17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér finnst, þegar hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn eru að furða sig á þessum umr., að þeir horfi alveg fram hjá því, hvert var tilefni þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað, nefnilega það, að formaður Alþb. og formaður þingflokks Alþb. höfðu staðhæft á opinberum vettvangi í málgagni sínu að það hefði verið gert samkomulag innan ríkisstj. sem tryggði Alþb. völd í máli sem þá var til umræðu í öryggismálum þjóðarinnar, varðandi framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þetta er hið raunverulega tilefni umræðnanna. Það var verið að ræða um framkvæmdir af þessu tagi. Viðbrögð forustumanna Alþb. á þeim tíma voru þau að vitna til þess, að þeir hefðu gert samkomulag við hina stjórnaraðilana sem fæli það í sér að þeir hefðu tök á þessu máli. Engan getur því undrað þó að fsp. séu bornar fram um þetta efni, svo mikilvægt sem það er, og engan getur undrað þó að þm. láti ekki við það sitja að fá flissandi ráðherra upp í stólinn, eins og var fyrir þremur vikum, heldur vilji fá skýr svör.

En málin hafa líka þokast. Á þeim tíma þegar þessar framkvæmdir voru upprunalega til umræðu og forustumenn Alþb. gáfu yfirlýsingar um að þeir hefðu tök á málinu vegna þess að samkomulag af þessu tagi hefði verið gert, þá afneitaði formaður Framsfl. því algjörlega í viðtali í Tímanum. En málin hafa þokast, vegna þess að nú gildir ekki lengur þessi algjöra afneitun formanns Framsfl. Hann vill bara ekki kalla þetta samkomulag. Hann vill kalla þetta starfsreglur. Hins vegar hefur formaður Framsfl. ekki enn þá — né heldur aðrir þeir sem hér hafa tekið til máls af hálfu ríkisstj. — fengist til þess að upplýsa hvernig þessar starfsreglur væru. Það hefur verið vitnað út og suður um að stundum töluðu ráðherrar saman. Annað eins hefur gerst og ekki verið flokkað undir starfsreglur.

Því hefur verið haldið fram í þessum umr., að þessar starfsreglur væru að því tagi, að öll meiri háttar mál þyrftu samþykki allra aðila, og þar með að sú staðhæfing forustumanna Alþb., að þeir hefðu tök á þessum málum í gegnum þessar starfsreglur, ætti við rök að styðjast. Því hefur verið haldið fram í þessum umr. Þessu hefur í raun og sannleika ekki verið afneitað. Þær yfirlýsingar, sem hæstv. landbrh. og utanrrh. gáfu um þetta efni, fjölluðu einungis um hvort það væri sérstakt samkomulag um öryggismálin. Þeir fjölluðu ekki um það, hvort það væru starfsreglur fyrir hendi sem innihéldu þetta ákvæði sem þeir talsmenn Alþb. hafa haldið fram. Því hefur ekki verið neitað.

Þetta tel ég að sé auðvitað meginmál. Meðan þessu hefur ekki verið afneitað, hvorki af hæstv. forsrh. né heldur af formanni Framsfl., sem hefur þó átt hvað drýgstan þátt í að upplýsa þessi mál hér í dag, hlýtur þingheimur að ganga út frá því, að sú starfsregla, sem til er vitnað, sé með því innihaldi sem hér hefur verið haldið fram og einn ríkisstjórnarflokkurinn hefur líka haldið fram að væri. Það er ekki nema von að það veki ýmsum mönnum úr öðrum flokkum ugg að vita til þess, að starfsregla sé af þessu tagi. Vitna ég þá til þess sem ég sagði við upphaf þessarar umræðu, að varla hafa kjósendur Framsfl. eða Gunnars Thoroddsens og hans félaga gert ráð fyrir að atkvæði þeirra yrðu nýtt með þeim hætti að afhenda Alþb. neitunarvald af þessu tagi.

En við skulum í guðs bænum ekki agnúast út í þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það var ríkisstj. sjálf, það voru ráðherrarnir sem bjuggu þessar umr. til með þeim yfirlýsingum sem þeir gáfu á opinberum vettvangi og stönguðust á. Það er ekki nema von að við viljum fá skýr svör um þetta efni.