17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2934 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þessum spurningum um verkefnaskiptingu milli ráðh. og hvort bókanir kunni að hafa verið gerðar við stjórnarmyndun var og er réttilega beint til forsrh. Hann hefur nú svarað þeirri fsp., en mér skilst að sumir þm. kvarti yfir því, að þeir hafi ekki skilið svar hans. Ég vænti að eftir að hæstv. landbrh. hefur talað hér hafi verið svarað þessu á þá lund að allflestir — svo að ég segi nú ekki meira — hv. þm. hafi skilið.

Það er sagt að þessar spurningar hafi verið sérstaklega varðandi varnarmál og öryggismál. Ég hef áður lýst því, hvað ég tel þar um gilda. Mér er ljúft að gera grein fyrir því hér, án þess að ég ætli nokkuð að fara að ganga inn á verksvið forsrh. og svara fyrir hann, og ég segi þetta: Það er ekki fyrir hendi neitt sérstakt samkomulag um varnarliðsmál er þrengi valdsvið utanrrh. í þeim efnum. — Ég skal gjarnan endurtaka þetta: Það er ekki fyrir hendi neitt sérstakt samkomulag um varnarliðsmál er þrengi valdsvið utanrrh. í þeim málefnum.

Ríkisstj. er ekki fjölskipað stjórnvald nema í undantekningartilfellum. Ákvarðanir þar byggjast því sjaldnast á atkvgr. Hitt er annað mál, að á ríkisstjórnarfundum er auðvitað mjög oft fjallað um þau málefni sem óumdeilanlega eru í verkahring tiltekins ráðh. Slíkt á auðvitað fyrst og fremst við þegar um er að ræða lagafrumvörp sem nauðsynlegt er að kanna og tryggja að þingfylgi sé fyrir, en auk þess getur það átt við um önnur þingmál og getur þá oft verið æskilegt til þess að skapa pólitíska samstöðu og samstöðu og samábyrgð ríkisstj. Leiki vafi á því, undir hvaða ráðh. málefni heyri, sker forsrh. úr. Og auðvitað sker forsrh. úr ef hér verður einhver vafi, og ekki ætla ég mér að fara að deila við dómarann. Hitt er náttúrlega annað mál, að ég áskil mér allan rétt í því sambandi, hvort ég vil þá skipa sæti utanrrh.

Þau ár, sem ég hef verið ráðh, er það alger undantekning að fjallað hafi verið á ríkisstjórnarfundum um varnarliðsmál og varnarliðsframkvæmdir. Í stjórnarskránni er reyndar ákvæði um ráðherrafundi og það ákvæði er endurtekið í lögunum um Stjórnarráð Íslands. Samkv. þeim ákvæðum á að fjalla um nýmæli í lögum og mikilvæg stjórnarmálefni á ráðherrafundum. Það er að sjálfsögðu teygjanlegt hvað séu mikilvæg stjórnarmálefni. En hvað sem skýringu á því líður vísa ég til þeirrar venju sem fylgt hefur verið um afgreiðslu varnarliðsmála svo lengi sem mér er kunnugt um og ég lýsti áður. Auðvitað breyta þessi ákvæði stjórnarskrár og stjórnarráðslaga engu um það, hjá hverjum ráðh. ákvörðunarvaldið sé.

Ég tel mig mjög hafa kappkostað að hafa sem best samstarf við utanrmn. Það á líka við um varnarliðsmál eftir því sem unnt er. Ég vek athygli á að samstarf utanrrh. við þn. er með öðrum hætti og nánara en annarra ráðh. við þn., þar sem hann mætir alltaf á fundum utanrmn., gefur þar skýrslu og svarar fyrirspurnum.

Ég vona að ég hafi með þessum orðum svarað skýrt þeirri fsp. sem hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín.