19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (3117)

264. mál, Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv, til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslegt öryggi. Með þessu frv. er leitað heimildar til fullgildingar á samningi Norðurlandanna um félagslegt öryggi sem nýlega var undirritaður í Kaupmannahöfn. Þessi samningur kemur í stað samnings um sama efni frá árinu 1955, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 53/1956, og í stað síðari breytinga á þeim samningi, svo sem gerð er grein fyrir í aths. og ég fer ekki frekar út í.

Þessi samningur er langur og ítarlegur. Í honum eru að sjálfsögðu mörg sömu ákvæði og í eldri samningi voru, en auk þess eru í honum allmörg nýmæli. M. a. er það nýmæli í þessum nýja samningi, að tekin eru af öll tvímæli um að hann skuli taka til tryggingargjalda ekki síður en tryggingabóta. Óvissa í þessu efni hefur á liðnum árum valdið því, að í sumum tilvikum hefur ýmist átt sér stað tvígreiðsla gjalda eða gjaldfrelsi. Enn fremur eru í samningnum ákvæði um greiðslu ferðakostnaðar manna sem veikjast eða slasast á ferðalagi um Norðurlönd utan síns heimalands, en lausn þess máls hefur stundum tekið nokkuð langan tíma og það hefur verið áhugamál Norðurlandaráðs að fá settar reglur um það efni.

Enn fremur má nefna ákvæði um að biðtími annars staðar á Norðurlöndum nýtist þegar úrskurða skal um rétt til viðbótarlífeyris, þ. e. lífeyris úr lífeyrissjóði. Það eru auk þess ýmis önnur nýmæli í þessum samningi eða ákvæði sem horfa til þess að gera hin eldri ákvæði skýrari, og vísa ég um það efni til aths. Þessi samningur var gerður að frumkvæði Norðurlandaráðs, þ. e. sú heildarendurskoðun, sem hér liggur fyrir og þessi samningur er niðurstaða af, hefur farið fram að frumkvæði félagsmálanefndar Norðurlandaráðs og að henni unnu viðkomandi rn. í hverju landi, hér á landi heilbr.- og trmrn.

Ég mun ekki rekja texta samningsins, þar sem hann fylgir hér með, og vísa að öðru leyti til þess sem um þetta segir almennum orðum í aths. með frv.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.