað að þessi samningur hafi verið gerður.

Ég get ekkert sannað í þessu efni. En ég tek undir með síðasta ræðumanni, að það fer varla hjá því að samningurinn sé fyrir hendi. A. m. k. skyldi maður ætla að það fari ekki hjá því, að samningurinn sé fyrir hendi, eftir öllum þeim upplýsingum sem fram hafa komið. A. m. k. held ég að það sé alveg ljóst, að gert hefur verið samkomulag um að þingrofsvaldið væri ekki hjá forsrh. Það er altítt að gera það í samsteypustjórnum. En það fæst ekki einu sinni svar við því, hvort það samkomulag hafi verið gert, né heldur hinu, að samkomulag þurfi að vera um allar meiri háttar ákvarðanir í ríkisstj., sem auðvitað er fyrst og fremst hugsað til þess að veita kommúnistum neitunarvald í öryggismálum landsins.

Spurningarnar, sem ég ber fram við sjálfstæðismenn, þessa tvo hæstv. ráðh. sem ég þegar hef spurt og hv. þm. Eggert Haukdal, eru auðvitað ekki síst bornar fram vegna þess að hver einasti kjósandi þessara manna — eða svo til hver einasti — kaus þá í því trausti að þeir stæðu á verðinum í öryggis- og varnarmálum. Svo augljós er stefna Sjálfstfl. í því máli og raunar Alþfl. líka, eins og ég gat um áðan, þ. e. þeirra tveggja flokka. Það er þess vegna alveg ljóst að þeir hljóta að eiga heimtingu á því að fá að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað öryggis- og varnarmál snertir. Um hitt má alltaf deila, hvort stefnur séu svo skýrar í efnahagsmálum, þar sem samsteypustjórnir eru, að sjálfstæðismenn hafi ekki undir neinum kringumstæðum, neinir þeirra, kosið þessa menn til að reka efnahagsmálastefnu, sem ég tel að vísu sósíalíska og vonlausa stefnu í einu og öllu, en það má alltaf um það deila. Um hitt verður alls ekki deilt, að hver einasti kjósandi þessara manna á heimtingu á að þeir svari því, hvort öryggis- eða varnarmálunum sé að einhverju leyti stefnt í hættu þannig að kommúnistar hafi þar neitunar- eða úrslitavald. Um það snýst þetta mál. Þetta er ósköp einfalt. Það snýst fyrst og fremst um þetta. Ef þessi leynisamningur er fyrir hendi er þetta ákvæði inn í hann sett til að tryggja kommúnistum í fyrsta skipti í sögunni úrslitavald í öryggis- og varnarmálum. Það hefur engin vinstri stjórn veitt kommúnistum áður. Það er þá í fyrsta skipti. Þá lýðræðissinna, sem á því bera ábyrgð, á að draga til ábyrgðar, en það á líka að koma í veg fyrir að aðrir saklausir liggi undir sökum af því að það fæst ekki skýrt frá því, hvort samningurinn hafi verið gerður, og ef hann hefur verið gerður, á hverra ábyrgð hann hafi verið gerður, hverjir viti um hann og hafi vitað um hann. Um þetta snýst málið.

Þá er ég sem sagt kominn að því að spyrja þessa hv. fimm þm., sem ég áðan nefndi, og spurningarnar eru auðvitað mjög svipaðar, en þó eðli málsins samkv. aðeins annað orðalag. Þess vegna ætla ég að lesa þær upp eins og ég hef sett þær á blað og mun afhenda þeim hér á eftir. Þessum spurningum er sem sagt beint til hv. þm. Eggerts Haukdals, Davíðs Aðalsteinssonar, Stefáns Guðmundssonar, Halldórs Ásgrímssonar og hæstv. forseta, Jóns Helgasonar, og ég efast ekki um, að þessir menn muni svara, og ég þykist vita, að þeir muni svara greitt, að einnig þm. Framsfl., og þá auðvitað ekki síst forseti, vilji gæta virðingar Alþingis og réttar þess til að fá að vita um afdrifaríkar ákvarðanir æðstu stjórnvald og samninga sem gerðir eru.

Það er þingræðisstjórn við völd á Íslandi. Þingið á heimtingu á að fá að vita allt sem máli skiptir í herbúðunum. Það er þingræðið. Þess vegna er auðvitað alveg ljóst að hæstv. forseti mun svara þessum spurningum greiðlega og ekki færast undan að hjálpa til við að fá allan sannleikann leiddan fram í dagsljósið. (ÓRG: Hvað segja hinir þm. Framsfl.?) Ég valdi þessa menn vegna þess að ég treysti þeim, tel þá mjög heiðarlega og góða menn. Það eru fleiri heiðarlegir og góðir menn í Framsfl. Ég spyr engan Alþb.-mann, af því að ég vænti ekki neins svars frá þeim sem bitastætt er í. Þeir munu allir vitna til véfréttar Gunnars Thoroddsens. Þess vegna spyr ég ekki hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, því mig varðar ekkert um hvað hann segir í þessu máli. Það er ósköp einfalt. (ÓRG: Ég spurði um hina þm. Framsfl.) Hvers vegna ekki þeir allir? (ÓRG: Já.) Ef þessir fjórir svara ekki mun verða reynt að spyrja aðra, en ég veit að einhver þessara fjögurra og þeir væntanlega allir munu svara greitt og satt. (StJ: Nú verður þm. fyrir vonbrigðum.) Og þá er spurt:

1. Var þér kunnugt um að Gunnar Thoroddsen hefði gert leynisamning við forustumenn stjórnarflokkanna þegar þú ákvaðst að styðja ríkisstj. hans?

2. Ef svar við spurningunni er nei, er spurt:

a) Hefur þú síðar komist að vitneskju um að slíkt samkomulag hafi verið gert?

b) Ef þú veist um efni slíks samkomulags, viltu þá hér og nú greina frá því?

c) Ef svo er ekki, viltu þá hér og nú krefjast þess af forsrh. og formönnum stjórnarflokkanna að þeir upplýsi, hvort slíkt samkomulag hafi verið gert, og greini frá efni þess?

Ósk mín er sú, að hverjum lið þessara spurninga sé svarað afdráttarlaust. Ég fer ekki fram á neitt meira en það á þessu stigi málsins.

Það er ljóst, eins og ég raunar vék að áðan, að virðingar sinnar vegna getur Alþingi ekki látið þetta mál niður falla. Það verður að halda þessum umr. gangandi — kannske með einhverju svefnhléi ef í það fer — þangað til svörin fást. Það verður að draga sannleikann fram í þessu máli. Hann verður dreginn fram í þessu máli alveg eins og í Watergate-málinu. Hver sem hann er skal hann koma fram. (ÓRG: Var þm. sammála grein Styrmis Gunnarssonar um sögulegar sættir?) Kemur það þessu máli við? (ÓRG: Já.) Ég býst við að hv. þm. eigi við það, hvort það hefði verið hugsanlegt að Sjálfstfl. gengi til samstarfs við kommúnista um ríkisstjórnarmyndun. Ég las þessa grein Styrmis, ef það er það sem hann á við. Ég get upplýst að í þingflokki Sjálfstfl. var sá möguleiki ræddur meðal margra annarra að ganga til samstarfs við kommúnista, annaðhvort kommúnista eina eða með kommúnistum og Alþfl. Hins vegar datt engum lifandi manni í hug að Sjálfstfl. gæti nokkurn tíma gengið til samstarfs við Alþb. og Framsfl, og þá eina. Það yrði þá að vera í þjóðstjórn. Sjálfstfl. yrði í algerum minni hl. í slíkri stjórn. Það datt engum þessi möguleiki í hug í öllum þeim umræðum sem fram fóru um stjórnarmyndun. Hitt datt okkur í hug, að starfa með Alþfl. einum, að starfa með Framsfl. einum, að starfa með Alþfl. og Framsfl., að starfa með kommúnistum einum, að starfa með kommúnistum og Alþfl., við buðumst til að mynda minnihlutastjórn og utanþingsstjórn var í burðarliðnum. Þarna voru átta möguleikar sem voru hagstæðari fyrir Sjálfstfl. og íslensku þjóðina en uppákoman sem síðan varð: stjórnarmyndun hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens. (ÓRG: En hvað um möguleika Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl.?) Ég var að segja að það datt engum í hug. Það var svo fjarstæðukennt að við gerðum það. En þegar við létum okkur detta í hug að mynda stjórn með kommúnistum einum t. d. eða kommúnistum og Alþfl. höfðum við auðvitað gengið frá því, eins og lög gera ráð fyrir, að kommúnistar kæmu hvergi nálægt öryggis- og varnarmálum. Það hefði beinlínis verið tekið fram. Það hefði þá verið gert með leynisamningi ef það hefði ekki mátt birta það. Það var allt í lagi að gera leynisamning þannig, og auðvitað hefðu þeir skýrt frá honum ef þess hefði verið krafist. En það er augljóst að Sjálfstfl. gat ekki farið í stjórn með báðum höfuðandstæðingum sínum, nema þá það væri þjóðstjórn. Það datt engum lifandi manni í hug, fyrr en hæstv. núv. forsrh. datt það í hug þegar aðrir höfðu hryggbrotið hann. Þetta var hans einasta von til að geta orðið forsrh. Það er staðreynd málsins. Það vita allir sem vilja vita.

En ég ætla sem sagt ekki á þessu stigi að tefja þessar umr. Þessar spurningar liggja skýrar fyrir. Ég mun nú útbýta þeim hér. Ég hef ljósrit af þeim og vil láta þessa heiðursmenn, sem ég hef hér spurt, hafa þær fyrir sér. Ég veit að þingheimur allur hefur áhuga á að fá þessi svör og bíður spenntur eftir þeim.