17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er fyrst að því er varðar ummæli hæstv. sjútvrh. í þessari síðari ræðu hans. Mér virðist hann nú hálfpartinn vera að reyna að draga eitthvað í land aftur. Alla vega vill hann ekki svara því, þó að það ætti ekki að geta verið stórt leyndarmál, hvort það væri t. d. skriflegt samkomulag um þingrofsvaldið. Það fékkst ekki einu sinni svar við því, hvort það væri skriflegt. Og þegar hann ræðir um starfsreglurnar núna fer hann að tala um að það hafi ekki verið brotin stjórnarskrá landsins eða nein lög. Við vorum ekki að spyrja um það. Við vorum að spyrja um hvort flokkarnir hefðu gert með sér eitthvert samkomulag. Auðvitað geta flokkar gert með sér samkomulag í þingræðisríki. Þá á að greina frá því samkomulagi í þinginu og þingmenn taka afstöðu til ríkisstj. eftir því, hvort þeir vilja styðja þann málefnasamning. Auðvitað er slíkt samkomulag þá hluti málefnasamnings. Það er þetta sem verið er að spyrja um. Nú liggur það alveg ljóst fyrir. Það felst í orðum þessara manna og þögn Alþb. Samkomulagið er fyrir hendi. Leynisamningurinn er staðreynd. Þetta er Watergate-mál.

Það er ekkert betra fyrir þessa menn að ætla að draga það á langinn að upplýsa þetta. Það, sem formaður þingflokks Framsfl. gerði best fyrir sjálfan sig, flokk sinn og þjóð sína, væri auðvitað að skýra frá því, hvort þetta er skriflegt, og leggja það fram. Hvernig hljóðar þetta um þingrofsvaldið? Hvernig hljóðar það samkomulag? Er þetta ekki ein málsgrein í þessu litla plaggi? Og hvernig hljóðar hin málsgreinin? Er það rétt að hún hljóði þannig, að engar meiri háttar ákvarðanir verði teknar í ríkisstj. án samkomulags allra aðila hennar'? Þjóð og þing veit nú að hún hljóðar þannig. Ég held að allir hljóti að draga þá ályktun af þessum ummælum. Hví þá ekki að sýna okkur þetta og hreinsa til? Plaggið verður aldrei brennt, vegna þess að Alþb.-menn halda því auðvitað ef þeir eiga það — og við skulum segja að það sé skriflegt — því þeir ætla að veita því síðar meir.

Hitt er svo ágætt, að hæstv. utanrrh., eins og hans er von og vísa, hefur tekið hérna af skarið um að hann ætli að fara sínu fram í varnarmálunum. Þetta hefur verið mesta átveisla sem ég hef nokkurn tíma verið viðstaddur hjá þeim Alþb.-mönnum. Þeir hafa étið og étið og étið með þögninni hér í allan dag, bara opnað munninn til að éta og til að gapa svolítið, eins og formaður þingflokks þeirra. Hann hefur gapað hérna fyrir þá alla. Hinir hafa verið að éta. Þeir éta auðvitað flugskýlin og auðvitað éta þeir flugstöðvarbygginguna og auðvitað éta þeir Helguvíkina. Þeir vilja vera í þessari stjórn. Það er svo gaman að sitja í stólunum. Þetta er átveisla!

Samningurinn er sem sagt fyrir hendi, það er ljóst. Í honum er fólgið tvennt: Annars vegar þetta um þingrofsvaldið og hins vegar starfsreglur. Það hafa ekki verið brotin nein lög eða stjórnarskrá, segir formaður Framsfl. Þess vegna get ég mjög vel við þessar umræður unað. Málið er að upplýsast. Það dylst áreiðanlega engum manni lengur, að leynisamningurinn er staðreynd og að í honum var kommúnistum fengið neitunarvald, en þeir þora ekki að nota það, vilja ekki nota það. Þeir vilja stólana. Þeir ætla samt að halda fylgi hernámsandstæðinga og segja: Við höfum plaggið, við notum það seinna. — Þetta er staðreynd málsins, liggur alveg ljóst fyrir.