19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (3118)

264. mál, Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á stofnþingi Norðurlandaráðs 1953 var samþykkt till. til ríkisstjórna landanna um það, að athugaðir yrðu möguleikar á því að fella þágildandi samninga Norðurlanda á sviði félagsmála inn í einn heildarsamning um félagslegt öryggi. Samkv. þessari till. Norðurlandaráðs vann félagsmálnefnd Norðurlanda að undirbúningi þessa máls og voru það dönsku fulltrúarnir í nefndinni sem gerðu upphaflega uppkast að samningi. Samningurinn var síðan undirritaður á fundi félmrh. Norðurlanda í Kaupmannahöfn 15. sept. 1955 og hinn 9. apríl 1956 voru samþykkt á Alþingi lög um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta þennan samning fyrir Íslands hönd.

Við gildistöku samningsins á sínum tíma voru felldir úr gildi níu samningar sem gerðir höfðu verið af Íslands hálfu við eitt eða fleiri Norðurlandanna um félagsleg málefni.

Það eru því að verða 25 ár síðan Alþingi samþykkti lög um þann samning sem síðan hefur verið í gildi milli Norðurlandanna um félagslegt öryggi. Á þessu 25 ára tímabili hefur að sjálfsögðu mjög margt gerst í félagsmálum Norðurlanda og varla um virkara tímabil á því sviði að ræða, enda var svo komið fyrir 10 árum að mönnum þótti orðið tímabært að endurskoða gildandi samning og fella inn í hann með formlegum hætti ýmsar viðbætur og breytingar sem samþykktar höfðu verið á tímabilinu. Norræna félagsmálanefndin, þ. e. embættismannanefndin, ákvað því í nóv. 1972 að setja á laggirnar undirnefnd sem fékk það hlutverk að yfirfara og endurskoða þennan samning. Þessi nefnd hefur unnið í áföngum og lagði 1974 fram tillögur um nýjan sjúkratryggingasamning, sem staðfestur var 1975, og nýjan samning um lífeyrisgreiðslur, sem staðfestur var 1978. Síðan þetta var hefur nefndin unnið að heildarendurskoðun samningsins.

Nál. um þann samning, sem hér er verið að ræða um, var gefið út á árinu 1979 og lagt fram á þingi Norðurlandaráðs hér í Reykjavík 1980. Samningstillögurnar hafa síðan verið til umfjöllunar hjá umsagnaraðilum í löndunum öllum, eins og hæstv. utanrrh. gat um, og það var ekki fyrr en haustið 1980 og raunar ekki fyrr en í lok ársins 1980 að samningurinn lá fyrir með þeim breytingum sem gera þurfti eftir að leitað hafði verið álits hjá hinum ýmsu aðilum í öllum löndunum.

Leggja verður áherslu á það, að í grundvallaratriðum hefur samningurinn ekki breyst við þessa endurskoðun. Hins vegar hafa verið endurskoðuð einstök atriði sem þurfti að samræma lagabreytingum í löndunum á gildistímabili gamla samningsins. Þá var samningurinn orðinn allerfitt vinnuplagg eins og hann lítur nú út, því að ýmsir þættir hans áttu ekki lengur við, og ýmislegt í honum var leyst með öðrum hætti en gert var í nýrri alþjóðlegum samningum og ýmislegt var raunar alls ekki rætt í honum.

Af Íslands hálfu er það heilbr.- og trmrn. sem hefur haft með þessi endurskoðunarmál að gera, bæði fulltrúar í norrænu félagsmálanefndinni, en ekki síst Guðjón Hansen tryggingafræðingur sem hefur frá byrjun unnið að endurskoðun samningsins. Hann var áður tryggingafræðingur Tryggingastofnunar ríkisins og var því þessum málum gerkunnugur er hann tók þetta starf að sér.

Samningurinn sjálfur er nú í fjórum hlutum, alls 38 greinum, en auk þess er viðauki um ákvæði sem snerta löggjöf landanna.

Mjög mikil vinna hefur verið lögð í þennan samning og það hefur tekið langan tíma að samræma hann öllum þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið. Fullt tillit hefur verið tekið til þeirra aths. sem fram hafa komið af Íslands hálfu, en þær aths. hafa fyrst og fremst verið frá Tryggingastofnun ríkisins, fjmrn. og utanrrn. Þessi samningur var til umræðu á þingi Norðurlandaráðs fyrr í þessum mánuði. Að þeim umræðum loknum undirritaði ég samninginn hinn 5. mars fyrir Íslands hönd með fyrirvara um fullgildingu hans með löggjöf hér á Alþingi.

Það er e. t. v. til marks um það, hve Norðurlandaþjóðir telja félagslegt öryggi og félagsmál til sjálfsagðra hluta, að enda þótt danski félmrh., sem hafði forgöngu um undirskrift samningsins, boðaði til fréttamannafundar í tilefni af undirskrift hans kom enginn blaðamaður á fundinn né heldur ljósmyndari til að veita þessum atburði athygli. Þetta er til marks um það, að félagslegt öryggi er að verða svo sjálfsagt að mati íbúa á Norðurlöndunum að það telst hvorki fréttnæmt né frásagnarvert.

Lokafrágangur samningsins var gerður í utanrrn. af Guðmundi Eiríkssyni þjóðréttarfræðingi og íslenska þýðingin er gerð af Jóni S. Ólafssyni skrifstofustjóra í félmrn. í samráði við Guðjón Hansen.

Í tilefni af þeirri umr., sem fram fer hér á Alþingi um þennan samning, væri ástæða til að ræða nokkuð almennt um norrænt samstarf á sviði heilbrigðis-, félagsog tryggingamála. Ég ætla mér ekki að þessu sinni að lengja umr. með því miklu frekar. Hins vegar verður ekki komist hjá að minna á að á Norðurlöndunum leitast menn við að byggja upp heilbrigðis- og félagslega þjónustu í meiri og stærri stíl en tíðkast í öðrum löndum. Og reynslan hefur orðið sú, að þetta hefur gerst með svipuðu móti hjá þjóðunum öllum, enda þótt í reynd hafi hver þjóð fyrir sig byggt upp það kerfi sem hún hefur talið sér henta. Í málefnum fjölskyldnanna hafa markmiðin verið svipuð, að stuðla að fjárhagslegu öryggi barnafjölskyldna og skapa börnum vaxtarskilyrði sem þeim henta best. Jafnframt hefur á hverjum tíma orðið að nota takmarkað fjármagn til að leysa þau vandamál sem upp hafa komið við hinar ólíku aðstæður.

Ljóst er að Norðurlöndin eiga það sameiginlegt að þar er mikill áhugi á uppbyggingu félagsmála. En eins og ég sagði áðan virðast málin færast æ meira í það horf, að menn líti á félagslegu réttindin sem sjálfsagða hluti, svo sjálfsagða að það þurfi tæplega að gefa þeim nokkurn gaum.

Á síðasta áratug hefur sú samvinna, sem Norðurlöndin hafa komið á hjá sér, orðið fastari í sessi á þessu sviði. Það má að verulegu leyti þakka skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar í Osló og vaxandi starfi og fundum heilbr.- og félmrh. Norðurlanda og félags- og umhverfismálanefndar Norðurlandaráðs. Á fundi þessara aðila vorið 1976 varð samkomulag um að stefna að sérstakri áætlun um samvinnu milli Norðurlanda á þessu sviði, og nú er unnið eftir áætlun sem samþykkt var af heilbr.- og félmrh. Norðurlanda í ágúst 1977. Ný áætlun er nú í vinnslu í norrænu heilbrigðis- og félagsmálanefndinni og verður sennilega afgreidd til ráðherranna á fundi sem haldinn verður í þeirri nefnd hér í Reykjavík í aprílmánuði n. k.

Tilgangurinn með áætluninni um samvinnu er að þar sé lagður grundvöllur þeirra verkefna sem unnið er að af Norðurlöndunum sameiginlega og ráðherranefndin ber ábyrgð á. Hér er bæði um að ræða samvinnu almenns eðlis, en einnig sérstök verkefni sem eru fjármögnuð af fjármunum sem ráðherranefndin hefur yfir að ráða.

Í öllu því starfi, sem Norðurlöndin vinna að sameiginlega, hefur Ísland að sjálfsögðu einskorðað sig við þá þætti innan félagsmála og heilbrigðismála sem á hverjum tíma hefur verið talið að landið hefði mest gagn af. Á mörgum sviðum hefur því Ísland komið lítið við sögu. Við höfum ekki talið að við hefðum mannafla til að taka þátt í ýmsum þáttum starfsins, en við höfum hins vegar leitast við að fá upplýsingar um hvað er að gerast. Í því skyni ber sérstaklega að minna á starf norrænu félagsmálanefndarinnar og sérlega góð samskipti heilbr.- og trmrn. við skrifstofu Norðurlandaráðs í Osló og ómetanlegar upplýsingar sem þaðan berast um hvernig málin þróast á hverjum tíma.

Svo að ég víki að lokum aftur að samningnum, þá vil ég minna á það, að samningurinn gerir ráð fyrir að hlutaðeigandi stjórnvöld skuli í samvinnu semja þær reglur sem þörf er á til að tryggja samræmda norræna framkvæmd samningsins. Mun heilbr.- og trmrn. að sjálfsögðu taka þátt í því starfi svo sem nauðsynlegt er, enda gerir samningurinn ráð fyrir því í sambandi við framkvæmd hans, að stjórnvöld og stofnanir veiti gagnkvæmt liðsinni eftir þörfum. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir því, að í sérhverju landi skuli vera stofnun tilnefnd af hlutaðeigandi stjórnvaldi sem sé sérstakur tengiliður um samninginn, og hef ég gert ráð fyrir að tilnefna Tryggingastofnun ríkisins af okkar hálfu til samstarfs í þessum efnum.