17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2947 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Þetta hafa verið hinar ágætustu umræður. Utanrrh. hefur lýst því yfir, að hann muni einn fara með utanríkismálin og gera það á þann hátt sem honum býður helst að gera. Og svo á það að vera.

En í þessum umr. hafa forustumenn Alþb. ekki verið spurðir neins og þeir hafa þagað þunnu hljóði. Nú langar mig til að varpa fram nokkrum spurningum sem vissulega hljóta að skipta máli. Ef menn ætla að ná samkomulagi um mál hlýtur Alþb. að gera kröfu til þess, að á það sé hlustað í þeim málum sem það hefur haft hvað hæst um á undanförnum árum. Því spyr ég: Mun Alþb. sætta sig við byggingu eldsneytisgeyma í Helguvík? Mun Alþb. sætta sig við byggingu nýtísku flugskýla á Keflavíkurflugvelli? Mun Alþb. sætta sig við aðrar framkvæmdir sem lúta að styrkingu varna á Norður-Atlantshafi?

Mig langar til að spyrja formann Alþb. að þessu því að ef Alþb.-menn hafa ekki étið allt ofan í sig, sem reyndar eru uppi raddir um, hljóta þeir að láta sig þessi mál nokkru skipta. Því er nauðsynlegt að vita hvað er framundan í þessum efnum. Er meiningin að éta þetta allt saman eða er meiningin að ná einhvers konar samkomulagi; eins og kallað er, um að stöðva þetta eða afgreiða það með einföldum bókunum, eins og stundum hefur verið gert?

Reyndar er reynslan sú, að þegar Alþb. hefur setið í stjórn hafa hvað mestar framkvæmdir verið þar syðra. Er skemmst að minnast lengingar flugbrautar, sem var mikið mál á þeim tíma, en það var leyst með snyrtilegri bókun í ríkisstj. og allt gekk fram í þeim efnum. Nú er mjög fróðlegt að vita hvort meiningin er að fara að á sama veg og áður.