18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2963 í B-deild Alþingistíðinda. (3105)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það ætlar að verða mikið mál út af þessum ágæta vegi sem mér heyrist að allir séu sammála um að þurfi að leggja. En ég vildi aðeins skýra nánar það sem ég sagði áðan út af því sem hv. þm. Helgi Seljan sagði. Það er rétt hjá honum, að þessar 840 millj. í tæknilegan undirbúning fara ekki í undirbúning á vegum sem eru þegar á vegáætlun. Það er rétt. En þetta fer í stjórnunarkostnað í sambandi við tæknimál og til undirbúnings nýrri vegáætlun. Þar er aðalkostnaðurinn. Nauðsynlegt er að undirbúa alls konar verkefni sem koma til endurskoðunar við vegáætlun fyrir öll kjördæmi landsins. Þar með eru t. d. sérverkefni sem þm. lýsa vilja sínum um röðun á. Ég þekki það úr mínu kjördæmi. Það hefur t. d. núna í 2–3 ár verið unnið að undirbúningi að vegi yfir Steingrímsfjarðarheiði sem við höfum kosið að setja næst í okkar röð, Vestfjarðaþingmenn, og það er greitt af þessum lið. Þannig geta menn farið í kringum allt landið.

En ég verð að segja það, að ég kannast ekki við að samþykktir hafi verið gerðar af Alþingi um einhverja sérstaka vegi til viðbótar eða fram hjá því sem þm. viðkomandi kjördæmis hafa valið. Það kann vel að vera að þetta sé rangt, en ég man ekki eftir að það hafi verið gert. En þessu fé er ráðstafað til að undirbúa vegáætlun fyrir hin einstöku kjördæmi og ný verkefni í því sambandi. Þess vegna vil ég í fullri vinsemd benda flm. og þeim, sem styðja þennan veg, á að taka málið upp við þm. kjördæmisins. Ég efast ekki um, miðað við þær mjög góðu undirtektir sem hér eru, að menn vilji raða þessum vegi ofarlega á sinn lista, og þá stendur áreiðanlega ekki á Vegagerðinni að ráðstafa fjármagni af þeim lið til undirbúnings þessum vegi. Ég er sannfærður um það. En ég held að menn hljóti að sjá að það verður orðinn hálfgerður frumskógur, ef annars vegar eru þm. viðkomandi kjördæmis, sem vilja láta skoða einhverja vegi, og síðan er þingið að samþykkja till. um aðra. Þetta þarf að samræma, og ég tel að sú regla, sem orðin er í þessu sambandi, sé mjög viðunandi, það verð ég að segja.

Um hafísveginn skal ég ekki ræða mikið. En það er víðar sem hafís getur lokað höfnum en á Norðurlandi eystra. Ég bendi t. d. á Strandirnar, Ísafjarðardjúp og víðar um Norður- og Austurland. Austfirðingar telja sig hafa orðið út undan með hafísfé. Þeir telja sig þola hafís, en ekki hafa fengið hafísfé.

Það er a. m. k. staðreynd, að sérstök nefnd var skipuð fyrir nokkrum árum til að reyna að losa vegáætlun úr viðjum þessara mörgu verkefna sem voru fyrir utan hana. Ég hygg að hv. þm. kannist við það. Og sú nefnd sameinaði þetta í vegáætlun undir þessa þrjá flokka, þ. e. stofnbrautir, þjóðbrautir og sérverkefni. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt, þótt við höfum fallist á hafísveg sem sérstaka nauðsyn í þessu tilfelli.