15.10.1980
Efri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

3. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til þess að taka undir ýmislegt af því sem fram hefur komið í máli fyrrv. formanns fjvn. Þetta mál er dæmigert um það, hvernig ekki á að standa að ákvörðunum um slík efni sem þetta. Ég er honum alveg sammála um það, að um það er ekki deilt, hvort eigi að kaupa þyrlu fyrir þá þyrlu sem fórst á sínum tíma, heldur er hér einvörðungu um að ræða hvort rétt hafi verið að þessari ákvörðun staðið, hvort ekki hefði verið rétt að fjárveitingavaldið fjallaði sérstaklega um þessa ákvörðun á sínum tíma.

Hv. þm. vita að fjárveitingavaldið er í höndum Alþingis, og mér vitanlega hefur þetta mál aldrei komið til kasta eða ákvörðunar Alþingis. Samt sem áður eru þessi kaup fullgerð. Hér hlýtur að vera pottur brotinn, og ég fanga því, að hæstv. dómsmrh. hyggst láta mönnum í té upplýsingar um þetta mál. Ég hygg að þetta sé einmitt víti til varnaðar. Við eigum ekki að vinna svona að ákvörðun mála, hversu þörf sem þau eru. Og ég vænti þess, að út úr þessum upplýsingum frá hæstv. ráðh. komi það, að þm. sjái glöggt að við svo búið má ekki standa ef taka á réttar ákvarðanir af réttum aðilum um ríkisfjármálin.