18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Flm. (Tryggvi Gunnarsson):

Herra forseti. Ég geri nú tíðförult hér í ræðustól, en þetta er allt í lagi, ég er að fara héðan á morgun þannig að ég þreyti ykkur ekki mikið.

Ég hef leyft mér að flytja þáltill. sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á framtíðarvegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs.“

Þessi orð voru ekki fleiri, en það er annað verra í efni. Því var skotið að mér af ágætum vini mínum innan þessara sala, að á svona till. væri lítið — afsakið, herra forseti — sem þingkjaftæði. (Gripið fram í.) Já, en það yrði ekki nógu gott, finnst mér, því að ég er þannig gerður og hef verið til þessa, að ég hef haft mikla ánægju af að fylgjast með þingstörfum í mörg ár, hef lesið ræður í fjölda ára og þar á meðal þáltill. og hvernig þær eru orðaðar, og ég þóttist orða þetta nánast eftir því sem þar stóð. Ég vissi bara ekki að það væri ekki hæfilegt eða væri talið þingkjaftæði að koma með svona kurteislega orðaða till. ég vissi það ekki. Og ég á þá afsökun eina að hafa ekki orðað þetta öðruvísi.

En um leið og þessi ágæti maður gerði mér þennan grikk, vil ég segja, þá eyðilagði hann hina ágætu skrifuðu ræðu, því að í beinu framhaldi af því, að þessu er lýst svona, hljóta líka framsöguræðurnar að vera með sama nafni, og ég vil helst ekki taka hið leiða orð oftar mér í munn. Þetta átti að, vera leiðbeining hjá þessum ágæta manni og það efa ég ekki, en svona geta hlutir snúist í höndum manns. Þetta er nú kannske utan garna að ykkur finnst, en eitthvað verður að klóra í bakkann og reyna að tala fyrir þessari till. sem hljóðar upp á framtíðarvegarstæði. Að vísu eyddi ég nokkurri vinnu í grg. og þar lýsti ég ýmsu. Það kemur, held ég, ekki fram þar, en frá Vopnafirði eigum við um þrjár leiðir að velja, í þrjár áttir og það þykir víst allgott tölulega séð að geta farið í þrjár áttir. Ég veit ekki hvort Reykvíkingar geta farið nema í tvær, en við getum farið í þrjár.

Einni leiðinni, til norðurs, lýsi ég í grg. og fer ekki að þylja það aftur. Það köllum við að fara ströndina. Önnur leið er Vopnafjarðarheiðin sem liggur frá Vopnafirði og upp á hringveginn hjá Möðrudal. Þessi leið er eitthvað um 70 km löng. Þessi kafli var tekinn inn á vegalög 1979, ef ég man rétt, og það var ekki að sökum að spyrja, síðan hefur ekkert verið gert þar. Þannig er háttað, að á 16 km kafla í Langadal, þ. e. efst á veginum, er vegarslóð niðurgrafin. Ef menn ætla að fara þá leið þegar byrjar að snjóa og renna um leið, þá er eina leiðin að fara utan vegar. Þetta er önnur leiðin. Ég lýsi henni ekki nánar hér.

Þriðja leiðin, sem ég er að reyna að mæla hér fyrir, er yfir Hellisheiði. Það þekkja margir þá heiði, að ég held, vegna þess hve hún er sjaldan opin þegar menn langar til að fara hana. Ég segi víst í grg. að sá vegur fari í himnahæð. Mér er tjáð að þessi hæð sé 705 m. En það er eins og fleira gott austur þar, það er stutt upp í sjálfan himininn. Nú höfum við ekkert á móti himninum, Austfirðingar, en till. hljóðar um að leitað verði annarrar leiðar en þessarar, sem liggur svona nærri hinum hæsta tróni. Þetta vildi ég skýra örlítið. Við eigum þarna um ýmislegt að velja.

Mörgum dettur í hug að fara með ströndinni fyrir nes sem er á milli Vopnafjarðar og Héraðs og heitir Kollumúli. Þar utar er Bjarnarey þar sem Austfirðingar fólu Jón lærða forðum þegar hann varð fyrir galdraáburði annarra manna. Þessi leið er sennilega ófær vegna þess að þarna eru þverhnípishamrar og nánast engum færir, enda mætti segja að það heyrði undir náttúruspjöll ef við hreyfðum við svo voldugum klettum, fullum af álfum og tröllum.

Sú leið, sem mest hefur verið talað um austur þar, er að fara fyrst með strönd fyrir fjallið Búr, sem skilur Böðvarsdal, frægan úr gömlum sögum, og Fagradal. Þessi leið er efst á baugi þar núna, þ. e. upp Fagradal og niður að sunnan skammt norðan Ketilsstaða. Þessi leið fer í 405 m hæst en á 4 km kafla er hæðin 100–405 m. Til samanburðar get ég nefnt að Hellisheiði syðra fer í 370 m, Vaðlaheiði 520 m, Brattabrekka 390 m. Ég nefni þessi vegarstæði vegna þess að þetta eru þekktar leiðir og menn vita hvað ég er að bera saman þegar ég nefni þetta. Þetta er sú leið sem helst hefur verið bent á nú að fær yrði.

Ein önnur leið er til líka með þennan veg, að gera jarðgöng í gegnum fjallið. Við höfum reyndar ekki reiknað með þeim möguleika til þessa, því að þar er svo mikill kostnaðarmunur að það eitt mundi setja okkur stólinn fyrir dyrnar, en nú er komin alveg ný tækni í sambandi við jarðgangagerð, borun, og eftir því sem ég hef heyrt nálgast hún það að vera jafngóð og tæknin í sjálfri Búkollusögunni. (Gripið fram í.) Ef það er rétt að sú tækni sé á næsta leiti, þá er auðvitað engin spurning um það, að við eigum að grafa göng og vera sem allra næst jörðinni í okkar snjóþunga landi. Það er ekkert vafamál. Þetta á við alls staðar. Við eigum að fara í gegnum fjöllin, „brjótast það beint“, eins og skáldið sagði. En á meðan svo er ekki verðum við að sætta okkur við það sem lakara er, þó að ég styðji það síður, en tækni þessa, bortækni, þurfum við að athuga alvarlega.

Nú hljóðar till. upp á það að rannsókn fari fram. Þar varð mér á í messunni, eins og ágætur vinur minn sagði, að orða þetta svona, því að ég lagði þann skilning í þessa till., að með því að koma henni áfram til æðstu valda væri þó viss skylda lögð á herðar hinni æðstu stjórn sem fær svona till. í hendurnar. Ég sé að vísu að það er þykkur bunkinn á borðinu, en ég hélt satt að segja ekki að sá bunki færi til þess eins upp til æðstu stjórnar að hafna í ruslakörfunni. Ég vissi þetta ekki.

Herra forseti. Ég held að ég þreyti ekki þingheim meira á þessu bulli mínu. Það er viss vinur minn sem eyðilagði þarna ágæta framsöguræðu fyrir mér að mínum dómi. Þess vegna fór sem fór, ég varð að segja örfá orð svona upp úr mér.

Aðeins að lokum í sambandi við snjómokstursreglur. Það er mokað einu sinni í hálfum mánuði frá okkur, þ. e. til norðurs. Leið 2, Vopnafjarðarheiðin, er aldrei mokuð og hún er opin svona fjóra mánuði á ári. Hellisheiði er opin 1–2 mánuði á ári. Þetta eru samgöngurnar sem við búum við í dag, og því er kannske engin furða þótt ég, sem skýst hér inn í hv. Alþingi, vilji reyna að bæta aðeins úr á þessu sviði.