17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (3086)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til að vekja athygli hv, þm. á setningu sem hæstv. samgrh. sagði áðan. Ég skrifaði hana eftir honum. Hún hljóðaði svo: Ef menn vilja fá að vita hvað stóð í leyniplagginu, sem gekk á milli mín og fjmrh., skulu menn spyrja 3. þm. Vestf.

Herra forseti. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að ég hefði því miður ekki séð hvað stóð á leyniplagginu, en ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að upplýsa að þetta gekk á milli þeirra ráðherranna. Ef hann hefur áhuga á að gefa mönnum nasasjón af því, hvað þarna stóð, getur hæstv. ráðh. væntanlega gert það með að lesa upp úr þessu plaggi fyrir okkur hér. Það var ekki langt. Það stóð ekki mikið á því.

En það er skemmtilegt til þess að vita, að ástandið skuli nú vera orðið þannig hér á Alþingi Íslendinga að það sé hægt að ræða um varnar- og utanríkismál hér næstum því dögum saman með þátttöku þriggja flokka og sá fjórði sé stikkfrí. Eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði áðan: Svona á þetta að vera. Auðvitað á að ræða þessi mál án þess að Alþb. komi þar neitt nærri. (ÓRG: Eruð þið ekki ánægðir með það?) Jú, við erum mjög ánægðir með þétta og einkum og sér í lagi ánægðir með að það skiptir ekki lengur, herra forseti, neinu máli hvort svona samkomulag hefur verið gert eða ekki, því það er alveg ljóst að hæstv. utanrrh. ætlar sér ekki að standa við slíkt samkomulag sem kann að hafa verið gert eða kann ekki að hafa verið gert. Það er alveg ljóst að hann telur sig hafa til þess fulla heimild og fullan rétt.

Hvað eftir annað hafa þeir Alþb.-menn verið spurðir um álit á þessu máli. Þeir hafa kosið að segja ekki neitt. Auðvitað þýðir það, að þegar lokið er umr. eins og hér hefur farið fram og Alþb.-menn hafa ekki notað það tækifæri sem þeim hefur gefist hér til að ítreka sína fyrri skoðun, sem þeir virðast nú horfnir frá, þá er líka ljós að þó að svona samkomulag hafi verið gert ætla þeir sér ekki að krefjast þess að því verði framfylgt, enda segja þeir þá furðulegu sögu nú í röðum herstöðvaandstæðinga — ég þekki ýmsa góða menn þar — að allar þessar framkvæmdir á Keflavíkurvelli séu runnar undan rifjum hins alþjóðlega kapítalisma til þess eins að hrekja Alþb. úr íslensku ríkisstj. og auðvitað megi Alþb.-menn ekki ætlast til þess, að ráðherrar Alþb. og þingmenn þess láti undan þessum þrýstingi hins alþjóðlega kapítalisma og hverfi úr ríkisstj. — Ég veit m. a. s. hver hefur haldið þessu fram. Það er enginn annar en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb.