17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (3077)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir drengileg svör og skýr, svo langt sem þau ná, og ég vil raunar líka þakka hæstv. sjútvrh. fyrir allskýr svör. Málið er nú farið að skýrast. Hann sagði að vísu að það væri ekkert leynisamkomulag, ég held að hann hafi notað það orðalag, en bætti svo við, að það væri samkomulag um að forsrh. gæti ekki notað þingrofsvald, — ég held að ég hafi örugglega skilið það rétt — ekki einn. Það er sem sagt orðið samkomulag um þetta, það er þá orðið upplýst hjá formanni Framsfl., og hann bætti við að vitanlega hefur ríkisstj. sett sér starfsreglur. Það er sem sagt komið í ljós, að um tvennt hefur verið launung. Við höfum ekki fengið svar við því áður.

Nú er ljóst að samkomulag er um að forsrh. geti ekki einn notað þingrofsvaldið. Ég leyfi mér að spyrja: Er það samkomulag skriflegt og hverjir hafa undirritað það? Síðan er upplýst að settar hafi verið sérstakar starfsreglur ríkisstj. Ég leyfi mér að spyrja: Eru þær skriflegar og hverjir hafa undirskrifað það? Er þetta eitt og sama plaggið eða eru plöggin tvö?

Þetta eru auðveldar og einfaldar spurningar sem ég vona að hæstv. sjútvrh. skjóti sér ekki undan að svara úr því að hann er byrjaður að segja okkur sannleikann. Hann hefur sagt okkur þann sannleika, að það sé samið um þingrofsvaldið og það sé samið um sérstakar starfsreglur. Þegar hann hefur svarað þessu, hvort sem hann segir nú að þetta sé munnlegt samkomulag eða skriflegt, þá á ég von á að hann upplýsi okkur um hverjar þessar sérstöku starfsreglur séu, og helst að við fáum strax í dag að sjá eða heyra og fáum að vita hvort plaggið er eitt eða tvö. Leynisamningurinn er fyrir hendi. Það er upplýst af hæstv. sjútvrh. Fyrir það er ég honum auðvitað hjartanlega þakklátur og við öll og sjálfsagt þjóðin öll. Nú er bara eftir að fá að sjá plaggið eða plöggin ef þau eru fleiri en eitt. Svona er málið einfalt. Þetta var hægt að gera strax. Það þurfti ekki að bíða í þrjár vikur með það eftir að hæstv. utanrrh. lét að því liggja í viðtali við Tímann að slíkt plagg væri fyrir hendi.

Við skulum svo, þegar við erum búin að fá að sjá plaggið, deila um það — já, og þurfum ekkert að deila um það. Við skulum vona að það sé með þeim hætti að það sé rétt að það taki ekki til utanríkismálanna. En það var þó athyglisvert, eins og hv. þm. Birgir Ísleifur Gunnarsson vakti athygli á, að hæstv. utanrrh. var með hnitmiðað orðalag. Það væri ekki fyrir hendi neitt sérstakt samkomulag um varnarmálin o. s. frv. Ég hygg að þetta muni vera rétt. Ég hygg að plaggið sé eitt og fjalli fyrri liðurinn um þingrofsvaldið og hinn síðari um að engar meiri háttar ákvarðanir séu teknar nema með samþykki allra aðila ríkisstj., þ. e. að þar með hafi Alþb.-mönnum verið fengið stöðvunarvald í varnarmálunum eins og öðrum málum. Þetta hygg ég sé staðreynd og mér sýnist þetta allt saman vera að koma á daginn.

En sem sagt til þess að spara nú tíma, væri það hugsanlegt, hæstv. sjútvrh., að þú greindir nú og hér frá því, hvort þetta væri eitt og sama plaggið og hverjar starfsreglurnar, sem þú upplýstir að hefðu verið settar, væru'? Eru þær skriflegar? Eru þær munnlegar? Er hægt að fá að vita hverjar þær séu? Er þetta plagg til? Er leynisamningurinn til eða er hann ekki til? Þetta er ósköp einfalt mál.

Þetta er Watergate-mál. Sannleikurinn kemur í dagsljósið. Ef hann kemur ekki fram nú á næstu mínútum og næstu klukkutímum, þá kemur hann fram í dagsljósið seinna. Það þýðir ekkert að ætla sér að skjóta sér undan því í svona máli, það er alveg ljóst. Sannleikurinn er að koma í ljós og hann verður dreginn út úr mönnum.

Mér þótti heldur vanta á hjá vini mínum, hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, að víkja ekki að c-liðnum öðruvísi en hann gerði. En þó gat hann kannske ekki gert það vegna þess að hann hefur sjálfsagt skilið hæstv. sjútvrh. eins og ég, að hann væri búinn að upplýsa að samkomulagið væri fyrir hendi, vantaði aðeins að hann sýndi okkur það, af því að hæstv. ráðh. hafði þá talað. Ég varð hins vegar fyrir miklum vonbrigðum með hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, að sneiða alveg hjá þessu, af því að þá hafði ráðh. ekki talað. Hv. þm. — og á sama hátt hæstv. forseti — vék ekkert að því, hvort þeir væru tilbúnir að hjálpa okkur til að fá samningana fram í dagsljósið. C-liðurinn hljóðaði um það. Hvorugur þeirra vék að því einu orði.

Spurningar mínar hljóða einungis um það: Hefur verið samið um eitthvað sem þjóðinni hefur ekki verið sagt frá og þinginu ekki sagt frá? Ég er ekki að spyrja um nokkurn skapaðan hlut annan.

Til er slíkt samkomulag. Ég nota orðið samkomulag. Nú segir hæstv. sjútvrh. að slíkt samkomulag sé til og ekki bara um eitt atriði, heldur tvö, það sé um tvö atriði. Þetta virðist vera eins og að tala við smábörn, en ég endurtek: Hæstv. ráðh. hefur upplýst að það sé til samkomulag um þingrofsvaldið. Hann hefur upplýst að það sé til samkomulag um sérstakar starfsreglur. Þetta liggur á borðinu. Nú er spurningin: Er þetta skriflegt plagg eða er þetta munnlegt? Eru þetta eitt eða tvö plögg? Megum við fá að vita hvað í þessu stendur? Hvert er efni málsins?

Auðvitað er það rétt sem hæstv. utanrrh. sagði, að forsrh. á að skera úr um mismunandi skoðun á því, hvaða rn. fari með þetta málið eða hitt eða þennan þátt mála eða hinn. Auðvitað ætti hæstv. forsrh. að svara, en það er svo margbúið að biðja þann mann að svara slíku að ég held ég sé nú ekkert að beina spurningunni til hans. Ég býst ekki við að hann svari einu eða neinu. En ég á von á að hæstv. sjútvrh. svari nú þessu og ég skal endurtaka það einu sinni enn: Hvernig hljóðar þetta ákvæði um þingrofsvaldið, sem hann segir að sé fyrir hendi, og hvernig eru þessar starfsreglur? Vitanlega hefur stjórnin sett sér starfsreglur. Hvernig hljóða þessar starfsreglur? Er ekki langbest að sýna plaggið?