17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Það veldur mér vonbrigðum að hér skuli ekki hafa fengist svör við þeim spurningum sem ég spurði áðan. En þögn er sama og samþykki. Og ég vek athygli á því, að niðurstaða þessara umræðna er sú, að utanrrh. muni geta gert hvað sem honum sýnist hvað varðar framkvæmdir í sambandi við varnarliðið. Og þótt ég hafi ekki fengið svör frá þeim Alþb.-mönnum eða formanni þingflokksins sé ég hann fyrir mér hér í ræðustól. Ég sé hann fyrir mér í gervi Þorsteins matgoggs þá er hann hafði kýlt vömbina og étið sér til óbóta og sagði: Ég vildi að ég væri háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og byrjaður að éta.