18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Áður en ég kem að þessari till sjálfri, þá var að leita á mig nýlega — og flokkast það ekki undir þessa till. — hvað það er mikil nýlunda að starfandi sjómaður skuli sitja hér á Alþingi. Þetta gæti sumum virst undarlegt. Hér hefur frá upphafi þings setið fjöldi bænda og gerir enn og er það vel, en það er hrein hending ef það kemur sjómaður hér inn í þingsali, — ég sé að hv. 1. landsk. þm., Pétur Sigurðsson, byrjar að skrifa. Það er að vísu mesta saltremman farin af honum, en engu að síður kemur þessi hv. þm., Pétur Sigursson, á hverju þingi með fjöldann allan af till. um öryggismál sjómanna. Að vísu á hann undir högg að sækja gagnvart lögfræðingum síns flokks, en það er annað mál. Ég ætla ekki að fara að gefa þm. hér einkunnir, en ég vil bara vekja athygli á þessu, að sjómenn í landinu eru jafnmargir og bændur, en það er hrein hending ef hér kemur sjómaður inn á þing. (Gripið fram í: Þú mátt ekki gleyma Garðari Sigurðssyni.) Hann er sumarsjómaður, Garðar Sigurðsson, en hann hefur vissulega stundað sjó og allt gott um Garðar Sigurðsson.

Ætli ég sé ekki sá seki sem vitnað var til í upphafi um „þingkjaftæðið“. Það er ekki vegna þess — og fjarri því — að ég geti ekki stutt þessa till. í bak og fyrir. Þessi heiði er fræg, Smjörvatnsheiði, og ef forseti mótmælir ekki langar mig til að hafa hér yfir gamla vísu sem einn af frambjóðendum Sjálfstfl. fór með, Árni heitinn frá Múla, þegar hann fór yfir þessa heiði. Þá hraut frambjóðandanum þessi vísa af munni þegar hann fór þessa heiði:

En sá heiðarandskoti,

ekki strá né kvikindi,

en hundrað milljón helvíti

af hnullungum og stórgrýti.

(Gripið fram í: Þetta var Smjörvatnsheiði.) Já, Smjörvatnsheiði, ég tók það fram. (Gripið fram í.) Við skulum nú ekki deila um hvar vísan var ort. En það var annað sem ég ætlaði sérstaklega að gera að umræðuefni um leið og ég lýsti stuðningi mínum við þessa till. — mér finnst hún eðlileg og sjálfsögð. Einstöku sinnum hef ég verið að glugga í Alþingistíðindi og fylgjast með þingstörfum í dagblöðum, og það, sem ég vildi benda á, er að hér eru samþykktar þáltill. ár eftir ár, en stjórnvöld gera ekki nokkurn skapaðan hlut með þær í býsna mörgum tilfellum þó að þær séu samþykktar hér á hv. Alþingi.

Nú ber ekki að líta á það sem ásökun á núv. hæstv. samgrh. því að þetta hefur reyndar verið einkenni á flestum ráðherrum úr hvaða flokki sem þeir hafa verið, en ég vil spyrja hæstv. samgrh.: Ef þessi þáltill. verður samþykkt frá Alþingi, mun hann þá gera ráðstafanir til þess að láta fara fram rannsókn á vegarstæðum milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs eða mun hann hafa það eins og margir fyrirrennarar hans, að lesa þessa till. í þinginu — og svo verður hún aftur borin fram eftir tvö ár eða svo?