18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2972 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

140. mál, árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. menntmrh. fyrir það að hann eyddi tíma í að gera þessa till. að umræðuefni og segja álit sitt á henni og ræða innihald hennar. Hins vegar þótti mér það ekki nægilega traustvekjandi, hversu mikið hann vildi gera úr því, að erfitt væri að gera slíka könnun sem þessa. Og í lokin tók hann það fram, að hann mundi mæla með því að till. fengi athugun í nefnd. Ég hafði vænst þess, að hæstv. menntmrh. mundi taka því fagnandi, að þær skoðanir kæmu fram hér í þingi að það þyrfti að undirbúa vendilega endurskoðun á grunnskólalögunum. Ég held að ég fari rétt með það, að í lögunum eru ákvæði um það, að innan 10 ára skuli fara fram endurskoðun á þeim lögum. Þau munu hafa verið sett 1974, svo að það líður óðum að þeim tíma að þetta verk verði að vinna.

Ég er ekki að halda því fram að það, sem er tilgreint í till. okkar, sé fullnægjandi könnun til þess að byggja á endurskoðun grunnskólalaganna. En ég vil halda því fram og staðhæfi það, að hér er bent á mikilvægustu atriðin sem verða að liggja ljós fyrir þegar að endurskoðun á að vinna á grunnskólalöggjöfinni. Og það, sem hvatti okkur til að flytja þessa till., var það fyrst og fremst, að við óttuðumst að undirbúningur væri allt of skammt á veg kominn til þess að notast þannig, að niðurstöður af endurskoðun grunnskólalaganna væru tilbúnar innan 10 ára tímabilsins.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um till. að þessu sinni. Ég veit að hún fær þinglega meðferð. Hún verður að sjálfsögðu athuguð í nefnd og ég geri mér vonir um að Alþingi samþykki hana. Hvort hún samþykkir hana orðrétt eins og hún er lögð hér fram, það er kannske ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það, að meining hennar komist til skila og komist til nota til þess að hægt sé að vinna að endurskoðun laganna eins og gert er ráð fyrir. Og ég tel að það megi einskis láta ófreistað til þess að fram fari könnun í svipuðu formi og hér er gert ráð fyrir.